Blokkaði aðstoðarskólastjóra sem krafðist svara

Jón Pétur Zimsen | 10. mars 2023

Blokkaði aðstoðarskólastjóra sem krafðist svara

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir það endurspegla viljaleysi til að takast á við vandann í skólakerfinu og breyta ríkjandi stefnu í menntamálum hér á landi, að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi blokkað hann á Facebook þegar hann innti hana eftir afstöðu hennar til ummæla tengdu málefninu.

Blokkaði aðstoðarskólastjóra sem krafðist svara

Jón Pétur Zimsen | 10. mars 2023

Heiða Björg sagðist ekki hafa þolað áreitið frá Jóni Pétri …
Heiða Björg sagðist ekki hafa þolað áreitið frá Jóni Pétri og því hafi hún blokkað hann. Samsett mynd

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir það endurspegla viljaleysi til að takast á við vandann í skólakerfinu og breyta ríkjandi stefnu í menntamálum hér á landi, að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi blokkað hann á Facebook þegar hann innti hana eftir afstöðu hennar til ummæla tengdu málefninu.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segir það endurspegla viljaleysi til að takast á við vandann í skólakerfinu og breyta ríkjandi stefnu í menntamálum hér á landi, að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi blokkað hann á Facebook þegar hann innti hana eftir afstöðu hennar til ummæla tengdu málefninu.

Hann gat ekki orða bundist eftir að hafa rekist á umræður á Facebook-síðu prófessors á menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem viðhöfð var gagnrýni á þættina Börnin okkar, sem sýndir voru á RÚV síðasta haust og fjölluðu um íslenska skólakerfið. Fullyrti prófessorinn að samanburðartölur frá OECD, yfir lesskilning og félagsfærni íslenskra barna, sem vísað var til í þættinum, væru úr lausu lofti gripnar. Samkvæmt þeim eru íslensk börn langt á eftir samanburðarlöndunum í lesskilningi og reka lestina í félagsfærni.

Undir þessar fullyrðingar prófessorsins tók Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitafélaga, að sögn Jóns Péturs, og blöskraði honum.

Hundleiðinlegt en verður að taka alvarlega

Um er að ræða tölfræði sem fengin er úr Pisa-könnunum sem er umfangsmikil alþjóðleg könnun á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði, og er lögð fyrir á þriggja ára fresti. Jón segir kannanirnar mikilvæga mælingu á stöðu nemenda að loknu tíu ára skyldunámi í grunnskóla. Það sé því nauðsynlegt að horfast í augu við skelfilegar niðurstöðurnar og taka þær alvarlega.

„Þarna eru tölur að utan sem eru ekkert skemmtilegar. Það er hundleiðinlegt að þetta sé svona hjá okkur en við verðu að horfast í augu við það og breyta stefnunni. Stefnunni er ekkert breytt. Við erum búin að vera með sömu stefnu í raun frá árinu 2000. Það sér ekkert fram á einhverjar jákvæðar breytingar. Næstu niðurstöður úr Pisa verða ennþá verri. Ég er alveg 100 prósent á því,“ segir Jón Pétur.

„Við erum miklu lélegri heldur en Norðurlandaþjóðirnar og strákarnir okkar ná verri árangri en danskir og norskir innflytjendur í Pisa-prófinu. Þetta er alveg hræðilegt,“ bætir hann við.

Ekki sé hins vegar vilji hér á landi til að nýta kannanirnar, þessar samræmdu mælingar, til að skoða hvað þarf að bæta hjá hverjum og einum skóla til að ná betri árangri. Þá telur Jón Pétur frekari samræmdar mælingar á árangri nemenda nauðsynlegar til að hámarka árangur og getu þeirra til að takast á við lífið. Mælingarnar þurfi ekki að birta opinberlega, heldur eingöngu nota þær til innri skoðunar.

Svaraði hvorki skilaboðum né pósti  

„Það var prófessor á menntavísindasviði sem sagði á spjalli hjá öðrum prófessor að þessar tölur væru úr lausu lofti gripnar. Ég sá þetta og hugsaði að það væri ekki nema von að staðan hjá okkur væri svona þegar prófessorar á menntavísindasviði tala svona,“ segir Jón Pétur. Afstaða Heiðu Bjargar var þó kornið sem fyllti mælinn, en hún sagði að sem betur fer væru tölurnar úr lausu lofti gripnar.

„Mér blöskraði svo þannig ég tók saman tvo eða þrjá hlekki og setti undir. Þar var vísað beint í upprunalegu gögnin og sýndi að tölurnar voru ekki úr lausu lofti gripnar. Svo sendi ég persónulega á Heiðu og spurði hvort þetta væri eitthvað sem hún gæti staðið við.“

Jón Pétur byrjaði á því að senda Heiðu skilaboð í gegnum Facebook sem hún svaraði ekki. Hann sendi henni því tölvupóst og sama texta með sms-skilaboðum. Hann segir skilaboðin ekki hafa verið dónaleg. Hann hafi spurt hana út í það sem hún skrifaði á síðunni, hvort þetta væri hennar skoðun.

Sagðist ekki hafa þolað áreitið frá honum

Þegar hann fékk engin svör við póstinum sendi hann frekar harðorðan póst á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og greindi frá því að hann hefði ekki fengið svör við spurningu sinni.

„Svo kíkti ég inn á síðuna aftur og þá var innleggið hennar horfið. Ég skrifaði að hún hefði eytt því út, en þá loks svaraði hún á þessum tölvupóstþræði stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, að hún hefði ekki þolað þetta áreiti frá mér, sagðist ekki hafa eytt neinu, heldur hefði hún blokkað mig,“ segir Jón Pétur, en það var ástæða þess að hann sá ekki lengur innlegg hennar.

Viðbrögð frá öðrum í stjórninni voru fáleg að hans sögn. Einhverjir hafi sagst vilja hitta hann og ræða málin en það hafi enn ekki orðið neitt af því.

„Það er formaður sambands íslenskra sveitarfélaga sem er að tala um þetta og þessar erfiðu tölur eiga við um börn sem standa hvað höllustum fæti. Börn sem eru með minnsta félagsfærni og börn sem geta ekki lesið sér til gagns. Ég hefði haldið að fólk sem væri úr þeim ranni sem Samfylkingin er myndi bera hag þeirra fyrir brjósti.“

Hann tekur þó fram að hann vilji ekki gera málið flokkspólitískt og að sjálfur sé hann óflokksbundinn.

Vandinn teygi sig niður í leikskólana

Jón Pétur segir þættina Börnin okkar hafa farið fyrir brjóstið á mörgum sem hafa starfað í menntageiranum, sérstaklega háskólafólkinu. Ákveðin gagnrýni hafi komið fram og fólk finni til ábyrgðar

„Frá aldamótum hafa margir verið við störf uppi í háskóla að mennta kennara en það hefur í raun engin breyting orðið á. Það er alltaf að molna meira undan þessu hjá okkur. Í þáttunum var verið að tala um þessa alvarlegu hluti að það er stór hluti barna sem útkrifast úr grunnskóla sem geta ekki lesið texta ef það er smá dýpt í honum eða skilið talað mál í fréttum.

Svo erum við líka öftust á merinni í Evrópu í félagsfærni sem er lykilþáttur í því að vera mannlegur í samfélagi. Að geta rekist í hópi án þess að rekast á, án þess að vera í útistöðum við aðra. Að geta sett sig í spor annarra og sýnt samhygð.“

Jón Pétur segir alltof fá hafa áhuga og vit á skólamálum og þeir sem eigi börn sem gangi vel í skóla spái lítið í þeim sem standi höllum fæti. Vandinn teygi sig líka niður í leikskólana.

„Ég hef líka gagnrýnt, eins og fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík þá var bara rætt um fjölgun leikskólaplássa fyrir börnin, en ekki það að það þyrfti að vera fólk sem talar íslensku í kringum börnin til að jafna stöðu barna, sérstaklega þeirra sem eru að af erlendu bergi brotin. Þau fá bara erlent móðurmál heima en ekki íslenskuna. Það er enginn sem talar um þetta.“

„Glatað“ að prófessorar tali svona

Hann segir það algjört grundvallaratriði til að börn nái tökum á íslenskunni að talað sé við þau strax frá fæðingu á íslensku. Horfa á þau þegar talað er við þau þannig þau sjái hvernig hljóðin eru mynduð.

„Á mörgum leikskólum, sérstaklega þar sem síst skyldi, eins og til til dæmis í Fellaskóla eru 80 prósent nemenda af erlendu bergi brotin, þar er er kannski meira en helmingur starfsmanna sem talar ekki íslensku. Þetta er risamál sem enginn vill tala um,“ segir Jón Pétur.

Það sé því erfitt að sjá að fræðasamfélagið neiti að horfast í augu við vandann.

„Mér finnst alveg glatað þegar prófessorar á menntavísindasviði segja þessar tölur úr lausi lofti gripnar, sem ég vissi reyndar, en hvað þá þegar formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir það líka og endar með því að blokka mig á Facebook.“

„Ég hef alveg rödd í skólamálum“

Jón Pétur segir að hann þyki frekar málefnalegur en hann skrifar reglulega pistla á síðuna Vísindi og menntun og sóst hefur verið eftir hans hugmyndum og skoðunum í umræðunni um skólamál.

„Ég hef alveg rödd í skólamálum og ég hef ekki lent í svona áður. Þetta er valdakona í stórri stöðu sem getur haft mjög mikið að segja um framtíð mjög margra barna. Hvernig fjármunum er eytt og hvernig hlutirnir eru skoðaðir,“ segir Jón Pétur.

„Mér er sjálfum mjög umhugað að börn eigi sem jöfnust tækifæri, óháð félaglegum, menningarlegum eða fjárhagslegum bakgrunni eftir tíu ára skyldunám,“ bætir hann við.

Það sé augljóst að margt sé að sem þarf að bæta til að það verði raunin. En það skorti einfaldlega vilja til að gera breytingar.

„Það er enginn sem talar um það sem er að, eins og félagsfærni og lestur, þetta eru tveir veigamestu þættirnir í því að geta verið virkur samfélagsþegn. Að vera ekki leiksoppur hagsmunaafla sem stýra þér í gegnum falsfréttir og upplýsingaóreiðu.“

„Verja kerfið til að verja eigið egó“ 

Pisa kannanir eru lagðar fyrir á þriggja ára fresti. Um er að ræða spurningar sem reyna á ályktunarhæfni og túlkun, það að greina kjarnann frá hisminu og átta sig á því sem skiptir máli. Svolítið eins og í daglegu lífi, segir Jón Pétur.

„Þetta er rosalega gott próf til að skoða hvernig krakkarnir munu plumma sig eftir tíu ára skyldunám, þannig á þessu prófi er mikið mark takandi. Það er almennur skilningur á því og það eru eiginlega allir sammála um það, en menn vilja bara ekki horfast í augu við það. Þá er fullt af fólki sem er búið að tala fyrir einhverju í tíu, fimmtán ár, þá þarf það kannski að fara að kyngja því sem það hefur verið að segja, er kannski ekki alveg rétt. Það er mjög erfitt því fagmennska þeirra liggur kannski að veði. Þá er fólk kannski tilbúið til að verja kerfið til að verja eigið egó. Það er mín túlkun, ég fullyrði ekki að þetta sé svona.“

Kennarar þurfi að vera afburðafólk 

En hvað er þá að, hvert er vandamálið?

„Þetta er margþættur vandi. Ef við hefðum stefnu sem myndi ganga út á að kenna aðeins markvissar og við hefðum meiri mælingar, þannig við vissum hvernig krakkarnir stæðu í hinum og þessum greinum. Og að við fengjum afburðafólk í kennslu. Að við fengjum rjómann af íslensku samfélagi. Að það fólk færi ekki í bankana eða önnur störf sem eru betur borguð. Virðingin fyrir kennarastarfinu er ekki nógu mikil. Við erum ekkert betri en mannauðurinn sem er inni skólanum,“ segir Jón Pétur.

„Börn eiga bara rétt á því þegar þau mæta í sex ára bekk að þau fái kennara sem er afburðafólk. Þess vegna þarf samfélagið líka að taka sig saman í andlitinu að bera meiri virðingu þessu. Við erum að grenja fólk inn í þetta nám en það ætti að vera einn af hverjum tíu sem kemst inn í námið.“

Þá setur hann einnig spurningamerki við gagnsemi aukinnar tölvunotkunar við kennslu í grunnskólum.

„Það er alltaf verið að tala um að tæknin eigi að bera okkur áfram. Ég er miklu meira á því að kennarinn á að vera í forgrunni. hann á að tala við krakkana og vekja áhuga á námsefninu og auka orðaforða

„Þegar krakkarnir eiga að stýra og þau eru öll í iPad, þá eru það krakkarnir sem eiga foreldra sem hafa alið þau þannig upp að þau eigi að standa sig og gera hlutina vel, sem ná mögulega að krafla sig fram úr því með allar þær freistingar með þessar tölvur hafa. Langflestir eru komnir í einhverja leiki og allskonar rugl, hvað þá þeir sem standa höllum fæti og eiga auðveldara með að sökkva sér inn í eitthvað sem er námslegt eðlis. Þetta er hluti af vandanum.“

Mælingar nauðsynlegar til að hámarka tækifæri 

Jón Pétur segir mælingar nauðsynlegar að sjá árangur og til að hámarka tækifæri allra nemenda.

„Ef við eru bara úti í sundlaug og syndum í allar áttir og vitum ekki hvort við erum á leiðinni að bakkanum eða ekki, þá bara syndum við einhvern veginn. Mælingarnar eru ekki til að dæma fólk heldur til að fólk sjái hvar það er statt. Það er notað alls staðar.“

Hann bendir á að skoðanakannanir séu samræmdar, námstími sé samræmdur, sem og námsskráin. Ekki sé hins vegar notast við samræmt námsmat að neinu ráði.

„Eins og með lestur, vitum við hve margir í öðrum bekk kunna að lesa? Nei, við vitum það ekki því það er enginn að mæla það. Ef við vissum að í skóla A væru 90 prósent sem kynnu að lesa en í skóla B væru 40 prósent. Kannski er einhver félagsfræðilegur munur á skólunum, en kannski ekki. Kannski er bara kennslan í öðrum skólanum vond og þá eiga foreldrar rétt á að vita það.“

Þannig væri til dæmis hægt að veita meira fjármagni til þeirra skóla sem eru með mikinn fjölda nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir. Og taka alvarlega til skoðunar skóla þar sem árangurinn er slakur en ekki hægt að benda á augljóslegar félagslegar skýringar.

„Þegar þú mælir ekki neitt þá eru miklu meiri líkur á börn sem falla á milli skips og bryggju dangli þar endalaust, alveg þangað til þau verða að brottfalli úr framhaldsskóla, annað hvort vegna mætingar eða vegna þess þau geta ekki lesið. Ég hef margoft rætt þetta en ég tala fyrir daufum eyrum. Kennarasambandið vill ekki einu sinni ljá máls á þessu, hvað þá háskólinn. Svo er maður blokkaður á Facebook.“

mbl.is