Flutti til Íslands fyrir 25 árum og lærði íslensku

Páskar | 2. apríl 2023

Flutti til Íslands fyrir 25 árum og lærði íslensku

Séra Jürgen Jamin er prestur kaþólskra á Norðurlandi. Páskahátíðin er grundvöllur kristinnar trúar að sögn Jürgens og bendir hann á að jólin séu töluvert yngri hátíð en páskarnir. Þrátt fyrir að Jürgen sé með aðsetur á Akureyri er hann farandprestur og er með messur víða á Norðurlandi um páskana.

Flutti til Íslands fyrir 25 árum og lærði íslensku

Páskar | 2. apríl 2023

Jürgen Jamin er prestur kaþólskra á Norðurlandi
Jürgen Jamin er prestur kaþólskra á Norðurlandi Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Séra Jürgen Jamin er prestur kaþólskra á Norðurlandi. Páskahátíðin er grundvöllur kristinnar trúar að sögn Jürgens og bendir hann á að jólin séu töluvert yngri hátíð en páskarnir. Þrátt fyrir að Jürgen sé með aðsetur á Akureyri er hann farandprestur og er með messur víða á Norðurlandi um páskana.

Séra Jürgen Jamin er prestur kaþólskra á Norðurlandi. Páskahátíðin er grundvöllur kristinnar trúar að sögn Jürgens og bendir hann á að jólin séu töluvert yngri hátíð en páskarnir. Þrátt fyrir að Jürgen sé með aðsetur á Akureyri er hann farandprestur og er með messur víða á Norðurlandi um páskana.

Jürgen er þýskur og flutti fyrst til Íslands fyrir aldarfjórðungi. „Starfsferill minn hófst fyrir sunnan þar sem ég fór fyrstu þrjú árin í HÍ til að nema íslensku fyrir erlenda stúdenta. Um leið starfaði ég sem prestur í Landakoti og síðar einnig sem kennari í Landakotsskóla. Að tillögu þáverandi biskups hóf ég árið 2009 nám í kirkjurétti í Feneyjum. Að þriggja ára framhaldsnámi loknu var mér boðinn annar skólastyrkur til að skrifa doktorsritgerð. Að því búnu var ég ráðinn dósent þar í háskólanum. Fyrirrennari minn í starfi sóknarprests á Akureyri lét af störfum árið 2018 fyrir aldurs sakir og var ég beðinn um að taka við sem ég gerði fúslega og með glöðu geði,“ segir Jürgen sem er einnig stundakennari við lagadeild Háskólans á Akureyri og kennir einnig stundum við Háskóla Íslands. Rómarréttur er hans sérsvið og segir hann gagnlegt fyrir laganema að kynnast réttinum þar sem nútímalögfræði og réttarheimspeki er að mörgu leyti byggð á hugtökum Rómarréttar til forna.

Á pálmasunnudag er innreiðar Krists í Jerúsalem minnst með greinum.
Á pálmasunnudag er innreiðar Krists í Jerúsalem minnst með greinum.

Messurnar eru vel sóttar

Af hverju er páskahátíðin svona heilög?

„Af því að hún er grundvöllur og innsti kjarni kristinnar trúar eins og Páll postuli segir þegar í fyrra bréfi sínu til Korintumanna: „En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar“ (1 Kor 15, 14). Á upprisu Jesú Krists byggist trú okkar og von á okkar eigin upprisu að þessu lífi loknu.

Í ljósi sögunnar eru páskar miklu eldri en jól sem eru okkar reyndar hjartnæmari. Allt frá fyrstu tímum eftir dauða, upprisu og himnaför Krists komu kristnir menn saman fyrsta dag vikunnar, það er að segja sunnudag, til að minnast þessara atburða í athöfn sem kallast á grísku evkaristía eða þakkargjörð og seinna á latínu missa eða messa eftir síðasta orð messugerðarinnar: Ite, missa est sem þýðir farið, brottsending er. Í aldanna rás myndaðist þá kirkjuárið kringum páskahátíðina sem haldin er fyrsta sunnudag eftir að tungl verður fullt næst eftir vorjafndægur sem er tímabilið á milli 22. mars og 25. apríl. Jólin eru hins vegar yngsta hátíða kirkjuársins, fyrst haldin um miðju fjórðu öld.“

Er fólk í kaþólsku kirkjunni duglegt að sækja messur um páskana?

„Það held ég nú, enda teygir páskahaldið sig frá pálmasunnudegi til páskadagsins sjálfs og einkennist af miklu helgihaldi: Á pálmasunnudag minnumst við innreiðar Krists í Jerúsalem þegar múgurinn veifaði pálmagreinum til að hylla hann sem hinn fyrirheitna Messías. Í suðlægari löndum er enn í dag dreift pálmagreinum en hér á landi mætti gjarnan nota buxus eða ruscus í sama skyni. Kirkjugestir taka greinina með heim að messu lokinni og festa hana við krossinn heima hjá sér til að minnast sigurs Krists yfir dauðanum.

Á skírdag er kvöldmáltíðarinnar minnst og dregur nafnið af fótaþvottinum, að skíra – að hreinsa. Að messu lokinni eru kirkjugestir hvattir sumpart allt til miðnættis að taka þátt í bænastundum til að minnast angistar Jesú í grasgarðinum. Á föstudaginn langa mætum við aftur í kirkju og hefst athöfnin á slaginu kukkan þrjú þegar Kristur dó á krossinum. Píslarsagan er lesin og róðukrossinn dýrkaður sérstaklega þar sem kirkjugestir koma fram, beygja kné og snerta krossinn. Páskarnir hefjast svo aðfangadagskvöldið með mikilli páskavöku. Athöfnin hefst fyrir utan kirkjuna – ef veður leyfir – þar sem páskaeldurinn er vígður og af honum tendrað ljós á páskakerti sem er borið í helgigöngu inn í kirkjuna. Allt að átta ritningarlestrar eru lesnir auk guðspjallsins og endurnýja kirkjugestirnir hátíðlega skírnarheit sín.“

Er mikið að gera hjá þér um páskana?

„Sóknin mín teygir sig yfir allt Norðurland vestra og eystra. Það þýðir að ég er ekki bara staðarprestur á Akureyri heldur einnig farandprestur með marga messustaði. Auk helgihalds á Akureyri er að þessu sinni farið páskadaginn og annan í páskum til Dalvíkur, Grenivíkur, Blönduóss og Sauðárkróks til að gefa kaþólskum sem búa þar tækifæri til að sækja páskamessur.“

Á páskavökunni er páskaeldurinn vígður.
Á páskavökunni er páskaeldurinn vígður.

Vorið er að koma

Hvaða hluti páskana er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Það vill svo heppilega til að páskarnir fara saman við upphaf vorsins, eða að minnsta kosti við von um vor, sér í lagi þennan vetur sem hefur verið þungur og snjóríkur hér fyrir norðan og mjög kaldur upp á síðkastið. Vorið virtist vera alveg að koma fyrir nokkrum vikum, allt var orðið næstum því snjólaust hér í bæ. Ég byrjaði aðeins að ganga frá í blómabeðunum fyrir framan kirkjuna þar sem fyrstu krókusarnir spruttu upp, fór yfir túnið og setti nokkra blómapotta með túlípönum við kirkjutröppurnar. En vetur konungur var enn ekki tilbúinn til að sleppa okkur og láta vorið taka yfir. Eina vonin er að við höfum þegar fengið okkar páskahret svo páskarnir falli svo sannarlega saman við upphaf vorsins. Lífið er sterkara en dauðinn, ylurinn vinnur bug á vetrarkuldanum eins og segir í fallegum sálmi Valdimars Briem:

„Sem upp rís sól um árdagsstund

og upp rís blóm á þíðri grund

úr köldum klakahjúpi,

svo upp rís síðar eilíft ljós

og óvisnanleg himinrós

úr dauðans myrkradjúpi.

Jesús, Jesús,

þótt ég deyi, ég óttast eigi,

æðri kraftur

leiðir mig til lífsins aftur“.

Borðar þú eitthvað sérstakt um páskana?

„Hér á Akureyri er systrafélag nunna og þær bjóða mér alltaf í mat um helgar. Þær eru ágætiskokkar þannig að manni leiðist aldrei að fara til þeirra í matarboð. Svo megum við ekki gleyma því að föstudagurinn langi auk öskudagins sem markar upphaf löngu- eða sjöviknaföstu er bindandi föstuboðsdagur þar sem aðeins er neytt einnar fullkominnar máltíðar á dag enda er fastan hentugur tími til andlegra æfinga og ástundunar helgisiða iðrunar og yfirbóta, til dæmis með því að fara til skrifta fyrir páska. Samkvæmt kirkjulögum er öllu rómversk-kaþólsku fólki frá 18 til 60 ára aldurs skylt að fasta á bindandi föstuboðsdögum. Sjúklingar eru undanþegnir föstu.“

Messa á pálmasunnudegi.
Messa á pálmasunnudegi.

Er einhver boðskapur þér ofarlega í huga í ár?

„Ætli það ekki að vera friðurinn? Sama tíma og við erum hér í ísköldu en samt öruggu landi og velferðarríki á hjara veraldar eiga margir hvergi höfði sínu að að halla í stríðshrjáðum löndum þessa heims. Megi sá sem háði stríð við sjálfan dauðann hvetja okkur til að leggja okkur fram til að binda enda á óréttlæti hvar sem er í heiminum og gleyma aldrei fórnarlömbum ofbeldis, einnig í bænum okkar.“

Hefur þú heimsótt Róm eða Vatíkanið yfir páskana?

„Nei, enda á presturinn að vera í sókn sinni, sér í lagi á hátíðum, til að annast helgihaldið þar. Persónulega er ég ekki sérstaklega spenntur fyrir því að vera einn af mörgum prestum meðal kirkjugestanna á Péturstorginu um leið og það er skortur á prestum í sóknunum,“ segir Jürgen sem stendur vaktina með ánægju fyrir norðan um páskana.

mbl.is