Áhrifaríkt að fara í gegnum alla píslarsöguna

Páskar | 6. apríl 2023

Áhrifaríkt að fara í gegnum alla píslarsöguna

Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikstjóri, hefur umsjón með flutningi Passíusálmanna í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa 7. apríl. Hún hefur tvisvar áður stjórnað flutningnum þar en oftar í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Steinunn flutti Passíusálmana í Ríkisútvarpinu árið 2021.

Áhrifaríkt að fara í gegnum alla píslarsöguna

Páskar | 6. apríl 2023

Flytjendur Passíusálmana í ár. Frá vinstri: Halla Margrét Jóhannesdóttir, Svanhildur …
Flytjendur Passíusálmana í ár. Frá vinstri: Halla Margrét Jóhannesdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Steinunn Jóhannesóttir og Jakob Þór Einarsson. Ljósmynd/Hilmar Þorsteinn Hilmarsson

Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikstjóri, hefur umsjón með flutningi Passíusálmanna í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa 7. apríl. Hún hefur tvisvar áður stjórnað flutningnum þar en oftar í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Steinunn flutti Passíusálmana í Ríkisútvarpinu árið 2021.

Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikstjóri, hefur umsjón með flutningi Passíusálmanna í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa 7. apríl. Hún hefur tvisvar áður stjórnað flutningnum þar en oftar í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Steinunn flutti Passíusálmana í Ríkisútvarpinu árið 2021.

Hvernig kviknaði áhugi þinn á Passíusálmunum?

„Á æskuárum mínum heyrði ég flutning Passíusálmanna í Ríkisútvarpinu og fannst það notalegt á föstunni, fannst það tilheyra. Í fermingarfræðslunni vorum við látin læra „Víst ertu Jesú, kóngur klár“, erindin fimm úr 27. sálmi sem eru svo oft sungin, og ég hef ekki gleymt þeim síðan. En það var ekki fyrr en ég kynntist manninum Hallgrími Péturssyni, í gegnum rannsóknir mínar á sögu konunnar hans, Guðríðar Símonardóttur, og Tyrkjaráninu 1627, sem áhuginn á skáldinu tók að dýpka til mikilla muna. Passíusálmarnir eru hans mikilvægasta verk og um leið eitt mesta snilldarverk íslenskra bókmennta.

Nálgast þú efnið út frá trúnni eða skáldskapnum?

„Ég nálgast verkið fyrst og fremst sem skáldverk, dramatískt trúarlegt skáldverk. Og algjört stórvirki í jafnt íslenskri sem evrópskri bókmenntasögu. Passíusálmarnir hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki sem íhugunar- og huggunarrit nánast frá því þeir tóku að birtast í uppskriftum og á prenti á seinni hluta 17. aldar. Passíusálmarnir urðu tæki Íslendinga til að eiga samtal við sál sína.“

Karllesarinn er fulltrúi skáldsins

Áttu þér uppáhaldskafla?

„Já, ég á mér marga uppáhaldskafla. Ég get tekið sem dæmi 11. og 12. sálm um afneitun og iðrun Péturs. Pétur var lærisveinninn sem ætlaði að standa með Jesú til hinstu stundar en guggnaði þegar á hólminn var komið. Hann er tákn hins breyska manns. En hann náði þó að horfast í augu við sjálfan sig og iðrast. Pétur er dreginn mjög mannlegum og jafnvel broslegum dráttum og ég hef leikið mér með þá hugmynd að Hallgrímur hafi gefið Pétri Passíusálmanna einhver einkenni Péturs föður síns. Péturskirkjan í Róm ber svo nafn þessa brokkgenga lærisveins.“

Hvernig verður lesturinn í Hallgrímskirkju í ár?

„Lesturinn hefst kl. 13.00 að hefðbundnum sið og stendur til klukkan 18:15 á að giska. Við erum fimm lesarar að þessu sinni, einn karlmaður og fjórar konur, Jakob Þór Einarsson, Halla Guðmundsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir og ég, Steinunn Jóhannesdóttir. Flutningnum er skipt í sex hluta og á milli þeirra er leikið á orgel kirkjunnar. Tónlistin er í höndum organista Hallgrímskirkju og kórstjóra, þeirra Björns Steinars Sólbergssonar og Steinars Loga Helgasonar.“

Hallgrímskirkja.
Hallgrímskirkja. mbl.is/Árni Sæberg

Hvaða felst í því að halda utan um lesturinn?

„Umsjónarmaður með flutningi Passíusálmanna er ábyrgur fyrir vali á lesurum, skiptir sálmunum á milli þeirra og stjórnar æfingum. Hallgrímskirkja er gríðarlega stórt hús með magnaðan hljómburð fyrir söng og orgeltónlist, en til þess að talröddin berist um kirkjuna þarf að treysta á gott hljóðkerfi. Og á það þurfa allir lesarar að læra. Lesararnir eru allir vanir menn á sínu sviði og leikhúsfólk nema Svanhildur Óskarsdóttir, sérfræðingur á Árnastofnun, sem er meðal fremstu ljóðalesara landsins. Karllesarinn er hugsaður sem fulltrúi skáldsins, en konurnar fulltrúar fyrir þær fjórar konur sem Hallgrímur sendi fyrstu eiginhandarritin af Passíusálmunum. Þær hétu Ragnhildur Árnadóttir frá Ytra-Hólmi, Helga Árnadóttir í Hítardal, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti. Hallgrímur gerði þessar konur að fyrstu kynningarfulltrúum sínum fyrir skáldverkið. Það er fræðimaðurinn í mér og leikstjórinn sem finnst mikilvægt að vísa með þessum hætti í söguna af því hvernig Passíusálmarnir héldu innreið sína í þjóðlíf Íslendinga.“

Sumir sitja allan tímann

Hvernig er tilfinningin að standa lengi og lesa þennan mikla texta í kirkju Hallgríms?

„Það verður enginn samur maður á eftir, sem tekur þátt í heildarflutningi Passíusálmanna. Það er svo áhrifaríkt að fara í gegnum alla píslarsöguna, fylgja krossferlinum þann sólarhring sem hann stóð yfir. Við fimm tökum öll þátt í flutningnum frá upphafi til enda, leysum hvert annað af í frásögninni. Við gerum þetta öll saman. Áheyrendum er frjálst að koma og fara að vild, en það eru alltaf nokkrir sem sitja í kirkjunni allan tímann til þess einmitt að skynja þetta stórbrotna verk í heild sinni.“

Hvernig eru páskarnir hjá þér eftir að lestri lýkur?

„Venjulega er ég örþreytt að kvöldi föstudagsins langa eftir lesturinn. Flutningurinn útheimtir svo mikla einbeitingu og orku. Og ég verð dálítið meyr. Mágkona mín hefur oft boðið í fiskisúpu, sem er dásamlegt á meðan maður er að ná sér niður. Páskarnir verða mér síðan sífellt meiri gleðihátíð. Ég fer í messu, elda lamb fyrir fjölskylduna, borða páskaegg með barnabörnunum og svo förum við öll saman út að ganga. Á annan í páskum verður síðan fermingarveisla fyrir einn dóttursoninn. Ég hlakka mikið til páskanna.“

mbl.is