Jesús er sagður hafa gengið leiðina Via Dolorosa eða Sorgarleiðina í Jerúsalem áður en hann var krossfestur. Um páska safnast pílagrímar saman og ganga í fótspor Krists. Viðkomustaðirnir eru vel merktir og kom blaðamaður við á þeim í júní í fyrra á ferðalagi. Ekki er hægt að heimsækja Jerúsalem og nágrenni án þess að velta fyrir sér hernámi Ísraela.
Jesús er sagður hafa gengið leiðina Via Dolorosa eða Sorgarleiðina í Jerúsalem áður en hann var krossfestur. Um páska safnast pílagrímar saman og ganga í fótspor Krists. Viðkomustaðirnir eru vel merktir og kom blaðamaður við á þeim í júní í fyrra á ferðalagi. Ekki er hægt að heimsækja Jerúsalem og nágrenni án þess að velta fyrir sér hernámi Ísraela.
Jesús er sagður hafa gengið leiðina Via Dolorosa eða Sorgarleiðina í Jerúsalem áður en hann var krossfestur. Um páska safnast pílagrímar saman og ganga í fótspor Krists. Viðkomustaðirnir eru vel merktir og kom blaðamaður við á þeim í júní í fyrra á ferðalagi. Ekki er hægt að heimsækja Jerúsalem og nágrenni án þess að velta fyrir sér hernámi Ísraela.
Það er vel til fundið að rifja upp Jórsalaförina um páskana enda Jerúsalem þungamiðja upphafs páskahátíðirnar. Jesús reið inn í Jerúsalem, borðaði síðustu kvöldmáltíðina þar og var krossfestur. Það eru auðvitað aðrir sem líta á páskana sem frjósemishátíð og mögulega enn fleiri sem velta ekki fyrir sér upphafinu og kunna bara vel við fimm daga frí.
Þann 1. júní í fyrra lá leiðin til Helsinki og þaðan til Tel Aviv. Á næstunni hefst áætlunarflug frá Keflavík til Tel Aviv með Icelandair og þá verður hægt að fljúga beint. Menn með framandi hatta í svörtum kápum að drífa sig mættu blaðamanni á flugvellinum, nokkuð sem átti eftir að vera daglegt brauð næstu daga í Jerúsalem. Leigubílstjórinn ók blaðamanni í austurhluta Jerúsalem þar sem gist var næstu daga. Borgarhlutinn er hluti Palestínumanna í Jerúsalem. Sjáanlegur munur var á innviðum í þessum borgarhluta og þar sem fleiri gyðingar búa.
Í steikjandi hita fyrsta daginn var haldið í gamla bæinn í Jerúsalem en stór borgarveggur umlykur gamla bæinn. Í gamla bænum sem var byggður löngu áður en Ingólfur Arnarson fann Ísland búa svipað margir og í Kópavogi en borgarhlutinn er þó aðeins tæpur ferkílómetri að stærð. Það er eftirsóknavert að búa á þessum litla bletti vegna þess að þar er að finna Kirkju hinnar heilögu grafar, Grátmúrinn og hina heilögu mosku Al-Aqsa en margir múslimar leggja leið sína þangað einu sinni á lífsleiðinni.
Það er auðvelt að ganga sorgarleiðina sjálfur og hún er vel merkt á húsum gömlu borgarinnar. Leiðin er með 14 viðkomustöðum sem Jesús er sagður hafa komið við á. Á leiðinni er meðal annars komið við þar sem Jesús var dæmdur til dauða, hann látinn bera krossinn, þar sem hann datt í fyrsta sinn, annað sinn og þriðja sinn. Einnig er komið við þar sem hann hitti móður sína og þar sem konur grétu á götuhornum. Síðustu staðirnir eru inni í Kirkju hinnar heilögu grafar en þar á Jesús að hafa verið krossfestur, dáinn og grafinn. Þeir sem sáu fyrir sér Golgatahæð sem einhvern Arnarhól geta aðeins staldrað við enda er hæðin nú komin inn í hús, svo mikil var hæðin.
Sögur og sagnfræði er ekki sami hluturinn. Í Jerúsalem er hins vegar stundum erfitt að skilja á milli og þegar bókað er leiðsögn um gömlu borgina er auðvelt að líða eins og í kristinfræðitíma í 5. bekk. Það er nokkuð líklegt að hressir pílagrímar frá Bandaríkjunum sem þekkja Abraham, Ísak og vini þeirra betur en leiðsögumaðurinn verði í sömu ferð og þú. Í gömlu borginni er steinsteypa alls staðar, fólk alls staðar. Þá er gott fyrir litla Íslendinginn sem er vanur víðáttunni að gera eins og pílagrímarnir forðum og fá sér bara snitsel á hótelinu The Austrian Pilgrim Hospice of the Holy Family. Þangað hafa pílagrímar lagt leið sína síðan árið 1863. Eftir mat í raspi er hægt að fara upp á þak og horfa yfir Jerúsalem. Útsýnið er stórfenglegt.
Það er afar létt að hafa það gott í Disneylandi þeirra trúuðu í Jerúsalem, skella sér svo á ströndina í Tel Aviv og borða þar góðan mat. Þú hefur hins vegar ekki almennilega heimsótt þetta landsvæði nema þú kynnir þér aðstæður Palestínumanna, jafnvel þó það sé átakanlegt og sorglegt og þú í sumarfríi. Blaðamaður fór einn dag inn á Vesturbakkann og þangað hefði blaðamaður ekki viljað fara án aðila sem þekkir aðstæður heimafólks.
Borgirnar Hebron og Betlehem á Vesturbakkanum voru heimsóttar með litlum hópi á vegum Green Olive Tours. Leiðsögumaðurinn var Palestínumaður frá Jerúsalem og gat flakkað á milli Vesturbakkans og Jerúsalem án vandræða ólíkt þeim Palestínumönnum sem búa á Vesturbakkanum. Borgin Hebron er illa farin og gamli bærinn sem eitt sinn iðaði af lífi var eins og draugabær. Búið var að skella í lás í flestum verslunarrýmum vegna þess að landnemar hafa hrakið fólk á brott. Mannlífið var fábrotið en skólabörn sáust úti á götu á skólatíma þar sem dæmi er um að foreldrar hafa hætt að senda börn í skóla vegna ágangs hermanna Íreaelshers.
Eftir nokkra daga í Jerúsalem venst fólk hermönnum sem ganga um með stór skotvopn út um allt – þó tilfinningin sé vissulega ekki góð. Hermennirnir í Hebron voru þó beittari en þeir sem tóku sporvagninn með blaðamanni í Jerúsalem. Leiðsögumaðurinn þekkti þá staði þar sem hermennina var að finna og sagði hvenær mátti taka mynd og hvenær ekki, þannig mátti meðal annars varast óþarfa yfirheyrslur. Einnig var hann búinn að segja hvernig átti að kynna sig og trú sína eins og þegar hópurinn lenti í á leiðinni út af Vesturbakkanum. Enn og aftur var það lítið mál fyrir kristna blaðamanninn þegar hann var beðinn um að sýna vegabréfið en það fór ekki á milli mála að horft var öðruvísi á múslímsku bræðurna sem voru samferðarmenn þennan daginn, en þeir voru reyndar bara ferðamenn frá Hong Kong. Það kom einnig á daginn að þeir höfðu ekki komist eins auðveldlega í gegnum flugvöllinn og ljóshærði blaðamaðurinn. Voru þeir meðal annars spurðir út í pakistanska ættarsögu sína.
Á ferðalaginu um slóðir Jesú var blaðamaður allverulega minntur á forréttindi sín. Fólk kann að efast um að ferðast um á slóðir þar sem mannréttindabrot eru daglegt brauð. Slíkar vangaveltur eru réttmætar en Jerúsalem, Tel Aviv og nágrenni býður upp á stórbrotna sögu, menningu, mat, sól og sjó. En það er gott að blindast ekki af regnbogafánum og speedo-skýlum í Tel Aviv.