Leyndarmálin fara með þig í gröfina

Edrúland | 10. apríl 2023

Leyndarmálin fara með þig í gröfina

Sigurlína Davíðsdóttir er háskólakennari á eftirlaunum og starfaði lengi í meðferðargeiranum. Á áttræðisafmæli Sigurlínu gaf hún út bókina Sigurinn liggur í uppgjöfinni ásamt Ragnari Inga Aðalsteinssyni. Í bókinni er að finna niðurstöður rannsókna þeirra á hvaða kerfi gagnast þeim er glíma við fíkn best til að ná bata og hvernig líðan þeirra er eftir að það hefur tekist. Sigurlína segir tvennt helst hafa komið sér á óvart við úrvinnslu gagnanna, það hve afgerandi niðurstöðurnar voru og hve mikla hugkvæmni þeir sýndu, sem ekki gátu sætt sig við hugmyndir kirkjunnar um æðri mátt, við að finna sína útgáfu af honum. Steingerður Steinarsdóttir ræddi við Sigurlínu fyrir Samhjálparblaðið. 

Leyndarmálin fara með þig í gröfina

Edrúland | 10. apríl 2023

Sigurlína Davíðsdóttir.
Sigurlína Davíðsdóttir. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Sigurlína Davíðsdóttir er háskólakennari á eftirlaunum og starfaði lengi í meðferðargeiranum. Á áttræðisafmæli Sigurlínu gaf hún út bókina Sigurinn liggur í uppgjöfinni ásamt Ragnari Inga Aðalsteinssyni. Í bókinni er að finna niðurstöður rannsókna þeirra á hvaða kerfi gagnast þeim er glíma við fíkn best til að ná bata og hvernig líðan þeirra er eftir að það hefur tekist. Sigurlína segir tvennt helst hafa komið sér á óvart við úrvinnslu gagnanna, það hve afgerandi niðurstöðurnar voru og hve mikla hugkvæmni þeir sýndu, sem ekki gátu sætt sig við hugmyndir kirkjunnar um æðri mátt, við að finna sína útgáfu af honum. Steingerður Steinarsdóttir ræddi við Sigurlínu fyrir Samhjálparblaðið. 

Sigurlína Davíðsdóttir er háskólakennari á eftirlaunum og starfaði lengi í meðferðargeiranum. Á áttræðisafmæli Sigurlínu gaf hún út bókina Sigurinn liggur í uppgjöfinni ásamt Ragnari Inga Aðalsteinssyni. Í bókinni er að finna niðurstöður rannsókna þeirra á hvaða kerfi gagnast þeim er glíma við fíkn best til að ná bata og hvernig líðan þeirra er eftir að það hefur tekist. Sigurlína segir tvennt helst hafa komið sér á óvart við úrvinnslu gagnanna, það hve afgerandi niðurstöðurnar voru og hve mikla hugkvæmni þeir sýndu, sem ekki gátu sætt sig við hugmyndir kirkjunnar um æðri mátt, við að finna sína útgáfu af honum. Steingerður Steinarsdóttir ræddi við Sigurlínu fyrir Samhjálparblaðið. 

En hver var kveikjan að því að þau hjónin hófu þessa rannsókn?

„Við erum bæði búin að vinna heillengi við meðferðarstörf og höfum sjálf verið í AA-samtökunum í fjörutíu og þrjú ár. Við eigum einnig aðstandendur sem hafa verið að eiga við þetta, þessi sjúkdómur er auðvitað allt í kringum okkur. Við höfðum einfaldlega verið að velta þessu fyrir okkur, sitjandi í þessum stólum,“ segir Sigurlína og bendir á tvo hægindastóla í stofunni, „hvað það er eiginlega sem þarf til að ná árangri. Hvað ræður því hver nær árangri og hver ekki? Við erum bæði búin að vinna það mikið við rannsóknir að við vissum að hægt er að fara út í heim og með spurningu, spyrja og fá svar. Við ákváðum að gera einmitt það. Fara af stað með þessa spurningu: Hvað þarf til að geta orðið edrú? Og fá svar.“

Tóku viðtöl við 50 manns

Hvernig lögðuð þið svo rannsóknina upp?

„Við ákváðum að fara og spyrja þá sem höfðu orðið edrú hvernig þeir hefðu farið að því og hvað þeir hefðu orðið að gera til að ná að verða edrú. Við töluðum við fólk sem hafði verið edrú í fimm ár eða meira til þess að vera viss um að þarna væri um varanlegan árangur að ræða. Síðan tókum við upp svörin og þetta urðu fimmtíu viðtöl. Það tók okkur rúm tvö ár að safna þessum gögnum, auðvitað kom Covid inn í.

Næst tókum við saman helstu þemun úr gögnunum og eftir það vann ég þetta eins og hverja aðra rannsókn. Ég fann það sem áður hafði verið rannsakað um þessi mál og skoðaði út frá þemunum. Síðan gerðum við bókina þannig að við létum viðmælendurna mest hafa orðið. Oft er það gert þannig í rannsóknum að rannsakandinn skrifar textann en setur inn einstaka tilvitnanir frá þeim sem talað er við. Við fórum alveg hina leiðina. Við sögðum sem minnst sjálf, kynntum bara efnið og létum síðan viðmælendurna hafa orðið, til þess að það væri alveg ljóst að þarna er verið að tala um reynslu fólksins sjálfs með þess eigin orðum.“

Voru að lýsa sporavinnu

Sigurlína segir að niðurstaðan hafi verið sú að tólf spora kerfið nýttist fólki einna best til að ná varanlegum árangri og bata. 

„Ég get alls ekki talað fyrir alla í því sambandi. En viðmælendur okkar höfðu allir farið þá leið. Þegar ég fór að kafa ofan í gögnin og skoða þau áttaði ég mig á því í miðju kafi að þau voru að lýsa sporavinnu, samt var enginn að tala sérstaklega um hana í viðtalinu. En hins vegar var þetta það sem þau komu upp með. Ég uppgötvaði þetta í miðju kafi við að greina að svörin eru bara sporin. Þá fór ég að greina gögnin fyrst og fremst út frá þeim.“

Hver er þá að þínu mati ástæða þess að tólf spora kerfið er svona áhrifaríkt og virkar fyrir þetta marga?

„Ég hef ekki svar við því en tólf spora kerfið tekur á öllum helstu þáttunum sem plaga fólk sem þjáist af alkóhólisma. Fyrsta skrefið er að átta sig á því að þær leiðir sem maður hefur farið í neyslunni eru ónýtar og maður þarf að leggja þær alveg til hliðar og taka upp alveg nýja nálgun. Þeim sem ekki tekst þetta tekst ekki að verða edrú.

Margir halda að tólf spora kerfið sé einhvers konar trúarbragðasamfélag en það kemur fram í þessum gögnum að þannig er það ekki. En allir þeir sem höfðu orðið edrú höfðu fundið eitthvað sem þeir töldu sinn æðri mátt. Sumir voru alveg ánægðir með þann æðri mátt sem er almennt viðurkenndur slíkur í samfélaginu en aðrir ekki. Um það bil helmingur fór aðrar leiðir. En allir fóru einhverja leið. Margir sögðu „AA-samtökin eru minn æðri máttur“ eða „deildin mín er minn æðri máttur“. „Þessu fólki hefur tekist það sem mér hefur ekki tekist, það getur því meira en ég og mun styðja mig ef ég þarf á að halda.“ Margir sögðu þetta en það voru ótal leiðir sem fólk fór og ótal hugmyndir sem það hafði um hver væri æðri máttur í lífi þess og það var mjög persónulegt. Þannig að þeir sem halda að þeir verði neyddir til að trúa á einhvern guð í gegnum tólf spora kerfið geta tekið gleði sína aftur,“ segir Sigurlína glettin.

„Þá eru afgreidd fyrstu þrjú skrefin í tólf spora kerfinu. Næsta þema er svo hreinskilni. Þar koma við sögu spor fjögur og fimm. Leyndarmálið sem þú ætlar að taka með þér og engum segja frá, það mun fara með þig í gröfina. Ef þú ert ekki hreinskilinn og segir frá ávirðingum þínum munu þær ná þér og maður verður ekki edrú nema gera þetta. Þú byrjar ekki á því. Þú þarft að ná þér í styrk fyrst.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Byggir á sammannlegum grunni

Við vitum að tólf spora kerfið á upptök sín í Bandaríkjunum, hjá þeim Bill Wilson og Bob Smith, og kemur fyrst fram árið 1935 en AA-bókin var fyrst gefin út árið 1939. Nú eru áttatíu og átta ár síðan þetta gerðist. Hefur kerfið þróast eða er það alltaf eins?

„Í grunninn er það eins, og þetta er ekkert sérstaklega bandarískt. Þetta er sammannlegt og þess vegna er það alls staðar eins. Það er ekki bundið við bandaríska menningu. Ef það væri svo hefðu engir orðið edrú nema Bandaríkjamenn. Það er búið að gera á þessu gríðarmiklar rannsóknir og skoða hverjar eru bestu leiðirnar til að veita meðferð við alkóhólisma og svarið er alltaf eitt, áhrifaríkasta leiðin til að ná sér út úr alkóhólisma er sporin tólf. Þetta eru svo afgerandi gögn að enginn getur mælt á móti. Alþjóðleg stofnun í Bretlandi hefur innan sinna vébanda heilbrigðisstarfsfólk úr mörgum geirum, sem stendur saman að því að gera samantekt á öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið í heiminum. Þar er allt reiknað saman í einn pott og þá er hægt að finna niðurstöðu sem er meira afgerandi en í minni rannsóknum. Þau spurðu hver væri áhrifaríkasta leiðin og þetta var svarið.“

Ekki hægt að komast undan æðri mætti

Þið Ragnar Ingi hafið unnið lengi innan meðferðargeirans og þekkið tólf spora kerfið af eigin raun. Var eitthvað sem kom þér á óvart þegar þú fórst að vinna úr gögnunum?

„Tvennt kom mér aðallega á óvart,“ segir hún.

„Í fyrsta lagi hvað niðurstöðurnar voru afgerandi. Hvað það var mikill samhljómur í svörunum. Þetta var alls konar fólk, ólíkt hvað varðaði kynferði, atvinnu, þjóðfélagsstöðu, já, bara alls konar manneskjur. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu hvað niðurstöðurnar voru samt sláandi líkar. Ég var að reyna að hafa ekki áhrif á þetta og spyrja eins opið og hægt var en svörin voru svona. Annað sem kom mér á óvart var hversu mikla hugkvæmni fólk sýndi í að finna sér æðri mátt þegar það gat ekki sætt sig við æðri mátt kirkjunnar. Mér fannst það algjörlega yndislegt. Fólk áttaði sig á því að það er ekki hægt að stytta sér leið framhjá þessu spori. En af því að það gat ekki hugsað sér að fara þessa hefðbundnu leið fann það sér alls konar króka að ásættanlegri niðurstöðu. Ég átti líka von á að það yrði miklu meira mál að greina þetta og finna heildarmynd, en niðurstöðurnar lágu bara gjörsamlega á borðinu.“

Nú er semsé bókin komin, Sigurinn liggur í uppgjöfinni – Allt hálfkák reyndist okkur gagnslaust – og hún kom fyrst fyrir almenningssjónir í áttræðisafmælinu þínu. Hafið þið fengið einhver viðbrögð, þá bæði frá fræðasamfélaginu og þeim sem eru í tólf spora vinnunni úti í samfélaginu?

„Við höfum fengið mikil viðbrögð frá þeim sem hafa lesið bókina,“ segir Sigurlína. „Þau eru öll afskaplega jákvæð og fólk tekur henni almennt vel. Þau sem hafa tjáð sig um hana í fræðasamfélaginu eru líka jákvæð. Ég var svolítið hikandi við að setja þetta svona fram því það er mjög óhefðbundin framsetning innan fræðanna að byggja bókina aðallega upp á röddum viðmælendanna. En fólki finnst það alveg hæfa efninu og ég hef ekki fengið nein neikvæð viðbrögð vegna þess.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Langar í frekari rannsóknir

Sigurlína er prófessor emeritus í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands, en Ragnar var lengst af kennari í grunnskóla og var síðan aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann er jafnframt kunnur af ritstörfum og hefur gefið út námsbækur, ljóðabækur, endurminningabækur, þýðingar og ýmis ritverk almenns eðlis. Þau hjónin eru meðal stofnenda Krýsuvíkursamtakanna. Bæði eru komin á eftirlaunaaldur eins það heitir en greinilega fjarri því að setjast í helgan stein. Hafið þið hugsað ykkur að halda áfram þessari rannsóknarvinnu?

„Við höfum verið að velta þessu fyrir okkur,“ segir Sigurlína. „Núna leituðum við að viðmælendum innan AA-samtakanna og þar er hópur fólks sem hefur náð þessu. En ég get ekki útilokað að þarna úti sé hópur fólks sem hefur náð sama árangri án þess að vera í AA-samtökunum og við höfum verið að láta okkur dreyma um að elta það uppi. Það er bara svo erfitt að finna þá einstaklinga, ólíkt því hvað það er auðvelt að ganga að fólkinu í samtökunum. Það væri rosalega gaman að vita hvernig þeir fara að sem ekki eru í AA-samtökunum og hvernig þeim líður að öðru leyti. Við spurðum viðmælendur okkar meðal annars að því hvað hefði breyst hjá þeim og hvernig þeim liði. Þar var líka algjör samhljómur. Allt annað líf og miklu betri líðan að öllu leyti, andlega og líkamlega og betri virkni félagslega, fjárhagslega og hvað eina. Það væri fróðlegt að vita hvort það er sambærilegt hjá þeim sem ekki hafa farið þessa leið til bata. Ég veit hins vegar ekki alveg hvernig maður myndi snúa sér að því að fá það fólk í viðtöl.“

Nú hafa tólf sporin líka verið notuð í annars konar vinnu, m.a. til að aðstoða fólk við að ná sér eftir áföll, eins og til dæmis skilnað. Hefur þú eitthvað skoðað eða myndað þér skoðun á því hvernig þetta kerfi nýtist í slíkri vinnu?

„Það væri mjög gaman einmitt að skoða það. Við töluðum bara við fólk sem glímir við fíkn, til þess að eitthvað annað væri ekki að veltast inn í. Vissulega er spurning hvernig það yfirfærist á önnur úrtök og mín ágiskun er að niðurstöðurnar geri það, en það væri áhugavert að vita það. Nefna má að það er heil atvinnugrein sem hefur skapast í kringum matarfíkn og skurðaðgerðir þróaðar til að takast á við þann sjúkdóm en svo er hægt að fara sporaleiðina líka til að ná tökum á því. Það væri athyglisvert að tala við það fólk líka og þá einstaklinga sem hafa farið mismunandi leiðir og athuga hvernig þeim gengur og gera samanburð á því hvernig þeim líður. Þar erum við með skilgreindan hóp sem hefur valið mjög fjölbreyttar leiðir og því er auðvelt að sjá mismuninn,“ segir Sigurlína. 

mbl.is