Fermingardagur Birgittu Birgisdóttur leikkonu var ósköp venjulegur, að hennar sögn:
Fermingardagur Birgittu Birgisdóttur leikkonu var ósköp venjulegur, að hennar sögn:
Fermingardagur Birgittu Birgisdóttur leikkonu var ósköp venjulegur, að hennar sögn:
„Þetta var allt eftir bókinni. Ég var fermd í Kópavogskirkju og hafði verið samferða bekkjarfélögum mínum í gegnum fermingarfræðsluna. Mér fannst fermingarfræðslan ekki beint skemmtileg, og held ég að það hafi átt við um flesta jafnaldra mína að vera áhugalítil um dæmisögur úr Biblíunni, og þurfa að safna stimplum til sönnunar um að hafa mætt í messu tíu sinnum,“ segir hún.
„Ég man að ég var óttalega spennt fyrir fermingardeginum sjálfum og þegar ég lít um öxl þá leið mér svipað og ef ég væri að fara að frumsýna leikverk.“
Dóttir Birgittu fermdist í fyrra hjá Siðmennt og segir hún að þar hafi upplifunin verið allt önnur og skemmtilegri og greinilega búið að aðlaga kennsluefnið betur lífi venjulegs fólks: „Ég man að ég hugsaði með mér hvað það hefði verið frábært að fá þannig fræðslu á sínum tíma. Svo virðist unga fólkið í dag hreinlega vera á einhverjum allt öðrum stað en mín kynslóð var á sama aldri. Kannski er það vegna þess að betur hefur verið utan um þau haldið, eða ef til vill fá þau meira að ráða sér sjálf, alltént finnst mér þau sýna meira umburðarlyndi í garð annarra.“
Árið 1993 var Birgitta tiltölulega prúður unglingur. „Ég hafði verið dugleg að stunda íþróttir, þá aðallega körfubolta, og gekk um í Michael Jordan-bol og LA Gear-skóm með pumpu. Man ég að á fermingardaginn setti ég á mig maskara í fyrsta skipti og hafði farið í fyrsta skipti í ljósatíma í aðdraganda fermingarinnar,“ segir hún og bætir við að fyrstu almennilegu gelgjuköstin hafi ekki komið fyrr en um ári eftir fermingu: „Ég var samt frekar saklaus villingur, og innst inni var ég hrædd við allt og ekkert þótt ég væri töffari á yfirborðinu.“
Minnist Birgitta þess að fyrri hluti 10 áratugarins hafi verið mjög sérstakt tímabil fyrir ungt fólk.
„Það var svakaleg harka í gangi á þessum tíma og ég man hvað það var mikið partístand á jafnöldrum mínum á unglingsárunum og mikil viðskipti með landa. Kannski var ein skýringin sú að unglingar mín megin í Kópavoginum áttu engan samastað og var ekki einu sinni félagsmiðstöð í hverfinu. Fyrir vikið vorum við yfirleitt einhvers staðar úti að hanga, úti á túnum eða á bak við sjoppur. Er gaman að sjá hvað þetta hefur breyst en dóttir mín gengur í Austurbæjarskóla og sækir félagsmiðstöð sem rekin er af miklum metnaði.“
Sjálf hafði Birgitta því um fátt annað að velja en körfuboltann, allt þar til Leikfélag Kópavogs setti á laggirnar unglingadeild.
„Þau komu í grunnskólann til að kynna starfið og ákvað ég að spreyta mig. Eftir það varð ekki aftur snúið og var ég fimmtán ára þegar ég kvaddi körfuboltann fyrir leiksviðið.“
Þó að liðin séu þrjátíu ár frá fermingunni man Birgitta enn eftir ýmsum smáatriðum. „Hún móðir mín fékk vinkonu sína til liðs við sig við matargerðina og baksturinn og þær gerðu kransakökuna sjálfar en hluta af veislumatnum pöntuðum við. Veislan fór fram heima hjá okkur og var allt tekið út úr einu svefnherberginu svo að þar mætti stilla upp matarborði. Fyrst var borinn farm heitur matur og svo var allt hreinsað af og kökurnar bornar fram.“
Fermingarfötin fékk Birgitta að velja sjálf og man hún að það tók enga stund að velja réttu flíkurnar: „Ég vissi alveg hvað ég vildi, og hvað ég vildi ekki, og eitt sem var alveg ómissandi var „mellubandið“ svokallaða með krossi,“ segir hún. „Þá fór ég í hárgreiðslu hjá góðvini fjölskyldunar sem hún mamma hafði kynnst þegar hún eignaðist mig. Fyrst fór ég í prufugreiðslu til hennar til að finna aðeins út úr því hvað kæmi best út, og varð úr að velja frekar látlausa og einfalda hárgreiðslu. Að því sögðu þá byrjaði fermingardagurinn samt klukkan sjö enda margt sem ganga þurfti frá.“
Eitt man Birgitta upp á hár: hún fékk 90.000 krónur í reiðufé frá gestunum og var það ögn minna en hún hafði reiknað með. Segir hún glettin að þegar talið var upp úr umslögunum hafi hún hugsað sem svo að foreldrar hennar hefðu alveg mátt bjóða fleira fólki í veisluna: „Ég vissi að sumar vinkonur mínar höfðu haldið miklu stærri veislur og uppskáru fyrir vikið meiri fermingarpening. En þetta var auðvitað ekki stórmál, þótt ég muni eftir að hafa hugsað um þetta,“ útskýrir Birgitta. „Eitt var ég líka mjög sátt með og það var að við sem fermdumst fengum frí í skólanum næsta dag. Ég notaði fríið vel og fór rakleiðis með strætó niður í bæ í Levi‘s-búðina og keypti mér þar gallabuxur fyrir hluta af fermingarpeningunum.“
Birgitta var líka mjög ánægð með hljómtækin sem hún fékk að gjöf frá foreldrum sínum, en um var að ræða samstæðu með geisladiskaspilara sem gat rúmað fimm diska. „Svo fékk ég hárrúllur sem ég nota enn þann dag í dag. Að vísu eru liðin fimm eða sex ár síðan ég kveikti síðast á rúllusettinu en það er bara vegna þess að mér áskotanaðist alveg einstaklega gott krullujárn.“
Fermingardagurinn er afskaplega ánægjulegur í minningunni og markaði greinileg tímamót. Segir Birgitta að það hafi þó sennilega verið enn stærri tímamót þegar hennar eigin dóttir fermdist. „Ég verð að viðurkenna að það var rosalega skrítið, og ég áttaði mig varla á því hvernig gæti á þessu staðið enda líður mér eins og ekki sé svo langt síðan ég fermdist sjálf,“ segir hún. „Fermingardagur dóttur minnar var fallegur og athöfnin hjá Siðmennt hreint stórkostleg, en mér fannst ferlega stressandi að skipuleggja fermingarboðið og álagið mikið í aðdraganda veislunnar. Allt gekk þó upp á endanum og gaman að njóta dagsins. Á ég aðra dóttur sem er núna níu ára og ég hlakka til að gera þetta aftur.“