Vilja hvorki skerða þjónustu né stöðva uppbyggingu

Fjárhagsvandi Árborgar | 11. apríl 2023

Vilja hvorki skerða þjónustu né stöðva uppbyggingu

Bæjarstjórinn í Árborg segir sveitarfélagið forðast í lengstu lög að skerða þjónustu við íbúa til að mæta þeim fjárhagsvanda sem blasir nú við. 

Vilja hvorki skerða þjónustu né stöðva uppbyggingu

Fjárhagsvandi Árborgar | 11. apríl 2023

Mikil fólksfjölgun hefur verið í Árborg undanfarin ár.
Mikil fólksfjölgun hefur verið í Árborg undanfarin ár. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarstjórinn í Árborg segir sveitarfélagið forðast í lengstu lög að skerða þjónustu við íbúa til að mæta þeim fjárhagsvanda sem blasir nú við. 

Bæjarstjórinn í Árborg segir sveitarfélagið forðast í lengstu lög að skerða þjónustu við íbúa til að mæta þeim fjárhagsvanda sem blasir nú við. 

Ekki er búið að ákveða nákvæmlega hvaða hagræðingaraðgerða gripið verður til en horft verður til þess að selja fasteignir, nýta húsnæði stofnana betur og mögulega hækka innviðagjöld. Allar hugmyndir verða teknar til skoðunar.

Skuldahlutfall Árborgar er komið upp fyrir 150% og sér bæjarstjórnin ekki fram á að komast undir það viðmið fyrir áramótin 2026, eins og lög gera ráð fyrir. 

Sveitarfélagið leitaði ráðgjafar hjá KPMG á síðasta ári vegna stöðunnar sem upp er komin. Á morgun verður haldinn íbúafundur á Hótel Selfossi þar sem niðurstöður verða kynntar. 

Vilja engar handbremsuaðgerðir

„Það kemur í ljós að við náum þessu ekki fyrir þessi tilskildu tímamörk þannig að við höfum samband við [Innviðaráðuneytið] í janúar til að fá að vita hvað það þýðir gagnvart þeim. Þeir eiga samtal og bjóða okkur hvort við viljum ekki fá þeirra aðstoð en þeir eru í rauninni ekki komnir yfir okkur eins og ef að þeir hefðu haft samband að fyrra bragði,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, um fjárhagsvanda sveitarfélagsins.

„Það er búið að vera gríðarlega mikil uppbygging og við viljum gera þetta þannig að við getum gert þetta í sátt við íbúa, við séum ekki að fara í rosalega handbremsu,“ heldur hún áfram og nefnir að þegar hafi laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna Árborgar verið lækkuð.

Þá sé búið að skerða opnunartíma gámasvæðisins og sumarleyfi starfsmanna frístundaheimila lengt. Að öðru leyti muni sveitarfélagið gera hvað það getur til að forðast skerðingu á þjónustu við íbúa. Ekki verði ráðist í sparnaðaraðgerðir nema að yfirlögðu ráði. 

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar.
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar. mbl.is/Sigurður Bogi

Vilja selja eignir

„Við erum að horfa á sölu eigna þar sem að við getum komið starfsemi inn í önnur hús, nýtt fermetra betur og mögulega losað okkur þá við hús,“ segir Fjóla.

Myndi það þá mögulega fela í sér sameiningu stofnana?

„Nei við erum ekki komin út í það, við erum að skoða núna skólana með tilliti til líkans sem reiknar út hvernig er best að reka skóla, hver er hagkvæmasta samsetningin. Þetta líkan leiðir af sér hagræðingarmöguleika. Við erum ekki komin með hagræðingartillögur sem við munum tilkynna eða kynna. Við erum ekki komin niður á aðgerðir, en þær eru samt í vinnslu og það er verið að fara yfir hvernig sé hægt að leysa tilfærslu á starfsemi.“

Uppbygging miðbæjar ekki steypt bænum í skuldir

Fjóla segir það almennan misskilning að uppbygging miðbæjarins hafi sligað sveitarfélagið. Það verk hafi verið í höndum einkafyrirtækja og ef eitthvað er skapi það tekjur fyrir sveitarfélagið frekar en hitt.

Aftur á móti hafi fólksfjölgun og sú innviðauppbygging sem henni fylgir reynst kostnaðarsöm. Þá hafi verðbólga, launahækkanir og aðrir þættir aukið enn á skuldir.

„Fólksfjölgunin hefur verið rosalega hröð. Það getur verið erfitt að eiga við fólksfjölgun. Hvað eru næg innviðagjöld? Við þurfum að skoða það hjá okkur.“

Hún sér þó ekki fram á að sveitarfélagið dragi úr uppbyggingu næstu árin, það sé m.a. bundið við uppbyggingu vegna Stekkjaskóla og fráveitukerfisins. Þá verði ekki dregið úr uppbyggingu sem sé tekjuskapandi.

mbl.is