Hér erum við með dýrindis Veislufugl en það er heitið á kjúklingi sem er extra stór og glæsilegur. Slíkur fugl klikkar aldrei á matarborðinu - hvort sem er hversdags eða spari en með honum er boðið upp á meðlæti af betri gerðinni.
Hér erum við með dýrindis Veislufugl en það er heitið á kjúklingi sem er extra stór og glæsilegur. Slíkur fugl klikkar aldrei á matarborðinu - hvort sem er hversdags eða spari en með honum er boðið upp á meðlæti af betri gerðinni.
Við erum að tala um eina þá svakalegustu kartöflumús sem sögur fara af og sveppasósu sem sögð er yfirliðsvaldandi.
Það er meistari Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari snilld og hafi hún þakkir fyrir!
Veislufugl með kartöflumús
Fyrir 4-6 manns
Veislufugl
- 1 x veislufugl frá Matfugli (um 2,5 kg)
- Gott kjúklingakrydd að eigin vali
- 1 hvítlaukur
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C.
- Þerrið kjúklinginn og takið fyllinguna úr honum. Klippið gat á endann á henni og sprautið henni aftur inn í kjúklinginn án plastsins.
- Kryddið fuglinn vel með góðu kjúklingakryddi og setjið í ofnskúffu/eldfast mót.
- Skerið hvítlaukinn í tvennt (þvert) og leggið í fatið.
- Eldið við 200° í 20 mínútur, lækkið hitann í 150° og eldið áfram í um 80 mínútur eða þar til kjarnhiti nær 72°.
- Hvílið kjúklinginn í um 15 mínútur áður en þið skerið í hann.
- Á meðan fuglinn eldast má útbúa kartöflumús, sósu og salat.
Kartöflumús uppskrift
- Um 1 kg bökunarkartöflur (4-5 stk.)
- 20 g smjör
- 40 g rifinn Grettir (ostur)
- 150 ml nýmjólk
- 1 tsk. salt
- ¼ tsk. pipar
Aðferð:
- Flysjið kartöflurnar og skerið í litla teninga, sjóðið þar til þeir eru mjúkir í gegn.
- Setjið í hrærivélina (eða stappið með kartöflustappara), bætið smjöri og osti saman við og síðan mjólk og kryddum.
Sveppasósa uppskrift
- 50 g smjör
- 200 g kastaníusveppir
- 2 hvítlauksrif (rifin)
- 1 x piparostur (rifinn)
- 500 ml rjómi
- 2 msk. nautakraftur
- Salt eftir smekk
Aðferð:
- Steikið sveppina við meðalhita þar til þeir verða mjúkir og ilma vel.
- Bætið hvítlauknum saman við og kryddið eftir smekk.
- Hellið næst rjóma og piparosti yfir allt og hrærið þar til osturinn er bráðinn.
- Leyfið að malla á meðan kjúklingurinn eldast.
Salat
- 1 poki veislusalat
- 1 x mangó
- 4-6 jarðarber
- Fetaostur eftir smekk
- Salatblanda (fræ) um ½ poki
Aðferð:
- Skerið mangó og jarðarber niður og blandið öllu saman.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir