Nanna Rögnvaldardóttir hefur gefið út fjölda matreiðslubóka á ferli sínum og er einn helsti matarsérfræðingur landsins. Fyrir ári síðan hætti hún að vinna en hún hafði verið í fastri vinnu hjá Forlaginu lengi. Þrátt fyrir að hafa hætt í fastri vinnu hefur sjaldan verið meira að gera hjá Nönnu. Á dögunum kom Blóðsykursbyltingin út í íslenskri þýðingu en bókin hefur farið sigurför um heiminn.
Nanna Rögnvaldardóttir hefur gefið út fjölda matreiðslubóka á ferli sínum og er einn helsti matarsérfræðingur landsins. Fyrir ári síðan hætti hún að vinna en hún hafði verið í fastri vinnu hjá Forlaginu lengi. Þrátt fyrir að hafa hætt í fastri vinnu hefur sjaldan verið meira að gera hjá Nönnu. Á dögunum kom Blóðsykursbyltingin út í íslenskri þýðingu en bókin hefur farið sigurför um heiminn.
Nanna Rögnvaldardóttir hefur gefið út fjölda matreiðslubóka á ferli sínum og er einn helsti matarsérfræðingur landsins. Fyrir ári síðan hætti hún að vinna en hún hafði verið í fastri vinnu hjá Forlaginu lengi. Þrátt fyrir að hafa hætt í fastri vinnu hefur sjaldan verið meira að gera hjá Nönnu. Á dögunum kom Blóðsykursbyltingin út í íslenskri þýðingu en bókin hefur farið sigurför um heiminn.
„Ég var einfaldlega beðin um að þýða bókina af Forlaginu. Það lá dálítið á þýðingunni, ég var nýbúin að skila inn handriti af allt öðru tagi og þau vissu að ég var ekki með nein áríðandi verkefni framundan. Svo er þetta meira og minna um mat og þar af leiðandi á mínu sviði. Og slatti af uppskriftum þarna líka,“ segir Nanna.
Nanna hefur spáð mikið í blóðsykur í gegnum tíðina en á tímabili hætti hún að borða sykur og setja hann í mat. Nú er hún hinsvegar komin á sykursýkislyf og játar að það hefði verið gagnlegt fyrir hana að hafa þann fróðleik fyrr á lífsleiðinni sem er að finna í Blóðsykursbyltingunni.
„Ja, ég hætti að borða sykur í mat, sem hefur auðvitað mikil áhrif á blóðsykur. En ég var fyrst og fremst að hugsa um sykur, ekki kolvetni yfir höfuð, sem ég hefði náttúrlega átt að gera. Ég minnkaði sykurnotkun verulega vegna þess að ég var komin með forstigseinkenni sykursýki 2, sleppti öllum viðbættum sykri og ýmsu öðru og tókst að fresta sykursýkinni í nokkur ár. En ég vissi að mér tækist varla að forðast hana alveg. Og eftir að ég fór á sykursýkilyf hef ég ekki verið alveg eins passasöm með mataræðið,“ segir hún.
Hefðir þú viljað vera búin að lesa Blóðsykursbyltinguna á þeim tíma?
„Já, sannarlega. Bæði fann ég svo margt fróðlegt í bókinni – sem getur nýst hvort sem maður fer eftir ráðleggingunum þar eða ekki – og ég hafði heldur ekki áttað mig nógu vel á því hvað blóðsykurssveiflur geta valdið mörgum sjúkdómum eða haft áhrif á þá.“
Hvað kom þér á óvart þegar þú þýddir bókina?
„Hvað litlir hlutir geta skipt miklu máli. Til dæmis að ávöxtur sem borðaður er sem snarl, eða fyrir máltið, veldur háum blóðsykurstoppi en sami ávöxtur borðaður í lok máltíðar kallar fram miklu lægri topp og blóðsykurskúrvan verður því jafnari. Eða að pera sem borðuð er eintóm kallar fram háan blóðsykurstopp, pera með hnetusmjöri ekki. Eða hvað það virðist geta dregið mikið úr blóðsykurstoppum að drekka ediksblandað vatn fyrir máltíð. Og fjölmargt í sama dúr,“ segir hún.
Er þetta eitthvað sem getur raunverulega nýst fólki eða er þetta bara tískubóla?
„Eðli málsins samkvæmt eru allar svona mataræðis- eða lífsstílsbreytingar tískubólur vegna þess að við erum alltaf að leita að skyndilausnum, eða að minnsta kosti auðveldum lausnum. Það þýðir samt ekki að þær séu ekki vel nothæfar. Og kenningarnar sem þarna eru settar fram eru vel rökstuddar og kostur fyrir marga að það er ekki verið að útiloka neitt. Annað sem mér finnst jákvætt er að það er ekki kallað á að maður kaupi einhver sérstök hráefni, kannski eitthvað rándýrt sem fæst bara í sérverslunum, heldur það sem maður á í skápunum eða getur fundið í hvaða búð sem er. Maður getur haldið áfram að borða það sama og áður en það skiptir máli hvenær og í hvaða röð. Þetta blandast allt saman í maganum, segir fólk, en ef trefjarnar (grænmetið) er borðað fyrst hægja þær á niðurbroti og frásogi þess sem á eftir kemur og jafna blóðsykurskúrvuna. Þessi vitneskja – og fleira sem fram kemur í bókinni – held ég að geti raunverulega nýst fólki, hvort sem það fer eftir öllu sem þar er ráðlagt eða ekki.“
Nú hættir þú að „vinna“ fyrir ári síðan. Hefur aldrei verið meira hjá þér að gera eða hvernig er lífið núna?
„Lífið er bara ljúft. Ég hugsa reyndar að ég vinni ekkert minna en áður en ég hætti fastri vinnu en núna geri ég eingöngu það sem mér sýnist og þegar mér sýnist. Ég hef alltaf verið mikil tarnamanneskja og þegar ég er í stuði og verkefnið er skemmtilegt get ég unnið hálfan sólarhringinn vikum saman, en svo tek ég langar letipásur á milli og geri nákvæmlega ekki neitt. Á þessu ári síðan ég hætti er ég, fyrir utan þýðinguna, búin að lesa prófarkir, gera nafnaskrár, vinna að sjónvarpsþáttagerð, skrifa og ljósmynda einhverja matarpistla og fleira. Já, og skrifa rúmlega 400 blaðsíðna sögulega skáldsögu. En ég var nú búin að safna efni í hana í mörg ár. Mér leiðist allavega ekkert,“ segir Nanna.