Síðasta sumar var ekki alltaf það skemmtilegasta varðandi hita eða veður, en maður vill þó helst ekki láta það stöðva sig í að kíkja aðeins upp á hálendi í hjólatúr. Það var því kærkomið þegar ég fékk símtal seint í júní um hvort ég væri laus að koma strax í byrjun júlí í langa helgarferð yfir Arnarvatnsheiði. Slíku boði er ekki hægt að hafna og því var stefnan sett vestur með Hauki Eggertssyni, sem áður hefur komið lesendum þessa blaðs fyrir sjónir í fyrri ferðum mínum.
Síðasta sumar var ekki alltaf það skemmtilegasta varðandi hita eða veður, en maður vill þó helst ekki láta það stöðva sig í að kíkja aðeins upp á hálendi í hjólatúr. Það var því kærkomið þegar ég fékk símtal seint í júní um hvort ég væri laus að koma strax í byrjun júlí í langa helgarferð yfir Arnarvatnsheiði. Slíku boði er ekki hægt að hafna og því var stefnan sett vestur með Hauki Eggertssyni, sem áður hefur komið lesendum þessa blaðs fyrir sjónir í fyrri ferðum mínum.
Síðasta sumar var ekki alltaf það skemmtilegasta varðandi hita eða veður, en maður vill þó helst ekki láta það stöðva sig í að kíkja aðeins upp á hálendi í hjólatúr. Það var því kærkomið þegar ég fékk símtal seint í júní um hvort ég væri laus að koma strax í byrjun júlí í langa helgarferð yfir Arnarvatnsheiði. Slíku boði er ekki hægt að hafna og því var stefnan sett vestur með Hauki Eggertssyni, sem áður hefur komið lesendum þessa blaðs fyrir sjónir í fyrri ferðum mínum.
Þar sem spáð var norðanátt þessa þrjá daga ákváðum við að hefja ferðina á Laugarbakka og ljúka henni þegar suður væri komið. Við lögðum af stað seinni partinn úr bænum og skildum bíl eftir nálægt Hvítárvelli og tókum Strætó á Laugarbakka, en fyrir ferðir sem þessar, þar sem ekki er valið að hjóla í hringferð og enda aftur á upphafspunkti, er einmitt um að gera að nýta sér þjónustu Strætó sem getur auðveldlega tekið meðferðis hjól.
Um kvöldmatarleytið vorum við komnir á upphafsstað og hófum að hjóla inn í íslenska sumarið suður Miðfjarðarveg að austanverðu. Bjart samkvæmt árstíma, sólargeislarnir enn á lofti og nokkuð þægilegt veður meðan við höfðum enn sólina. Mjög fljótlega er farið út af malbikinu og inn á mölina og það var einmitt það sem við vorum að leita að.
Þar sem þetta var ekki keppnisferð og snerist ekki síst um að njóta og upplifa var fyrsta stopp aðeins hálftíma eftir að lagt var af stað. Var það við bæinn Ytra-Bjarg, en fyrir neðan bæinn er fallegur og áhugaverður staður fyrir þá sem hafa áhuga á Íslendingasögunum. Þetta er bærinn þar sem Grettir hinn sterki Ásmundsson fæddist og á bergi fyrir neðan bæinn var fyrir um hálfri öld komið fyrir minnisvarða um Ásdísi móður Grettis, sem bjó á bænum. Á minnismerkinu er að finna nokkrar lágmyndir úr Grettissögu sem gaman er að skoða.
Eftir stutt stopp var haldið áfram inn Miðfjörð með örlítilli hækkun. Þegar komið er yfir Austurá skiptist Miðfjörður í Núpsdal og Austurárdal og héldum við inn Austurárdalinn um Arnarvatnsveg. Þarf að fara yfir smá háls, en þar komum við inn í dalalæðu og kældi hún mann strax nokkuð hressilega. Hinum megin við hálsinn slotaði þokunni og sumarveðrið tók við á ný. Farið er inn Austurárdalinn vestan megin, en þegar komið er inn hálfan dalinn, rétt við eyðibýlið Aðalból, er farið yfir á eystri bakkann. Skammt þar á eftir tjölduðum við nálægt árbakkanum.
Stuttur dagur á hjólinu, eða undir 30 km og um tveir og hálfur tími með stoppum og samtals um 300 metra hækkun. Vegurinn hingað til var eins og hefðbundinn sveitarvegur, möl en þægilegt að fara um hann á malarhjóli líkt og ég var á og ferðafjallahjóli með framdempun eins og Haukur var á.
Næsti dagur var skýjaður en samt nokkuð bjart. Fljótlega tók við hækkun og eftir að hafa farið upp um 150 metra er komið að því að lækka sig aftur niður að brú sem fer yfir Austurá í fallegu gljúfri áður en hækkunin heldur áfram. Við taka um 200 hæðarmetrar til viðbótar áður en komið er upp á heiðina sjálfa þar sem taka við skemmtilegar litlar rúllandi hæðir. Þrátt fyrir skýjað veður var strax útsýni yfir á Langjökul þegar upp var komið.
Arnarvatnsheiðin virkar stundum nokkuð einsleit, en þó er einhver þægileg ró sem hvílir þar yfir. Allavega upplifði ég þarna sælutilfinninguna um að vera kominn upp á hálendi, en samt í grónara umhverfi en víða annars staðar. Vegurinn var líka skemmtilegur yfirferðar, nokkuð þjappaður, en við og við stærri steinar eða holur sem þurfti að vara sig á og héldu mér við efnið.
Stuttu áður en komið er að Arnarvatni stóra var aftur örlítil hækkun og vorum við þá komnir í um 550 metra hæð. Á leiðinni höfðum við hjólað fram hjá nokkrum veiðimönnum, enda heiðin þekkt fyrir gjöful veiðivötn. Við veiðihúsin við Arnarvatnið tók svo á móti okkur veiðivörðurinn sem fræddi okkur um veiði sumarsins og síðustu ára og allt það sem við vildum forvitnast um. Eftir stuttan kaffibolla héldum við Haukur hins vegar áfram, enda aðeins búnir að hjóla um 30 km það sem af var degi.
Meðfram Arnarvatninu eru aftur nokkrar minni brekkur og svo á gatnamótum Arnarvatnsvegar og Skagfirðingavegar, sem liggur um Stórasand, héldum við áfram í suðurátt um Arnarvatnsveg. Þar tók við síðasta eiginlega brekka dagsins áður en komið var að vatnaskilum og leiðin fór að liggja niður á við.
Með sýn yfir Langjökul og Eiríksjökul, þar sem skýin byrgðu reyndar að hluta sýn á toppana, brunuðum við niður hverja stuttu brekkuna á fætur annarri á mjög skemmtilegum malarvegi. Fleiri vötn komu í ljós og svo birtist Norðlingafljótið sem átti eftir að fylgja okkur góðan hluta ferðarinnar.
Við veiðihúsið í Álftakróki hittum við á veiðimenn sem voru að ganga inn í hús og var ekki annað í stöðunni en að setjast aftur niður og taka gott spjall yfir kaffibolla. Það voru þó aðeins dekkri ský á leiðinni yfir og því lögðum við aftur af stað fljótlega til að reyna að vera á undan rigningunni ef hún kæmi yfir. Rigningin kom þó aldrei nema í dropaformi og áfram var hjólað niður á við þangað til komið var að Helluvaði yfir Norðlingafljót, sem nú er þó búið að brúa þannig að auðvelt er að komast yfir á hvaða bíl eða hjóli sem er.
Þegar komið var yfir fljótið tók við skemmtilegasti kafli leiðarinnar, en þar fer vegurinn um jaðar Hallmundarhrauns og á köflum aðeins inn í gegnum hraunið. Vel þjappað en mjúkt undirlag sem stundum er hálfleirkennt og fullt af litlum sveigjum og beygjum meðfram hrauninu.
Markmið ferðarinnar var ekki að komast sem hraðast yfir sem mest, heldur frekar að njóta og upplifa, og því stoppuðum við för eftir um 64 km á stað sem kallast Vopnalág. Þar er gamall uppþornaður farvegur Norðlingafljótsins sem er vel gróinn og myndar gott skjól. Í Hellismannasögu segir frá því að á þeim stað hafi Borgfirðingar komið Hellismönnum á óvart þar sem þeir sváfu í láginni. Var hluti Hellismanna drepinn þar eða á flótta. Er í sögunni einnig minnst á að Eiríkur nokkur sem var úr liði Hellismanna hafi eftir þetta farið á handahlaupum upp undir jökulinn og komist undan. Er ein skýringin sú að jökullinn sé nefndur eftir honum, en þó eru fleiri tilgátur um tilurð þess nafns. Hvernig sem fór fyrr á öldum fór mjög vel um okkur í Vopnalág að þessu sinni, en þó fór að rigna um nóttina. Hélst létt rigning fram á miðjan næsta dag.
Byrjun þriðja dagsins var nokkuð þægileg. Þrátt fyrir rigninguna var hún nokkuð létt og áfram var haldið niður á við í hraunjaðrinum með fljótið okkur á hægri hönd. Fljótlega er komið að fjallinu Strúti og þar við veginn er einnig að finna skemmtilegan Hraunkarl sem fylgist með ferðalöngum sem fara á eða koma af heiðinni.
Stuttu áður en komið er af mölinni yfir á malbikið á ný er síðasta brekkan sem einhverju skiptir, en hún liggur í brattri hlíð meðfram Norðlingafljóti og liggur upp á hálsinn fyrir ofan bæinn Kalmanstungu. Þegar komið er inn á Hálsasveitarveg var svo stefnan tekin í átt að Húsafelli, en á þessum degi var norðan og norðaustan meðvindurinn farinn að hjálpa okkur nokkuð.
Frá Húsafelli fórum við svo í vesturátt fram hjá Barnafossi en svo yfir á norðurbakka Hvítár og Hvítársíðuveg, enda er þar að finna möl og minni umferð en sunnanmegin. Áður en við komumst inn á Borgarfjarðarbraut er stuttur kafli af Þverárhlíðarvegi sem þarf að fara um, en á þeim tíma sem við fórum stóð þar yfir vegavinna og var undirlagið með því alla grófasta og í raun heppni að ekki sprungu nein dekk.
Deginum lauk svo með að hjóla eftir malbikinu vestur Borgarfjarðarbraut í átt að Baulu með útúrdúr um Stafholtstungur áður en komið var í bílinn og lagt af stað í borgina á ný. Síðasti dagurinn um 83 km, en eins og fyrr segir að mestu niður á við og að talsverðum hluta á malbiki.
Það er með sanni hægt að mæla með þessari leið fyrir alla sem hafa áhuga á að prófa sig áfram í hjólaferðum um hálendið. Það eru engin vöð á leiðinni, sem gerir hana nokkuð öruggari fyrir óreynda. Þá er vegurinn fullkominn fyrir malarhjólreiðar alla leið og auðvelt að finna staði til að tjalda, þó að hafa þurfi í huga nálægð við læki. Arnarvatnsheiðin er einnig nokkru lægri en margir aðrir staðir á hálendinu og er opnað fyrir umferð þar yfir fyrr en víða annars staðar. Þá er einnig auðveldlega hægt að stytta ferðina niður í tvo daga með því að gista uppi á heiðinni eða fara fyrsta daginn tvöfalda dagleið.
Ferðasagan birtist fyrst í Hjólablaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn. Hægt er að nálgast blaðið í heild í viðhenginu sem fylgir fréttinni.