Valur knúði fram oddaleik - ekkert partý á Króknum

Valur knúði fram oddaleik - ekkert partý á Króknum

Valsmenn sigruðu Tindastól, 82:69, í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. 

Valur knúði fram oddaleik - ekkert partý á Króknum

Úrslitaeinvígi Vals og Tindastóls | 15. maí 2023

Sigtryggur Arnar Björnsson á fullri ferð í fyrri hálfleiknum í …
Sigtryggur Arnar Björnsson á fullri ferð í fyrri hálfleiknum í kvöld. Pablo Cesar Bertone reynir að stöðva hann. Ljósmynd/Jóhann Helgi

Vals­menn sigruðu Tinda­stól, 82:69, í fjórða leik liðanna í úr­slit­um Íslands­móts karla í körfuknatt­leik í Sík­inu á Sauðár­króki í kvöld. 

Vals­menn sigruðu Tinda­stól, 82:69, í fjórða leik liðanna í úr­slit­um Íslands­móts karla í körfuknatt­leik í Sík­inu á Sauðár­króki í kvöld. 

Staðan er því 2:2 í ein­víg­inu og hreinn úr­slita­leik­ur liðanna um Íslands­meist­ara­titil­inn fer fram á Hlíðar­enda á fimmtu­dags­kvöldið.

Lík­lega hafa ein­hverj­ir Skag­f­irðing­ar séð fyr­ir sér helj­ar­inn­ar partí í kvöld og fram eft­ir nóttu, ekki síst eft­ir svaka­leg­an fyrsta leik­hluta hjá Stól­un­um í leikn­um. Vals­menn hins veg­ar voru ekki á þeim bux­un­um að leyfa eitt­hvert partí og þeir af­greiddu leik­inn með góðum 82:69-sigri. Það verður því leikið til þraut­ar á Hlíðar­enda á fimmtu­dags­kvöld þegar odda­leik­ur liðanna fer fram.

Síkið á Sauðár­króki var stapp­fullt eins og alltaf í úr­slita­keppn­inni og var brjáluð stemn­ing á pöll­un­um frá því að fólki var hleypt inn í húsið 105 mín­út­um fyr­ir leik.

Tinda­stóll kom af mikl­um krafti inn í leik­inn og ætlaði sér greini­lega að halda uppi stans­lausu fjöri á áhorf­endapöll­un­um. Þrist­arn­ir duttu hver á fæt­ur öðrum og var Sig­trygg­ur Arn­ar Björns­son að raða þeim niður. Hann skilaði fjór­um þrist­um en gaf keflið svo til Írans Taiwo Badm­us. Sá írski dældi inn stig­um með körf­um í öll­um regn­bog­ans lit­um. Þeir tveir voru með 14 og 16 stig í leik­hlut­an­um en staðan eft­ir hann var 38:23.

Næsti leik­hluti var Vals­manna en þeir unnu hann 20:10. Stól­arn­ir hættu al­veg að hitta og voru barðir í harðfisk und­ir körfu Vals. Smám sam­an minnkaði mun­ur­inn og all­ir dóm­ar féllu Val í hag. Stól­arn­ir gerðu fátt annað en að safna vill­um og þeir einu sem virt­ust geta skorað voru Sig­trygg­ur Arn­ar og Badm­us.

Frank Aron Booker og Orzen Pavlovic fóru fyr­ir Vals­sókn­inni en minna gekk hjá hinum. Vals­menn klúðruðu fjöl­mörg­um víta­skot­um í þess­um leik­hluta og hefðu vel getað minnkað mun­inn enn frek­ar. Staðan í hálfleik var 48:43 og allt í einu var gott for­skot Stól­anna horfið og kom­inn skjálfti í heima­menn, jafnt inni á vell­in­um sem á pöll­un­um.

Val­ur hélt síðan upp­tekn­um hætti í þriðja leik­hlut­an­um og vand­ræðagang­ur í sókn­ar­leik Tinda­stóls var mik­ill. Smám sam­an lokaðist gatið og Vals­menn komust yfir. Þeir leiddu 64:60 þegar loka­leik­hlut­inn hófst. Í hon­um var nag­andi spenna lengi vel og liðin skipt­ust á að leiða. Kári Jóns­son tók sig þá til og skoraði fimm stig í röð og kom Val þar með í 74:67.

Stól­arn­ir áttu eng­in svör á lokakafl­an­um og Vals­menn gengu frá leikn­um með góðri hittni og unnu að lok­um ör­ugg­an sig­ur 82:69.

Í raun verður það að telj­ast rann­sókn­ar­efni hvað Stól­arn­ir hrundu niður eft­ir frá­bæra byrj­un á leikn­um. Í fyrsta leik­hluta skoruðu þeir 38 stig en hina þrjá leik­hlut­ana náðu þeir aðeins að skora 31 stig sam­tals. Valsvörn­in var hörð og góð en lík­lega hafa taug­ar ein­hverra úr Tinda­stólsliðinu verið þand­ar full mikið.

Frank Aron Booker verður að telj­ast maður þessa leiks. Hann barðist fyr­ir öll­um bolt­um og skilaði körf­um og góðri hittni all­an leik­inn. Frammistaða Vals­manna var betri í heild­ina og aðeins tveir í Tinda­stólsliðinu sýndu góðan leik fram­an af. Í svona al­vöru­leikj­um er það alls ekki nóg og verður gam­an að sjá hvernig menn ætla að koma til leiks á fimmtu­dag, þegar úr­slita­leik­ur­inn verður spilaður.

Gang­ur leiks­ins:: 5:6, 18:10, 26:20, 38:23, 40:25, 44:31, 46:36, 48:43, 50:47, 50:51, 55:55, 60:64, 67:65, 67:71, 69:74, 69:82.

Tinda­stóll: Taiwo Hass­an Badm­us 28/​6 frá­köst, Sig­trygg­ur Arn­ar Björns­son 19/​5 frá­köst/​5 stoðsend­ing­ar, Adom­as Drungilas 10/​9 frá­köst, Ant­onio Keys­hawn Woods 6, Sig­urður Gunn­ar Þor­steins­son 2, Ragn­ar Ágústs­son 2, Dav­is Geks 2.

Frá­köst: 22 í vörn, 5 í sókn.

Val­ur: Call­um Reese Law­son 17/​4 frá­köst, Kristó­fer Acox 16/​13 frá­köst, Frank Aron Booker 15/​5 frá­köst, Kári Jóns­son 14/​5 frá­köst/​7 stoðsend­ing­ar, Pablo Ces­ar Bert­one 11/​4 frá­köst/​5 stoðsend­ing­ar, Ozren Pavlovic 9/​8 frá­köst.

Frá­köst: 28 í vörn, 11 í sókn.

Dóm­ar­ar: Sig­mund­ur Már Her­berts­son, Krist­inn Óskars­son, Davíð Tóm­as Tóm­as­son.

Áhorf­end­ur: 1500.

Áhorfendur í Síkinu syngjandi 90 mínútum fyrir leik.
Áhorf­end­ur í Sík­inu syngj­andi 90 mín­út­um fyr­ir leik. Ljós­mynd/​Jó­hann Helgi
Tinda­stóll 69:82 Val­ur opna loka
mín.
40 Leik lokið
69:82 Við erum að fara í fimmta leik. Tindastólsmenn réðu ekkert við Val í seinni hálfleiknum og Valur spillir partíinu sem margir voru búnir að sjá fyrir sér í Skagafirði í kvöld.
39
69:80 Vörn Vals heldur og þeir vinna boltann. Callum setur svo þrist.
38
69:77 Enn taka Valsmenn sóknarfrákast og í kjölfarið skilar Kári þristi. Átta stiga munur og eins og Tindastóll hefur verið að hitta þá er þetta bara svo gott sem búið.
38
69:74 Þetta er að fara frá Stólunum, eða hvað?
36
67:74 Þetta er orðinn allsherjar flautukonsert. Kristófer ver skot frá Woods. Stólarnir virðast alveg punkteraðir.
36
67:74 Loks skora Stólarnir en þá er dæmd villa á Drungilas.
35
67:74 Kári Jónsson kemur til skjalanna á lykilstundu. Hann setur tvist og þrist og Tindastósmenn taka leikhlé.
35
67:69 Pablo var að fá sína fjórðu villu. Tindastóll hittir hvorki né hirðir fráköst.
34
67:69 Valur hirðir sóknarfráköst í bunkun og nú eru Valsmenn aftur komnir yfir.
32
67:65 Kári jafnar leikinn úr víti eftir að Woods hafði komið Stólunum aftur yfir. Pablo á svo auðvelt skot undir körfunni sem hann klúðrar. Badmus setur svo tvö víti niður hinum megin.
31
63:64 Drungilas byrjar á að setja þrist. Valur missir svo boltann en hver annar er Frank Aron Booker stelur honum aftur. Frank er búinn að vera langbesti maður Vals í leiknum.
30 Þriðja leikhluta lokið
Staðan er 64:60 fyrir Val. Valsmenn eru með flotta vörn og setja niður körfur reglulega. Stólarnir eru enn mjög ráðalausir í sínum sóknarleik og aðeins tveir menn að skora fyrir þá.
29
55:57 Ja, hérna hér. Hjálmar Stefánsson klúðrar þrisvar sinnum undir körfu Stólanna og heimamenn fá svo tvö víti og boltann eftir brot hjá Kristófer Acox.
28
55:55 Tindastólsmenn eru farnir að skora aftur eftir mikla þurrkatíð.
27
53:53 Drungilas jafnar úr víti.
25
50:51 Stólarnir ná ekki einu sinni skoti á körfu Vals. Þetta er svakalegt.
24
50:51 Valur kemst loks yfir. Þetta er búið að liggja í loftinu þar sem Stólarnir bara skora ekki neitt. Pavel tekur leikhlé.
23
50:47 Stólarnir komast ekkert áleiðis og eru að gera allskyns mistök.
22
50:47 Liðin eru að skiptast á körfum. Pétur Rúnar var að fá sína þriðju villu.
21 Síðari hálfleikur hafinn
Stólarnir sækja.
20 Hálfleikur
Staðan er 48:43 fyrir Tindastól. Valur kom hressilega til baka í þessum leikhluta og vann hann með tíu stigum, þrátt fyrir að hafa brennt af fjölmörgum vítum.
19
46:38 Aftur klúðrar Valur tveimur vítum.
18
46:36 Það hrúgast inn villur á Stólana. Hjálmar er nú á vítalínunni og hann klúðrar báðum skotunum.
17
44:36 Valsmenn eru að koma til baka. Drungilas varði skot áðan en dómararnir dæmdu körfu. Alveg glórulaus dómur.
16
44:31 Mjög afdrifaríkt atriði. Woods fær ekki villu undir körfu Vals og mótmælir. Hann fær tæknivillu og er þar með kominn með þrjár villur.
15
44:31 Valur er kominn í bónus.
14
42:31 Frank setur þrist úr horninu og annan nánast frá miðju.
13
40:25 Pablo sýnir frábær tilþrif undir körfu Stólanna og skorar með þrjá menn á sér.
11
38:23 Stólar brenna af þremur þristum í fyrstu sókn sinni. Þeir tóku tvö sóknarfráköst við litla hrifningu þjálfara Valsmanna.
11 Annar leikhluti hafinn
Stólar sækja.
10 Fyrsta leikhluta lokið
Staðan er 38:23 fyrir Tindastól. Þetta var svakalegur leikhluti af þeirra hálfu og Sigtryggur Arnar og Taiwo Badmus í miklum ham. Þeir eru með 14 og 16 stig.
10
36:20 Nei detti mér allar dauðar lýs úr hári. Sigurður Gunnar setur tvist af löngu færi fyrir Stólana.
9
34:20 Kristófer Acox klúðrar tveimur vítum og það munar um minna.
9
33:20 Badmus er aftur á ferðinni. Hann setur þrist verst svo og kemst upp að körfu Vals. Hann setur boltann niður og fær víti að auki, sem einnig fer niður. Hann er kominn með 14 stig.
8
28:20 Badmus, maður minn. Hann stelur boltanum af Callum og kemst einn að körfunni. Það er bara troðið með látum og allt verður snælduvitlaust.
7
23:18 Orzen er að skora fyrir Val. Fimm stig frá honum í röð. Drungilas fær nú á sig ruðning.
6
21:13 Nú var Sgtryggur Arnar að setja fjórða þristinn sinn. Hann fékk víst bara tvö stig áðan. Hann er kominn með 14 stig eða 67% af stigum Stólanna.
5
19:10 Sigtryggur Arnar er kominn með fjóra þrista. Hvaða rugl er þetta?
4
13:6 Nú verður allt vitlaust í Síkinu. Badmus setur þrist og Kári og Sigtryggur eiga eitthvað óútkljáð í kjölfarið. Valur tekur leikhlé.
3
7:6 Liðin skiptast á að skora en varnirnar eru fjári sterkar og lítið er gefið undir körfunum.
2
2:4 Kári er í jötunmóð og setur tvo tvista úr teignum.
1
2:0 Woods setur tóninn og skorar fyrstu körfuna. Liðunum gengur brösulega að finna körfu.
1 Leikur hafinn
Valur er í sókn.
0
Við erum með sömu byrjunarlið og í undanförnum leikjum.
0
Liðin hafa verið kynnt til leiks og nú er þetta loks að byrja.
0
Liðin eru að gera sig klár. það eru fimm mínútur í leik. Sterkasta dómaratríó landsins er mætt til að flauta í kvöld.
0
Þá er þetta að fara að byrja. Aðeins tíu mínútur í leik. Það hefur sýnt sig að góð byrjun er gulls ígildi í leikjunum í úrslitakeppninni.
0
Það er aðeins hálftími í leik.
0
Guðni forseti gerir það ekki endasleppt. Hann er nýbúinn að vera í Neskaupstað og í Vík. Nú er það Krókurinn.
0
Og hver haldið þið að hafi verið að mæta í Síkið? Sjálfur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. Mér skilst að hann hafi sníkt út einn miða með því að beita persónutöfrum sínum.
0
Ef Valsmenn vinna í kvöld þá þarf hreinan úrslitaleik til að skera úr um meistara ársins. Mun sá leikur fara fram á Hlíðarenda n.k. fimmtudag.
0
Ef Tindastóll vinnur leikinn í kvöld þá fer Íslandsmeistarabikarinn í Skagafjörðinn í fyrsta skiptið í sögunni.
0
Þriðji leikur liðanna var svo spilaður á föstudaginn á Hlíðarenda. Var það lang jafnasti leikurinn og liðin skiptust á að hafa forustuna. Tindastóll seig fram úr á lokakaflanum og tryggði sér 90:79-sigur.
0
Valsmenn snéru dæminu við í næsta leik, sem spilaður var í Síkinu Á Sauðárkróki. Þar voru þeir yfir allan tímann en Stólarnir áttu gott áhlaup í lokaleikhlutanum. Lauk þeim leik með sigri Vals, 100:89.
0
Tindastóll vann fyrsta leikinn á Hlíðarenda fyrir níu dögum síðan. Þar leiddu Stólarnir allan leikinn, lengstum með miklum mun. Valsmenn áttu góðan endasprett og endaði leikurinn með eins stigs sigri Stólanna, 83:82.
0
Það sem af e rhafa útiliðin unnið alla leikina í þessari rimmu.
0
Það er svo sem ekki í frásögur færandi en bæði Rúrik Gíslason og Gylfi Þór Sigurðsson eru mættir í Valsstúkuna. Þeir fengu báðir söng frá Grettismönnum þegar þeir mættu.
0
Nú eru 80 mínútur í leik og það er sungið og trallað í stúkunni. Húsið er líka orðið fullt.
0
Ekki verður betur séð en að allir leikmenn liðanna séu klárir í kvöld.
0
Það er búið að fjölga eitthvað stólum frá því í síðasta leik og áhorfendur eru komnir nánast ofan í völlinn undir stúkunni. Hvaða gæðingar fá að sitja í þessum stólum á eftir að koma í ljós.
0
Valsmenn voru einmitt að renna í hlað og þá er allt til reiðu.
0
Þá er klukkan loks orðin 17:30 og fólk streymir í húsið.
0
Núna er klukkan 16:45 og enn eru 45 mínútur í að fólki verður hleypt inn í húsið. Það er norðan nepja, 0°C hiti og skítakuldi en fólk er nú þegar komið í langa röð fyrir utan íþróttahúsið.
0
Klukkan er 16:16 og bikarinn var að koma í hús. Hvort hann fer á loft í kvöld verður að koma í ljós.
0
Klukkan er 16:00 og blaðamaður að koma sér fyrir í Síkinu. Það má glöggt finna spennuna í bænum og í raun er enginn að vinna í dag. Menn eru jú í vinnunni en þar er bara talað um körfubolta og aftur körfubolta.
0
Tindastóll leiðir 2:1 í einvíginu og getur því með sigri í kvöld tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn. Valur þarf á sigri að halda til þess að knýja fram oddaleik á Hlíðarenda.
0
Gott kvöld og verið velkomin með mbl.is í beina textalýsingu frá fjórða leik Tindastóls og Vals í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í körfuknattleik karla.
Sjá meira
Sjá allt
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Davíð Tómas Tómasson

Lýsandi: Einar Sigtryggsson

Völlur: Sauðárkrókur

mbl.is