Valsmenn sigruðu Tindastól, 82:69, í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.
Valsmenn sigruðu Tindastól, 82:69, í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.
Valsmenn sigruðu Tindastól, 82:69, í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.
Staðan er því 2:2 í einvíginu og hreinn úrslitaleikur liðanna um Íslandsmeistaratitilinn fer fram á Hlíðarenda á fimmtudagskvöldið.
Líklega hafa einhverjir Skagfirðingar séð fyrir sér heljarinnar partí í kvöld og fram eftir nóttu, ekki síst eftir svakalegan fyrsta leikhluta hjá Stólunum í leiknum. Valsmenn hins vegar voru ekki á þeim buxunum að leyfa eitthvert partí og þeir afgreiddu leikinn með góðum 82:69-sigri. Það verður því leikið til þrautar á Hlíðarenda á fimmtudagskvöld þegar oddaleikur liðanna fer fram.
Síkið á Sauðárkróki var stappfullt eins og alltaf í úrslitakeppninni og var brjáluð stemning á pöllunum frá því að fólki var hleypt inn í húsið 105 mínútum fyrir leik.
Tindastóll kom af miklum krafti inn í leikinn og ætlaði sér greinilega að halda uppi stanslausu fjöri á áhorfendapöllunum. Þristarnir duttu hver á fætur öðrum og var Sigtryggur Arnar Björnsson að raða þeim niður. Hann skilaði fjórum þristum en gaf keflið svo til Írans Taiwo Badmus. Sá írski dældi inn stigum með körfum í öllum regnbogans litum. Þeir tveir voru með 14 og 16 stig í leikhlutanum en staðan eftir hann var 38:23.
Næsti leikhluti var Valsmanna en þeir unnu hann 20:10. Stólarnir hættu alveg að hitta og voru barðir í harðfisk undir körfu Vals. Smám saman minnkaði munurinn og allir dómar féllu Val í hag. Stólarnir gerðu fátt annað en að safna villum og þeir einu sem virtust geta skorað voru Sigtryggur Arnar og Badmus.
Frank Aron Booker og Orzen Pavlovic fóru fyrir Valssókninni en minna gekk hjá hinum. Valsmenn klúðruðu fjölmörgum vítaskotum í þessum leikhluta og hefðu vel getað minnkað muninn enn frekar. Staðan í hálfleik var 48:43 og allt í einu var gott forskot Stólanna horfið og kominn skjálfti í heimamenn, jafnt inni á vellinum sem á pöllunum.
Valur hélt síðan uppteknum hætti í þriðja leikhlutanum og vandræðagangur í sóknarleik Tindastóls var mikill. Smám saman lokaðist gatið og Valsmenn komust yfir. Þeir leiddu 64:60 þegar lokaleikhlutinn hófst. Í honum var nagandi spenna lengi vel og liðin skiptust á að leiða. Kári Jónsson tók sig þá til og skoraði fimm stig í röð og kom Val þar með í 74:67.
Stólarnir áttu engin svör á lokakaflanum og Valsmenn gengu frá leiknum með góðri hittni og unnu að lokum öruggan sigur 82:69.
Í raun verður það að teljast rannsóknarefni hvað Stólarnir hrundu niður eftir frábæra byrjun á leiknum. Í fyrsta leikhluta skoruðu þeir 38 stig en hina þrjá leikhlutana náðu þeir aðeins að skora 31 stig samtals. Valsvörnin var hörð og góð en líklega hafa taugar einhverra úr Tindastólsliðinu verið þandar full mikið.
Frank Aron Booker verður að teljast maður þessa leiks. Hann barðist fyrir öllum boltum og skilaði körfum og góðri hittni allan leikinn. Frammistaða Valsmanna var betri í heildina og aðeins tveir í Tindastólsliðinu sýndu góðan leik framan af. Í svona alvöruleikjum er það alls ekki nóg og verður gaman að sjá hvernig menn ætla að koma til leiks á fimmtudag, þegar úrslitaleikurinn verður spilaður.
Gangur leiksins:: 5:6, 18:10, 26:20, 38:23, 40:25, 44:31, 46:36, 48:43, 50:47, 50:51, 55:55, 60:64, 67:65, 67:71, 69:74, 69:82.
Tindastóll: Taiwo Hassan Badmus 28/6 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 19/5 fráköst/5 stoðsendingar, Adomas Drungilas 10/9 fráköst, Antonio Keyshawn Woods 6, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 2, Ragnar Ágústsson 2, Davis Geks 2.
Fráköst: 22 í vörn, 5 í sókn.
Valur: Callum Reese Lawson 17/4 fráköst, Kristófer Acox 16/13 fráköst, Frank Aron Booker 15/5 fráköst, Kári Jónsson 14/5 fráköst/7 stoðsendingar, Pablo Cesar Bertone 11/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ozren Pavlovic 9/8 fráköst.
Fráköst: 28 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson.
Áhorfendur: 1500.