Glasafar á marmaranum

Heimili | 16. maí 2023

Glasafar á marmaranum

Heimili taka stöðugum breytingum og þróast í takt við tímann. Umhverfið mótar okkur og hefur áhrif á það hvernig við kjósum að raða saman hlutum og hvaða stemningu við viljum framkalla heima hjá okkur. Sumir eru praktískir en aðrir vilja bara það nýjasta nýtt.

Glasafar á marmaranum

Heimili | 16. maí 2023

Ljósar innréttinar, marmari og híbýli máluð í sama lit eru …
Ljósar innréttinar, marmari og híbýli máluð í sama lit eru vinsæl í Skandínavíu. Ljósmynd/Samsett

Heimili taka stöðugum breytingum og þróast í takt við tímann. Umhverfið mótar okkur og hefur áhrif á það hvernig við kjósum að raða saman hlutum og hvaða stemningu við viljum framkalla heima hjá okkur. Sumir eru praktískir en aðrir vilja bara það nýjasta nýtt.

Heimili taka stöðugum breytingum og þróast í takt við tímann. Umhverfið mótar okkur og hefur áhrif á það hvernig við kjósum að raða saman hlutum og hvaða stemningu við viljum framkalla heima hjá okkur. Sumir eru praktískir en aðrir vilja bara það nýjasta nýtt.

Fjórða iðnbyltingin hefur ekki bara gert okkur andlega fjarverandi. Hún hefur auðveldað okkur lífið og fært okkur ýmis þægindi á silfurfati. LED-ljósaborðar eru ágætt dæmi. Fyrir um tveimur áratugum kostuðu fimm metrar af falinni lýsingu með LED-ljósum svipað mikið og utanlandsferð fyrir fjóra til Spánar. Í dag er hægt að fara inn í næstu ljósabúð og kaupa lýsingu í metratali sem kostar minna en kvöldmatur fyrir fjóra. Þú þarft ekki að vera með sérfræðiþekkingu til þess að hengja ljósaborðana upp. Þú ferð inn á YouTube.com þar sem 12 ára krakki kennir þér allt sem þú þarft að kunna.

Í dag er sjaldgæft að fólk sé með aflokaða sparistofu með óþægilegum húsgögnum. Fólk á samt ennþá óþægileg húsgögn en yfirleitt tengjast þau einhverju gömlu hegðunarmunstri eða voru keypt þegar fólk hélt að það gæti sigrað heiminn með húsgagnavali. Hönnun og framleiðsla á húsgögnum er ekki það eina sem hefur breyst á síðustu 30 árum. Í dag er fátítt að fólk kaupi nýtt húsnæði þar sem boðið er upp á lítið, þröngt og aflokað eldhús með litlu vinnuplássi.

Jafnréttisbaráttan hefur líklega haft eitthvað með það að gera því karlar myndu líklega ekki sætta sig við að vera hlekkjaðir við eldavél í litlu loftlausu rými við kjötbollusteikingar. Karlar þurfa stóra eyju svo þeir geti sýnt listir sínar í eldhúsinu. Þegar þeir töfra fram kræsingar er eins og þeir séu á leiksviði. Það er einmitt þess vegna sem þeir þurfa háf sem getur gleypt alla steikingarolíuna á leifturhraða. Það er ekki til þess að reykskynjarinn fari ekki í gang heldur til þess að reykurinn trufli ekki þegar þeir leika listir sínar.

Eftir að karlarnir færðu eldhúsið inn í stofu þá breyttist stofan í leiðinni. Nú á hún að vera þannig að það sé hægt að gera allt í henni. Fólk þarf góðan sófa – ekki óþægilegan. Sófinn þarf helst að vera þannig að þú getir tekið fjarfundi í honum, unnið í tölvunni, borðað í honum, fengið framúrskarandi hugmynd að nýsköpunarfyrirtæki, hnýtt flugur og náð streitunni úr frumunum.

Það er þó ekki bara jafnréttisbarátta og fjórða iðnbyltingin sem hefur áhrif á heimili fólks. Heimsþekktir áhrifavaldar hafa raunveruleg áhrif þegar heimilið er annars vegar. Í Svíþjóð og Finnlandi eiga flestir áhrifavaldar svipuð heimili. Íbúðir þeirra eru málaðar í svo ljósgráum lit að þú heldur að um perluhvítan sé að ræða. Eldhúsinnréttingin er sprautulökkuð með sama lit og á borðplötunum er carrera-marmari. Í stofunni eru fulningar á veggjunum sem eru málaðar í sama lit og eldhúsið og eldhúsinnréttingin. Það er yfirleitt mjög hátt til lofts í þessum íbúðum og ljóst fiskibeinaparket á gólfunum. Úti á miðju stofugólfi er sófi með upphleyptu áklæði og undir honum er stór ferköntuð motta í sama lit og veggirnir. Allt lítur þetta mjög glæsilega út enda aldrei neinn að borða pítsusnúða í sófanum í stofunni eða að djúpsteikja franskar kartöflur í eldhúsinu. Þar eru heldur engin börn að drasla til og það skellir aldrei neinn hurðum á þessum heimilum enda allir mjög skaplausir í gráhvítum höllum Skandinavíu.

Þótt tæknibyltingar, jafnréttisbarátta og áhrifavaldar geti hreyft við okkur og fengið okkur til að færa til húsgögn og langa í gráhvítt heimili þá vitum við flest hvað lífið gengur út á. Fólk vill lifa lífinu. Það vill finna þegar hjartað slær í öllum sínum ófullkomleika. Það vill líka geta skellt hurðum, orðið ástfangið, skilið eftir glasafar eftir rauðvín á marmaranum og klínt varalit í sófann á þess að heimurinn farist. Það vill hafa gaman og það vill að það sé eitthvað að frétta. Falleg umgjörð getur án efa stutt við það og aukið lífsgleði en umgjörðin ein og sér getur ekki búið til töfra. Jafnvel þótt gráhvíta málningin sé umhverfisvæn og ekki prófuð á dýrum.

mbl.is