Seðlabúnt eða vöðvabúnt er ekki það sem konur þrá

Seðlabúnt eða vöðvabúnt er ekki það sem konur þrá

Theodór Francis Birgisson gefur nokkur góð og nútímaleg ráð sem lúta að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum milli kynjanna en hann er klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldu- og áfallamiðstöð. 

Seðlabúnt eða vöðvabúnt er ekki það sem konur þrá

Theodor Francis Birgisson klínískur félagsráðgjafi | 3. júní 2023

Theodór Francis Birgisson ráðgjafi hjá Lausninni.
Theodór Francis Birgisson ráðgjafi hjá Lausninni.

Theodór Francis Birgisson gefur nokkur góð og nútímaleg ráð sem lúta að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum milli kynjanna en hann er klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldu- og áfallamiðstöð. 

Theodór Francis Birgisson gefur nokkur góð og nútímaleg ráð sem lúta að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum milli kynjanna en hann er klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldu- og áfallamiðstöð. 

Flestir vita að góð samskipti er eitt það mikilvægasta þegar kemur að heilbrigðum og góðum samböndum, hvort sem þau hafa staðið yfir í áraraðir eða eru ný af nálinni. Í mörgum ef ekki öllum samböndum koma upp hnökrar og erfiðleikar á einhverjum tímapunkti sem þarf að takast á við og vinna úr og þá getur verið gott að fá ráð hjá fagfólki. Hvað þykir konum gott að heyra frá maka sínum eða félaga?

„Þegar kona leitar sér að maka þá er hún ekki líkleg til að vera að leita sér að vöðvabúnti eða seðlabúnti, þó það megi að sjálfsögðu fylgja með, heldur er hún helst að leita sér að tilfinningalegu öryggi. Kona er því líklegri til að vilja heyra eitthvað sem vekur með henni traust og vissu.“

Hvernig er hægt að byggja upp traust í samböndum?

„Með því að fela ekkert fyrir maka þínum sem maki þinn ætti að vita. Ef eitthvað er þess eðlis í lífi þínu sem þér finnst að maki þinn ætti ekki að vita er það merki um eitthvað óeðlilegt. Í slíkum aðstæðum myndi það vekja upp spurningar hjá mér eins og af hverju ertu þá á annað borð með viðkomandi í parsambandi.“

Hver er lykillinn að hamingjusömu langtímasambandi í stuttu máli?

„Að viðhalda gagnkvæmri vináttu og virðingu í gegnum allt það sem lífið ber í skauti sér.“

Hvernig er hægt að fyrirbyggja pirring og togstreitu?

„Það er nánast útilokað að fyrirbyggja pirring en togstreitu er auðveldara að eiga við. Ef við náum að yfirstíga og vinna rétt út pirringnum þá minnkar það líkur á togstreitu. Þegar pirringur hellist yfir okkur í parsambandi er mjög gott að minna sig á hvers vegna maður elskar maka sinn og nálgast hann síðan út frá þeirri staðreynd að við elskum.“

Hvað ber að forðast í samskiptum para?

„Ásakanir. Það er miklu betra að segja „ég upplifi …“ eða „mér finnst …“ heldur en að segja „þú ert…“ Sem sagt að vera nærgætin í samskiptum og nota „ég“ skilaboð í staðinn fyrir „þú“ skilaboð.“

Hvernig ætti að meðhöndla, ósætti og ágreining?

„Ágreiningur er óumflýjanlegur í parsambandi og því mikilvægt að kunna að takast á við slíkt ástand. Þar gildir í fyrsta lagi að við þurfum að geta talað saman um ágreininginn með gagnkvæmri virðingu. Það er líka mjög mikilvægt að hlusta til þess að skilja maka okkar en ekki bara hlusta til að geta svarað.“

Hvað um samfélagsmiðla? Hvernig eiga einstaklingar að umgangast þá í samböndum?

„Þegar kemur að notkun samfélagsmiðla er gríðarlega mikilvægt að bera virðingu fyrir upplifun makans á notkun okkar á slíkum miðlum. Við ættum ekki að “like-a” við færslur eða myndir sem særa hinn aðilann þó svo að við skiljum ekki endilega hvers vegna það særir maka okkar. Þegar samfélagsmiðlanotkun særir annan aðilann þarf líka að vera hægt að ræða það á málefnalegan hátt. Viðbrögð maka okkar við einhverju sem við gerum á samfélagsmiðlun geta líka vakið upp sálræn, traumatísk viðbrögð og þá dugar ekki að rökræða á málefnalegan hátt heldur þarf inngrip fagaðila.“

mbl.is