Ásdís Ósk Valsdóttir skildi 2015 og skrifar um líf einhleypra kvenna og hvað það geti
verið furðulegt á köflum.
Ásdís Ósk Valsdóttir skildi 2015 og skrifar um líf einhleypra kvenna og hvað það geti
verið furðulegt á köflum.
Ásdís Ósk Valsdóttir skildi 2015 og skrifar um líf einhleypra kvenna og hvað það geti
verið furðulegt á köflum.
Konur á Íslandi eru almennt sjálfstæðar og færar í flestan sjó. Þess vegna kom mér það ansi mikið á óvart þegar ég skildi árið 2015 hversu margir karlmenn töldu að mig vanhagaði um allskonar þjónustu og hversu margir buðu sig óumbeðið fram að veita hana. Árið 2023 varð ég svo vör við að ef eitthvað þá hefur framboðið aukist. Það eru líka komnir fleiri samfélagsmiðlar og því auðveldara að bjóða fram aðstoð sína.
Mér fannst því tilvalið að skella í smá blogg varðandi einhleypar konur og fara yfir nokkur grundvallaratriði þegar kemur að óumbeðnum samskiptum. Ansi oft byrja þau á því að riddarinn á hvíta hestinum geysist fram á sviðið klár í slaginn. Fórnfýsi hans er með einsdæmum og stundum fæ ég á tilfinninguna að ég ætti að vera ansi þakklát fyrir að viðkomandi býður sig fram.
Einnota brundtunna
Þegar ég fæ svona random skilaboð frá karlmanni sem býður fram þjónustu sína fyllist ég „stolti“. Þarna úti er einhver karlmaður sem er svo spenntur fyrir mér að hann er tilbúinn að nota mig sem einnota brundtunnu. Vá, hversu heppin er ég eiginlega? Það fara nokkrar hugsanir í gegnum hausinn á mér. Hversu oft stundar hann svona brundtunnulosun. Númer hvað ætli ég sé í þessum mánuði eða ef ég er virkilega heppin, í vikunni? Ætli hann sé alltaf með öryggið á oddinum eða er hann kannski með klippikort á Húð-og kyn? Ætli ég gæti þá fengið gestapassa hjá honum?
Ég hef rætt við ansi margar konur sem eru einhleypar og hafa verið einhleypar mislengi. Flestar eru sammála um að eftir því sem þær verða einhleypar lengur fækkar þessum sjálfskipuðu riddurum á hvíta hestinum sem ætla að bjarga þeim frá innihaldslausu lífi. Það er eins og þeir haldi að nýeinhleypar konur séu til í hvað sem er, hvenær sem er með hverjum sem er. Það virðist hreinlega vera línuleg fylgni á milli framboðs af random gaurum og hversu lengi kona hefur verið einhleyp.
Hellisbúarnir mæta á svæðið
Það er ákveðin tegund af karlmönnum sem fórnar sér í þetta verkefni. Þetta eru gömlu góðu hellisbúarnir. Þessir sem fóru í veiðiferðir og komu heim með bráðina. Elsku hellisbúi. Ef þú skildir ekki vita þetta þá tala konur við vinkonur sínar og ef þú tekur útvíkkað tengslanet einnar konur þá nær það til ansi margra kvenna þannig að ef þú hefur stundað hellisbúahegðun lengi þá fréttist það fljótt. Ég hugsa að það gæti skilað miklu betri árangri að vera hreinskilinn í upphafi. Þá ertu að vinna með réttan markhóp þ.s. það er til fullt af konum sem vilja skuldbindingalaust kynlíf, allt upp á borðum og engin verður súr vegna mismunandi væntinga að ég tali ekki um tímasparnaðinn sem fer í óþarfa samskipti. Þarfagreining er lykilatriði hérna.
Skilaboð á samfélagsmiðlunum
Í dag eru óteljandi leiðir til að eiga samskipti. Þú getur verið gamaldags og sent kort eða bréf. Þú getur tekið upp símann eða sent skilaboð á samfélagsmiðlunum og möguleikunum fjölgar bara eftir því sem tækninni fleygir fram. Þarna eru ansi margar leiðir til að nálgast konur sem vekja áhuga þinn. Þú getur byrjað smátt og gefið like á eitthvað sem viðkomandi kona setti inn nú eða sent henni skilaboð. Ef þið eruð ekki tengd á samfélagsmiðlunum þá er hægt að senda henni vinabeiðni.
Þarna eru nokkrar leiðir og þær eru mislíklegar til árangurs.
Þverhausar sem hlusta ekki
Mér finnst alltaf áhugavert þegar fyrsta NEI-IÐ virkar ekki. „I kid you not“. Það hríslast um mig þessi tilfinning vá hvað ég finn virðinguna streyma frá þessum manni. Ég hafði ekki áhuga og hann ákvað að hunsa það. Sumir eru þaulsætnari en aðrir og prófa allskonar opnanir. Yfirleitt skilar það sama árangri. Ég er komin með mjög einfalt kerfi. Ef fyrsta nei-ið virkar ekki þá ertu komin á „No fly“ listann og það mun ekki skipta einu einasta máli hversu spennandi deit þú myndir bjóða mér á í framtíðinni. Ég horfi bara á virðingarleysið sem þú sýndir mér í upphafi samskipta. Vinur minn sagði að ég yrði nú að passa hvað ég segi svo ég myndi ekki fæla alla karlmenn frá. Ég held reyndar að 95% karlmanna séu frábær eintök sem beri virðingu fyrir sér og öðrum og þverhausarnir séu algjör undantekning og ég lifi alveg þó að þeir hætti að senda skilaboð. Ég mæli eindregið með að hlusta á fyrsta NEI-IÐ og snúa athygli ykkar að næstu konu, konu sem mögulega hefur áhuga á ykkur. Við erum jafnmismunandi eins og við erum margar.
Eru óumbeðin skilaboð trúnaðarskjöl?
Konur eru upp til hópa kurteisar og svara oft svona skilaboðum af kurteisi sem margir mistúlka sem áhuga og gefa því í. Ég hef verið í þessum hópi. Svarað stutt en kurteist. Ég hef hins vegar áttað mig á því að það er ekki að virka nógu vel þannig að ég hef tekið ákvörðun að prófa aðra tækni og sjá hvort að hún virki betur. Um leið og fyrsta Nei-ið er komið þá mun ég senda einfalda viðvörun á viðkomandi. Sæll, svo það sé alveg skýrt þá hef ég hef ég ekki áhuga og ef þú heldur áfram að senda mér skilaboð þá mun ég birta þau í story og tagga þig. Stundum er viðkomandi sambandsvilltur og þá er hægt að bjóða upp á tvöfalt tagg, hann og maki hans. Það er sorglega algengt að konur fái skilaboð frá áhugasömum karlmönnum sem muna ekki alveg sambandsstöðu sína og til að vera ekki með vesen þá leysir konan það yfirleitt með því að eyða út þessum skilaboðum, fela þau. Mín spurning er samt þessi. Hvers vegna ætti aðili sem fær óumbeðin skilaboð frá sambandsvilltum aðila að fela skömmina? Ætti þetta ekki frekar að vera öfugt? Sambandsvillti aðilinn ætti ekki að koma öðrum í þessa aðstöðu. Það væri gaman að sjá hversu margar færslur kæmu á einni viku ef konur myndu setja óumbeðið áreiti í story og tagga viðkomandi og hversu margir ættu margar færslur.
Skömminni skilað
Ég byrjaði á því fyrir nokkrum árum að skila skömminni símleiðis. Ef mér fannst maður hafa sýnt mér óvenjumikið virðingarleysi í samskiptum þá hringdi ég daginn eftir og fór yfir þessi samskipti. Yfirleitt tóku menn ágætlega í þetta en flestir voru samt á því að hefðu bara lent í þessum aðstæðum. Mitt svar er einfalt, það lendir engin í þessu. Það ert þú sem átt frumkvæðið að þessum samskiptum. Það ert þú sem sýnir virðingarleysið. Aðilinn sem fær skilaboðin lendir hins vegar í þessu og hann situr uppi með stutta stráið og ábyrgðina á því hvernig á að tækla þetta.
Ég ferðast mikið ein erlendis og stundum bóka ég ferð á vegum ferðaskrifstofa. Einu sinni eftir svona ferð þá var ég að ganga frá dagtöskunni minni þegar ég fann bréf á botni töskunnar. Það var skrifað á ensku og var frá starfsmanni ferðaskrifstofunnar. Innihaldið var á stutta leið að viðkomandi leist gífurlega vel á mig og vildi endilega heyra í mér ef það væri gagnkvæmt. Hann gaf mér upp WhatsApp númerið sitt. Hann tók líka fram að ef ég vildi ekki kynnast betur þá vinsamlegast eyðileggja bréfið þar sem þetta var gróft brot af hans hálfu og hann myndi líklega missa vinnuna ef þetta kæmist upp. Þarna var ég sett í aðstöðu sem ég kærði mig ekki um. Fyrsta hugsunin sem fór í gegnum hausinn á mér. Ég hef engan áhuga, best að henda bréfinu svo að hann lendi ekki í vandræðum. Svo fór ég að hugsa þetta betur. Maðurinn fór í töskuna mína. Hann fór í gegnum dótið mitt. Hann vissi að hann mátti ekki eiga þessi samskipti. Ég átti að vernda hann þrátt fyrir að hann færi langt yfir öll eðlileg mörk. Svo tók skynsemin völdin. Ég rek fyrirtæki og ef einhver starfsmaður hjá mér fer yfir mörk viðskiptavinar þá vil ég vita það. Þetta snýst ekki um þennan eina aðila. Hvað ef hann stundar þetta reglulega, hvað ef ég er ekki frávikið. Ég ákvað því að afhenda bréfið fararstjóranum og setja málið í hans hendur. Þetta var ekki mín skömm að bera.
ÞAÐ MÁ ALDREI NEITT LENGUR
Hvað er þá eiginlega málið, Ásdís. Má ekki gefa konu undir fótinn lengur? Eruð þið svo heilagar að það má ekki reyna við ykkur eða stunda skyndikynni? Hvert er þessi heimur eiginlega að stefna? Jú elskurnar mínar það má gera allt sem allir vilja. Lykilatriðið er bara ALLIR VILJA ekki sumir. Ef annar aðilinn vill en hinn ekki þá flokkast það undir óumbeðið áreiti og hversu lítið og ómerkilegt sem það virðist vera þá er þetta langþreytt til lengdar. Það er ekki þitt að meta hvað sé saklaust og hvað ekki. Ég veit ekki um ykkur en ég myndi aldrei fara á deit með manni sem virðir ekki mín mörk í samtali. Þetta er svo stórt rautt flagg að það þarf ekkert að skoða það frekar.
En getur þú ekki hætt þessu væli og bara blokkað liðið. Auðvitað get ég það en er það mitt að blokka óumbeðnar sendingar? Er það ekki þeirra að senda þær ekki. Ég skil alveg að gervigreind geti sent frá sér skilaboð sem flokkast undir áreiti afþví að þetta er jú gervigreind og er að læra en lendir einhver einhvern tímann í því að senda óumbeðið áreiti. Þegar þú notar orð eins og að lenda í einhverju þá er þetta ekki þín ábyrgð heldur lendir þú óvart í aðstæðum sem þú ræður ekki við.
Stundum er betra að fá myndskýringu en mörg orð og því ákvað ég að setja inn link af uppáhaldsvideónu mínu um að virða mörk: