Hvernig fær 45 ára maður ADHD greiningu?

Hvernig fær 45 ára maður ADHD greiningu?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlífi sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem velti fyrir sér greiningarferli vegna ADHD. 

Hvernig fær 45 ára maður ADHD greiningu?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur | 12. júní 2023

45 ára gamall maður leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur …
45 ára gamall maður leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur sálfræðingi varðandi ADHD greiningu. Ljósmynd/Samsett

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlífi sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem velti fyrir sér greiningarferli vegna ADHD. 

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlífi sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem velti fyrir sér greiningarferli vegna ADHD. 

Sæl

Ég er 45 ára gamall karlmaður og mig hefur lengi grunað að ég gæti verið með ógreint ADHD. Fjölskylda mín og vinir hafa einnig haft orð á því og núna nýverið lauk sonur minn greiningarferli í skólanum sínum, þar sem niðurstaða greiningar reyndist vera ADHD. Í hans greiningarferli tengdi ég við mörg einkenni. Ég flosnaði ungur upp úr skóla og alla mína tíð hef ég skipt ört um vinnu. Síðustu ár hef ég einnig verið að glíma við kvíða og þunglyndi og mikið eirðarleysi, eins og hugur minn nái aldrei ró. Mig langar til þess að forvitnast hvernig ég sný mér í slíku ef ég vil komast í ADHD-greiningu og hvernig fer greiningarferlið fram?

Kveðja, 

Jón 

Sæll

Takk kærlega fyrir að hafa samband. Þessi stutta lýsing þín gæti bent til þess að ADHD einkenni séu til staðar sem gott væri að skoða nánar. Það sem þú þarft að gera er að panta tíma hjá sálfræðingi sem tekur að sér ADHD-greiningar. Þá er einnig hægt að leita til geðlæknis eða heimilislæknis og biðja þá um að senda tilvísun til ADHD-teymisins (á vegum heilsugæslustöðva landsins) sem býður upp á greiningu og meðferð fyrir fullorðna. En þar er oft lengri biðtími.

Fyrsta skrefið er að fara til sálfræðingsins í viðtal og lætur sálfræðingurinn þig hafa skimunarlista þar sem ákveðnum spurningum er svarað. Einnig eru aðstandendur (foreldrar og maki oft og tíðum) beðnir um að svara skimunarlistum. Sálfræðingurinn fær svo skimunarlistana til baka og metur út frá þeim hvort þörf sé á nánara greiningarferli. Í greiningarferli þarf sálfræðingur að fá ítarlega sögu skjólstæðingsins (fjölskylduaðstæður, uppeldi, þroskasögu, skólagöngu, atvinnusögu og upplýsingar um heilsufar og líðan). Þá er einnig lagt fyrir ADHD-greiningarviðtal þar sem spurt er ítarlega út í hvert og eitt einkenni. Einnig er farið í gegnum geðgreiningarviðtal með helstu geðröskunum. Því næst vinnur sálfræðingur úr gögnunum og niðurstöður eru teknar saman. Að lokum hittir sálfræðingur skjólstæðinginn aftur og fer yfir skýrsluna með honum og helstu niðurstöður. Ef skjólstæðingur leitast eftir því að prófa ADHD-lyf eftir greiningarferlið, þá þarf að leita til geðlæknis vegna þessa. Sálfræðingur getur ekki alltaf aðstoðað við það að koma skjólstæðingi til geðlæknis í kjölfar greiningar, en getur oft og tíðum leiðbeint og komið því ferli í réttan farveg.

Oft er það þannig að ADHD-greining á fullorðinsaldri svarar mörgum spurningum skjólstæðingsins og getur stundum verið orsök annars vanda sem viðkomandi er búinn að glíma við í mörg ár, til dæmis eins og einkenni kvíða/þunglyndis.

Gangi þér vel!

Tinna Rut Torfadóttir, sálfræðingur 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is