Ný ákæra: „Einn vörubíll myndi taka lágmark 100“

Ákært fyrir hryðjuverk | 12. júní 2023

Ný ákæra: „Einn vörubíll myndi taka lágmark 100“

Í nýrri ákæru héraðssaksóknara á hendur Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni í hryðjuverkamálinu svokallaða eru nefnd 64 atriði og samskiptum tvímenninganna ítarlega lýst.

Ný ákæra: „Einn vörubíll myndi taka lágmark 100“

Ákært fyrir hryðjuverk | 12. júní 2023

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson við fyrirtöku málsins í …
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í nýrri ákæru héraðssaksóknara á hendur Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni í hryðjuverkamálinu svokallaða eru nefnd 64 atriði og samskiptum tvímenninganna ítarlega lýst.

Í nýrri ákæru héraðssaksóknara á hendur Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni í hryðjuverkamálinu svokallaða eru nefnd 64 atriði og samskiptum tvímenninganna ítarlega lýst.

Sindri Snær er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka, en Ísidór fyrir hlutdeild í meintu broti Sindra. Báðir neituðu sök við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Sindri er talinn hafa sýnt ásetning til hryðjuverka „ótvírætt í verki“ á tímabilinu maí til september 2022. Hann hafi framleitt og aflað sér skotvopna, skotfæra og íhluta í skotvopn og sótt, móttekið og tileinkað sér efni um þekkta aðila sem framið hafa hryðjuverk, aðferða- og hugmyndafræði þeirra.

Ræddu um þekkta hryðjuverkamenn

Í ákærunni kemur fram að Sindri hafi keypt tvo árásarriffla af gerðinni AR-15 og AK-47 í júní í fyrra, auk skotfæra í þá. Eiginleikum skotvopnsins AR-15 hafi verið breytt úr því að vera handhlaðinn riffill í hálfsjálfvirkan riffil.

Sindri og Ísidór ræddu sín á milli um hryðjuverkamenn á borð við Brenton Tarrant og Peyton Gendron, sem og skoðað leiðbeiningar um gerð rícin-eiturs úr riti Anders Behring Breivik.

Fram kemur að Ísidór hafi sent Sindra myndir af hryðjuverkamönnunum Anders Breivik, Dylann Roof, Brenton Tarrant og Robert Gregory Bowers.

„Sérðu þetta ekki fyrir þér?“

Í ákærunni er greint frá samtali þeirra um Gleðigönguna í ágúst. Sindri sendir Ísidóri mynd af Páli Óskari við hátíðarhöld göngunnar og segir: „Sérðu þetta ekki fyrir þér?“. Svarar Ísidór þá játandi og Sindri segir: „Einn vörubíll myndi taka lágmark 100“.

Þá hafi Sindri farið inn á síðuna hinsegindagar.is og leitað að efni á netinu tengdu „gaypride – Hljómskálagarður“ og í kjölfarið farið á vettvang og mælt bil á milli lokana með það fyrir augum að kanna hvort unnt væri að aka stóru ökutæki þar í gegn.

Tvímenningarnir ræddu einnig um að nota dróna til sprengjuárása og fljúga þeim á Alþingi, lögreglustöð og dómsmálaráðuneytið.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fólk má deyja mín vegna“

Þá er Sindri sagður hafa sent á nafngreindan mann skilaboð um afstöðu sína til fólks:

„Ég elska óreiðu – Fólk má deyja mín vegna – Varla til sú manneskja sem hefur sýnt mér kærleika nokkurn tímann um ævina – Fólk er almennt viðbjóður – Plága – Djöfull tek ég marga með mér þegar að því kemur“.

Svarar maðurinn þá „Ók breivik“.

Sindri Snær Birgisson.
Sindri Snær Birgisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þau munu fá það á trýnið“

Þá hafi Sindri leitað að efni tengdu árshátíð lögreglunnar um 20 mínútum eftir að hafa tekið skjáskot af bréfi lögreglunnar þar sem skotvopnaumsókn hans var hafnað.

Eftir höfnun umsóknarinnar sendir Sindri á Ísidór „þau munu fá það á trýnið“.

Ísidór er ákærður fyrir hlutdeild að meintu broti Sindra Snæs, meðal annars með liðsinni í orði og verki, með því að taka þátt í og aðstoða Sindra við framleiðslu skotvopna og íhluta í skotvopn og aðstoðað hann við kaup á skotfærum í árásarrifflanna, vitandi að Sindri hefði í hyggju að fremja hryðjuverk.

Ákæran er tólf blaðsíðna löng. Aðalmeðferð málsins fer fram í september.

mbl.is