Hraðatakmörkun aftengd og bifhjóli ólöglega ekið

Hjólreiðar | 22. júní 2023

Hraðatakmörkun aftengd og bifhjóli ólöglega ekið

Ökumaður létts bifhjóls, sem lenti í árekstri við ökumann á rafmagnshlaupahjóli við Sæbraut í nóvember 2021 með þeim afleiðingum að ökumaður rafmagnshlaupahjólsins lést, ók bifhjólinu á hjólastíg þar sem óheimilt er að aka slíku bifhjóli, en það heyrir undir flokk II í umferðarlögum.

Hraðatakmörkun aftengd og bifhjóli ólöglega ekið

Hjólreiðar | 22. júní 2023

Slysið varð á hjólastígnum Mánastíg sem liggur meðfram Sæbraut. Slysstaðurinn …
Slysið varð á hjólastígnum Mánastíg sem liggur meðfram Sæbraut. Slysstaðurinn varð í mjúkri beygju snemma um morgun þegar myrkur var. Skjáskot/RNSA

Ökumaður létts bifhjóls, sem lenti í árekstri við ökumann á rafmagnshlaupahjóli við Sæbraut í nóvember 2021 með þeim afleiðingum að ökumaður rafmagnshlaupahjólsins lést, ók bifhjólinu á hjólastíg þar sem óheimilt er að aka slíku bifhjóli, en það heyrir undir flokk II í umferðarlögum.

Ökumaður létts bifhjóls, sem lenti í árekstri við ökumann á rafmagnshlaupahjóli við Sæbraut í nóvember 2021 með þeim afleiðingum að ökumaður rafmagnshlaupahjólsins lést, ók bifhjólinu á hjólastíg þar sem óheimilt er að aka slíku bifhjóli, en það heyrir undir flokk II í umferðarlögum.

Þá er sennilegt að báðir ökumennirnir hafi ekið of hratt, en hraðatakmarkari á rafhlaupahjólinu var aftengdur og gat hámarkshraði þess verið yfir 50 km/klst þrátt fyrir að söluaðili hafi gefið upp 25 km/klst. hámarkshraða tækisins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna banaslyssins, en skýrslan var birt í dag.

Slysið átti sér stað snemma um morgun, en tilkynnt var um það klukkan 8:08. Var ökumaður rafmagnshlaupahjólsins fluttur á gjörgæslu, en ökumaður bifhjólsins slasaðist einnig alvarlega.

Hraðinn mun meiri en uppgefinn hraði

Rafmagnshlaupahjólið var af gerðinni Kaabo Mantis 10, en bifhjólið rafknúið Super Soco TS. Fram kemur í skýrslunni að rafmagnshlaupahjólið hafi verið með 2x1000 W aflgjafa og að samkvæmt framleiðanda hafi mögulegur hámarkshraði þess verið 60 km/klst. Sem fyrr segir gaf söluaðili það upp með 25 km/klst. hámarkshraða, en í tækinu var vír sem stjórnar takmörkun á hraða. Hann var hins vegar aftengdur og segir í skýrslunni að ósennilegt sé að það hafi gerst í slysinu.

Við hraðaprófun eftir slysið mældist mesti hraði rafmagnshlaupahjólsins 51,2 km/klst á hæstu stillingu af þremur, en á fyrstu og annarri hraðastillingu var hraðinn minni, en gat samt verið yfir 25 km/klst.

Smellitengi sem stjórnar takmörkun á hraða rafhlaupahjólsins var ekki tengt.
Smellitengi sem stjórnar takmörkun á hraða rafhlaupahjólsins var ekki tengt. Skjáskot/RNSA

Mátti ekki aka á hjólreiðastígnum

Létta bifhjólið er með uppgefinn hámarkshraða upp á 45 km/klst. en það er leyfilegur hámarkshraði hérlendis miðað við bifhjól í flokki II. Aðeins má aka slíkum bifhjólum á akbrautum og er óheimilt að aka þeim á gangstéttum, gangstígum eða hjólreiðastígum. Slík hjól eru skráningarskyld og var bifhjólið skráð í ökutækjaskrá, en skráningarmerki vantaði.

Ekki var unnt að mæla hraða tækjanna þegar slysið varð og engin vitni voru að slysinu. Hins vegar hafði vegfarandi sem var að hlaupa á göngustígnum um 1,2 km vestan við slysstaðinn séð rafhlaupahjóli ekið hratt í austurátt á hjólastígnum, en gat ekki fullyrt að um sama rafhlaupahjól væri að ræða, en að hann hefði ekki séð önnur slík tæki á þessari leið. Kom vegfarandinn að slysinu nokkrum mínútum eftir að það átti sér stað, ásamt öðrum vegfaranda.

Myrkur og lýsing tækjanna

Þá er vísað til þess að framljósageisli létta bifhjólsins hafi ekki verið í samræmi við reglugerð um búnað ökutækja í flokki II, en hann lýsti 21,8 metra fram á við, en þarf að vera 40 metrar.

Í skýrslunni kemur fram að ekkert á stígnum hafi byrgt sýn ökumanna, stígurinn hafi uppfyllt hönnunarreglur varðandi breidd og að viðmiðunarhraði á slíkum stíg sé 30 km/klst. Blautt var þennan morgun og 2°C, hæg breytileg átt og skýjað en ekki hálka. Hins vegar var myrkur og gerir rannsóknarnefndin athugasemdir við lýsingu á stígnum. Hún hafi verið í samræmi við reglur um lýsingu árið 1999 þegar stígurinn var lagður, en uppfylli ekki núverandi kröfur. Þá er tekið fram að áfengis- og lyfjaprófanir ökumanna hafi reynst neikvæðar.

Afstöðumynd á slysstað. Myndin sýnir akstursáttir beggja hjólanna, ætlaða legu …
Afstöðumynd á slysstað. Myndin sýnir akstursáttir beggja hjólanna, ætlaða legu ökumanna eftir áreksturinn sem og sennilegan árekstrarstað. Staðsetning rafhlaupahjólsins á myndinni er norðar en lega þess eftir slysið. Skjáskot/RNSA

Engin hemlaför

Ökumaður létta bifhjólsins var á nyrðri rein hjólastígsins á leið til vesturs, en ökumaður rafmagnshlaupahjólsins á leið til austurs. Fram kemur í skýrslunni að áreksturinn hafi líklega átt sér stað á nyrðri reininni. Engin hemlaför sáust á vettvangi, en í skýrslunni kemur fram að hjólbarðar rafhlaupahjólsins hafi verið mikið slitnir, en við það minnkar veggrip. Ástand hjólbarða bifhjólsins var hins vegar gott.

Í skýrslunni er tekið fram að líklega hafi ökumenn hjólanna ekki séð hvor annan nægilega snemma og er vikið að mikilvægi góðs ljósabúnaðar á tækjum sem þessum almennt. Þá er tekið fram að mikil aukning hafi orðið í slysum á rafmagnshlaupahjólum undanfarin ár í kjölfar þess að notkun þeirra jókst til muna. Þetta sé í raun nýr hópur slasaðra, en sumarið 2020 komu að meðaltali daglega 1,6 slasaðir á bráðamóttöku eftir slys á rafhlaupahjóli.

Báðir ökumennirnir voru með hjálma. Ökumaður rafmagnshlaupahjólsins var með hefðbundinn reiðhjólahjálm, en ökumaður bifhjólsins með mótorhjólahjálm.

Nefndin tekur fram í niðurstöðu sinni að hún telji öryggisbúnað þeirra sem ferðist á rafhlaupahjólum í flestum tilfellum áfátt, en að lokaður hjálmur, úlnliðs-, hné- og olnbogahlífar, sem og brynja, séu búnaður sem dragi sennilega úr meiðslum ef óhapp verði.

Vilja banna að fiktað sé í hraðatakmörkunum tækja

Þá beinir nefndin því til innviðaráðuneytisins að stuðla að lagabreytingu á umferðarlögum sem snúa að öryggi smáfarartækja í umferðinni. Meðal annars er lagt til að banna þurfi að hraðatakmörkun sé aftengd eða breytt á smáfarartækjum og léttum bifhjólum í flokki I þannig að hraði þeirra sé ekki meiri en 25 km/klst. 

mbl.is hefur áður fjallað ítarlega um fjölgun slysa á rafmagnshlaupahjólum með aukinni notkun tækjanna. Yfir þetta þriggja ára tíma­bil hafa þrír lát­ist í um­ferðinni á slíkum tækjum, en 186 slasast al­var­lega.  

mbl.is