„Ég er að pæla í garðinum árið um kring“

Garðurinn | 25. júní 2023

„Ég er að pæla í garðinum árið um kring“

Fyrir tíu árum flutti Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona ásamt fjölskyldu sinni í sjarmerandi hús í Þingholtunum. Húsið hafði staðið tómt um árabil og þurfti á mikilli ást og umhyggju að halda. En það var ekki bara húsið sem kallaði á fjölskylduna heldur einnig garðurinn. 

„Ég er að pæla í garðinum árið um kring“

Garðurinn | 25. júní 2023

Vigdís Hrefna og fjölskylda tóku ekki bara húsið í gegn …
Vigdís Hrefna og fjölskylda tóku ekki bara húsið í gegn heldur garðinn líka. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fyrir tíu árum flutti Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona ásamt fjölskyldu sinni í sjarmerandi hús í Þingholtunum. Húsið hafði staðið tómt um árabil og þurfti á mikilli ást og umhyggju að halda. En það var ekki bara húsið sem kallaði á fjölskylduna heldur einnig garðurinn. 

Fyrir tíu árum flutti Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona ásamt fjölskyldu sinni í sjarmerandi hús í Þingholtunum. Húsið hafði staðið tómt um árabil og þurfti á mikilli ást og umhyggju að halda. En það var ekki bara húsið sem kallaði á fjölskylduna heldur einnig garðurinn. 

Stór ástæða fyrir því að við féllum fyrir húsinu var óvenjustór afgirtur bakgarður í mikilli órækt, fullur af kerfli. Garðurinn er stór miðað við það að vera einkagarður í Þingholtunum eða um 350 fm. Hann stendur ekki við götu heldur snýr bara inn að öðrum lóðum sem er voða huggulegt. Hann mætti auðvitað vera sólríkari og skjólbetri en við erum að vinna í hvoru tveggja með því að fella stærri tré og rækta önnur tré og runna.

Markmiðið er að hafa beðin full af plöntum.
Markmiðið er að hafa beðin full af plöntum. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þegar við fluttum hófumst við strax handa við að stinga upp kerfilinn í garðinum, jafnvel þótt enn vantaði sumstaðar gler í gluggana á húsinu. Tyrfðum og gerðum nokkur blómabeð meðfram köntunum. Þannig að þótt allt væri í rúst í húsinu sjálfu var garðurinn algjör griðastaður fyrir okkur og börnin okkar.

Smám saman hefur beðunum fjölgað og stefnum við á að grasið hverfi með öllu, garðurinn verði troðinn af plöntum, trjám, runnum og blómum með stígum á milli,“ segir Vigdís en áhuginn á garðrækt kviknaði fyrir alvöru þegar hún eignaðist eigin garð.

mbl.is/Arnþór Birkisson

Skapandi að rækta garð

„Það er mjög stór garður á æskuheimili mínu og foreldrar mínir höfðu báðir gaman af að sinna honum en ég byrjaði ekki að hafa gaman af garðrækt fyrr en ég átti minn eigin garð. Ég man að það kom mér á óvart hvað þetta er skapandi, að rækta garð.

Ég færi til plöntur, set niður plöntur sem ég hef ræktað sjálf af fræi eða keypt. Eins er ég dugleg að reyta arfa á vorin því þá er ósköp lítið vesen að halda beðunum við. Já, og svo pæli ég mikið í skipulaginu á garðinum sjálfum, hvað mér finnst virka og hvað ekki. Hvaða plöntur þrífast hvar og hvernig samsetningin á beðunum er. Litir, áferð, hæð plantnanna, allt skiptir þetta máli,“ segir Vigdís.

mbl.is/Arnþór Birkisson

Garður með villtu yfirbragði

Vigdís sinnir garðinum með einum eða öðrum hætti árið um kring.

„Ég er að pæla í garðinum árið um kring. Ég byrja að forsá niðri í kjallara í febrúar og er svo að vinna í garðinum fram í nóvember. Þá hef ég mjög gaman af að grufla í alls kyns garðyrkjubókum, skoða hvað aðrir eru að gera úti í heimi. Auðvitað eru íslenskar aðstæður erfiðar, en það er margt sem þrífst mjög auðveldlega hér sem manni hafði kannski ekki einu sinni dottið í hug að gæti lifað utandyra á Íslandi. t.d. hindber, sem vaða um allt og gefa drjúga uppskeru hvert haust.“

mbl.is/Arnþór Birkisson

Spurð um draumagarðinn sinn segist Vigdís sætta sig við Þingholtin. „Mig dreymir um garð á borð við Great Dixter í Suður-Englandi en reyni að sætta mig við þá staðreynd að ég bý í Þingholtum Reykjavíkurborgar, á landi sem er á mörkum þess að vera byggilegt og geng bæði til vinnu og á fjögur börn. En ég væri til í að vera allan daginn að stússa við garðinn, gera hann með villtu yfirbragði, troðinn af plöntum,“ segir Vigdís en ein af hennar uppáhaldsplöntum er tré með dökkfjólubláum laufum. „Vinir okkar gáfu okkur blóðbeyki í brúðkaupsgjöf, dásamlega fallegt tré með purpuralitum laufblöðum sem það fellir ekki fyrr en að vori.“

mbl.is/Arnþór Birkisson

Lætur drauminn um gróðurhús rætast

„Mig hefur langað í gróðurhús í mörg ár og fjárfesti nú loksins í húsi frá BK hönnun, svörtu álhúsi sem kemur seinna í mánuðinum. Ég ætla að fylla það af alls kyns plöntum, bæði ávaxtatrjám sem og blómum, rækta grænmeti og leita svo skjóls í ilmandi hlýju gróðurhúsinu þegar norðanáttin ætlar mig lifandi að drepa. Það eiga allir Íslendingar að vera með gróðurhús! Jafnvel þótt það sé óupphitað, því vindkælingin á Íslandi er svo mikil, lofthitinn er oft ágætur og því hægt að hafa það svo huggulegt í gróðurhúsi. Að ég tali nú ekki um heita vatnið, sem getur breytt húsinu í paradís. Ég skora hér með á Reykjavíkurborg að liðka fyrir því að fólk geti fengið sér sæmilega stórt gróðurhús án þess að fá til þess byggingarleyfi.“

Vigdís hvetur fólk til þess að vera óhrætt við að láta vaða þegar kemur að garðinum sínum.

„Það er gott að byggja upp beð með fjölæringum eins og riddarasporum, ýmiss konar geraníutegundum og bóndarósum. Svo er hægt að poppa upp með risavalmúa, vatnsbera, fingurbjargarblómum og einærum plöntum eins og kosmos og villtri fenniku. Eins er gott ráð að planta sumarblómum í beðin til þess að fá lit í garðinn áður en fjölæringarnir blómstra. Á haustin set ég svo niður slatta af laukum, aðallega túlípana.“

Fyrir tíu árum flutti Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona ásamt fjölskyldu …
Fyrir tíu árum flutti Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona ásamt fjölskyldu sinni í sjarmerandi hús í Þingholtunum. mbl.is/Arnþór Birkisson
Sumarið er að koma með allri litadýrðinni sem því fylgir.
Sumarið er að koma með allri litadýrðinni sem því fylgir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dalíur fyrirhafnarinnar virði

„Dalíur eru líka í uppáhaldi hjá mér um þessar stundir. Ég rækta þær inni frá því í mars og set þær svo út í júní. Síðustu tvö sumur hafa verið frekar svöl svo þær hafa ekki blómstrað mikið en þær eru geggjaðar þegar það gerist. Fyrirhöfnin er algerlega þess virði! Annars er það markmið að sjá hvergi mold í beðunum hjá mér. Að beðið sé fullt af plöntum og breytist með sumrinu. Eitt taki við af öðru.

Fólk á að vera óhrætt við að prófa og láta vaða. Þetta er skapandi ferli og hrikalega skemmtilegt. Sjálfa dreymir mig um að losna við grasið, setja blómríkar grasblöndur í staðinn, hafa stíga sem leiða mann um ævintýraveröld.“

mbl.is/Arnþór Birkisson
Vigdís Hrefna er á fullu í vorverkunum um þessar mundir.
Vigdís Hrefna er á fullu í vorverkunum um þessar mundir. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is