Byrjaði óvart að taka á móti ferðamönnum

Ferðumst innanlands | 1. júlí 2023

Byrjaði óvart að taka á móti ferðamönnum

Á Gemlufalli í Dýrafirði búa hjónin Elsa María Thompson og Jón Skúlason. Þau taka á móti gestum í kaffihúsi sínu á bænum á sumrin, auk þess sem þau bjóða upp á sveitagistingu allan ársins hring. Ferðaþjónustan vatt óvart upp á sig en með henni eru þau með 300 fjár, hænur og nokkra kalkúna.

Byrjaði óvart að taka á móti ferðamönnum

Ferðumst innanlands | 1. júlí 2023

Á Gemlufalli í Dýrafirði búa hjónin Elsa María Thompson og Jón Skúlason. Þau taka á móti gestum í kaffihúsi sínu á bænum á sumrin, auk þess sem þau bjóða upp á sveitagistingu allan ársins hring. Ferðaþjónustan vatt óvart upp á sig en með henni eru þau með 300 fjár, hænur og nokkra kalkúna.

Á Gemlufalli í Dýrafirði búa hjónin Elsa María Thompson og Jón Skúlason. Þau taka á móti gestum í kaffihúsi sínu á bænum á sumrin, auk þess sem þau bjóða upp á sveitagistingu allan ársins hring. Ferðaþjónustan vatt óvart upp á sig en með henni eru þau með 300 fjár, hænur og nokkra kalkúna.

Jón er frá Gemlufalli og tók við búi af foreldrum sínum. Elsa María, sem er hálfbandarísk, ólst hins vegar upp til níu ára aldurs í Bandaríkjunum. Hún hefur búið víða um land en finnst best að vera fyrir vestan.

„Ég kem alltaf aftur vestur. Það er eitthvað magnað sem togar í mann, einhver orka og svo auðvitað maðurinn,“ segir hún.

Yfir bænum Gemlufalli er fjallið Gemlufallsfjall og er Gemlufallstafla hæsti hnúkurinn á fjallinu. Til er saga um tröllskessu sem hét Gemla og bjó í fjallinu og segir sagan að hún hafi fallið er sólin skein á hana. Á Gemlufallsdalnum er Gemluhaugur þar sem tröllskessan var dysjuð.

Elsa og Jón breyttu húsi, sem þau höfðu búið í, í tvær íbúðir og byrjuðu að leigja þær út. Þau reistu síðan í vetur tvö lítil hús til viðbótar sem þau leigja einnig út til ferðamanna. Kaffihúsið er í viðbyggingu, sólstofu sem fjölskyldan býr í. Elsa segir að draumurinn sé að bæta við dýrum þannig að hægt sé að bjóða upp á alvöru sveitaupplifun.

Draumurinn um kaffihús

Hugmyndin um að bjóða fólki upp á veitingar kom ekki upphaflega frá þeim. „Maður sem var hér í sveit á Gemlufalli var á ferð með ferðafólk og kom hingað til að heilsa upp á okkur. Svo spurði hann hvort við gætum ekki verið með súpu næst. Við prófuðum að bjóða þeim heim og síðan fengum við okkur rekstrarleyfi til að að halda þessu áfram og þróa okkur. Við höfðum gert þetta í nokkur ár og tókum á móti þeim inni í stofu hjá okkur,“ segir Elsa sem telur að fólki finnist sjarmerandi að heimsækja þau heim á bæ.

Gamall draumur rættist með kaffihúsinu. „Þetta var draumur minn að vera með kaffihús,“ segir hún en á veturna er hún kennari. „Við lokum kaffihúsinu á veturna, nema fyrir hópa,“ segir Elsa sem hefur bæði ástríðu fyrir að vinna með börnum og að vera í framreiðslu. „Ég er að upplifa drauminn.“

Elsa segir bæði íslenska og erlenda ferðamenn heimsækja kaffihúsið. Þau taka meðal annars á móti stórum hópum og ferðamenn frá skemmtiferðaskipum koma við hjá þeim. „Það koma rútur á hlaðið hjá okkur. Gestirnir fá kaffi, hjónabandssælu, við segjum þeim frá okkur og svo skoða þeir dýrin. En Íslendingar koma líka í kaffihúsið, það er blandað. Það er yndislegt að fá alla gesti.“

Á kaffihúsinu er meðal annars hægt að fá sveitasælu sem Elsa lýsir sem spariútgáfu hennar af hjónabandssælu. Einnig eru vestfirskar hveitikökur vinsælar sem Elsa býr meðal annars til úr hveiti og kartöflum. Þær eru bornar fram með áleggi á borð við hangikjöt.

Í miðri paradís

Dýrafjörðurinn þykir einstaklega fallegur. „Vestfirsku alparnir blasa við hinum megin í firðinum. Þar er hæsta fjall Vestfjarða, Kaldbakur. Svo státum við af elsta skrúðgarði landsins í Dýrafirði sem heitir Skrúður. Hér er eins manns leikhús í firðinum, Kómedíuleikhúsið, sem Elvar Logi Hannesson leikari er með. Ein elsta vélsmiðja landsins er á Þingeyri, Salthús og margt fleira áhugavert. Við erum miðsvæðis. Dynjandi er í 20 mínútna fjarlægð. Látrabjarg er sunnan megin við okkur og Hornstrandir norðan megin,“ segir Elsa sem mælir líka með að skokka upp á Mýrarfell.

Það er mikið að gera hjá Elsu og Jóni á sumrin en þau gefa sér stundum tíma til að bregða sér af bæ og njóta þess sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Elsu finnst skemmtilegt að kíkja í sund í Reykjarfirði og að keyra Litla Vestfjarðahringinn. „Þá keyrir maður yfir Dynjandisheiðina, keyrir Barðaströndina, Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal,“ segir Elsa sem segir einnig skemmtilegt að skreppa í dagsferðir að Látrabjargi og á Rauðasand eða í Kaldalón í Ísafjarðardjúpi.

Hjónin á Gemlufalli sjá fram á skemmtilega erilsamt sumar. „Það verður rosa mikið að gera í sumar. Sumarið leggst vel í okkur og við erum bara jákvæð. Bókanir ganga mjög vel í gistingunni,“ segir Elsa sem gerir ráð fyrir að seðja hungraða ferðamenn í sumar með ljúffengu vestfirsku bakkelsi.

mbl.is