Hafþór Ingi Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands, segir Borgarnes eiga mikið inni. Hann hvetur alla til þess að staldra við í Borgarnesi enda bærinn og umhverfið gullfallegt. Fjölmargir aðrir staðir á Vesturlandi eru auk þess í uppáhaldi hjá Hafþóri.
Hafþór Ingi Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands, segir Borgarnes eiga mikið inni. Hann hvetur alla til þess að staldra við í Borgarnesi enda bærinn og umhverfið gullfallegt. Fjölmargir aðrir staðir á Vesturlandi eru auk þess í uppáhaldi hjá Hafþóri.
Hafþór Ingi Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands, segir Borgarnes eiga mikið inni. Hann hvetur alla til þess að staldra við í Borgarnesi enda bærinn og umhverfið gullfallegt. Fjölmargir aðrir staðir á Vesturlandi eru auk þess í uppáhaldi hjá Hafþóri.
„Ég er uppalinn í Borgarnesi en einnig á Minni-Borg í Miklaholtshreppi. Ég bjó um tíma í Stykkishólmi og hef sterkar taugar til Stykkishólms og Breiðafjarðar. Ég bý núna í Borgarnesi og er mikill Borgnesingur,“ segir Hafþór sem er ferðamálafræðingur, blikksmiður og torfhleðslunemi.
Hafþór segist halda mikið upp á Breiðafjörð.
„Lífríkið þar og eyjarnar eru heillandi og fallegar. Húsafellsvæðið er líka í uppáhaldi. Þar eru Víðgelmir, Barnafoss, Hraunfossar, Háifoss og þær fjölmörgu útivistarleiðir sem eru að finna á þessu svæði,“ segir Hafþór.
Ekki má gleyma Borgarnesi sem á stóran sess í hjarta Hafþórs. „Allt of margir taka ekki vinstri beygjuna þegar þeir koma að sunnanverðu og fara bara beint norður. Við Borgnesingar erum að reyna að koma því að að það er meira að skoða heldur en bara bensínsstöðvarnar í Borgarnesinu. Það er hægt að gera meira en að stoppa og pissa. Það er hægt að kíkja niður í gamla bæinn. Þar er fullt af áhugaverðum stöðum með sögu og náttúru. Í kringum Brákarsundið er mikið fuglalíf og hér eru margar gönguleiðir, söfn, veitingastaðir og kaffihús.“
Hvert ferð þú til þess að komast aðeins út í náttúruna og kúpla þig út?
„Ég geng á Hafnarfjall. Það eru nokkrir útivistarmöguleikar við Hafnarfjallið. Það er hægt að fara upp að steini eins og á Esjunni en það er styttri gönguleið sem er þægileg. Það er líka hægt að ganga inn í nokkur gil sem er fyrir meira útivistar- eða fjallgöngufólk. Svo er hægt að fara upp á topp Hafnarfjallsins eða ganga á alla sjö tinda Hafnarfjallsins.“
Hafþór fer líka í Jafnaskarðsskóg þegar hann vill komast út í náttúruna. „Það er búið leggja mikið í að hafa hann vel snyrtan og hafa áningastaði þarna inni, fólk getur komið saman og borðað nesti. Gönguleiðirnar tengjast öðrum gönguleiðum eins og Vatnaleiðinni. Maður getur farið þarna klukkan tíu um morguninn og komið heim um kvöldmatinn,“ segir Hafþór og bætir við að auðvelt sé að týna tímanum í skóginum.
Eldborg er einnig í uppáhaldi hjá honum. „Þar er mikið fuglalíf, maður heyrir ekki neitt annað en í fuglunum. Þetta er svo langt frá öllu, það er enginn kliður frá þjóðveginum. Maður getur eins og í Jafnaskarðsskógi bara gleymt sér. Þó það sé bara ein leið fram og til baka frá Snorrastöðum þá getur maður notið náttúrunnar og útsýnisins. Maður sér allan fjallagarðinn á Snæfellsnesi, jökulinn í fjarska og Löngufjörur fyrir neðan.“
Áttu uppáhaldstjaldsvæði?
„Tjaldsvæði í Ólafsvík og tjaldsvæði í Varmalandi.
Áttu uppáhaldsgönguleið í landshlutanum?
„Síldarmannagötur. Þú getur byrjað öðru hvoru megin, annað hvort í Hvalfirði eða í Skorradal. Þegar ég geng fer ég oftast úr Skorradal, það er svo flott að koma niður Hvalfjarðarmegin. Það er mjög fallegt útsýni yfir fjörðinn Hvalfjarðarmegin. Svo er þetta gömul þjóðleið, maður er kannski aðeins að hugsa um söguna á göngunni,“ segir Hafþór.
Hvar finnst þér best að fá þér sundsprett?
„Í Hreppslaug í Skorradal og Lýsulaugum í Staðarsveit. Ég er kominn á þann aldur að ég er hættur að fara í rennibrautir. Þetta eru gamlar laugar og hafa sína sérstöðu. Það var verið að endurbæta alla búningsaðstöðu í Hreppslaug og laugin er það gömul að hún er friðuð. Lýsulaugar eru fallegar náttúrulaugar sem er búið að gera upp líka.“
Áttu uppáhaldsveitingastaði?
„Narfeyrarstofu í Stykkishólmi, Gilbakka á Hellisandi, Vog á Fellsströnd og Hraunsnef í Borgarfirði.“
Hvernig er draumadagurinn þinn?
„Sigla um eyjar Breiðafjarðar um morguninn og hlusta á sögur eyjajarla Breiðafjarðar. Í hádeginu verða svo körfuboltaleikir spilaðir í Borgarnesi og borðaður kvöldmatur á Vogi á Fellsströnd. Dagurinn kláraður með því að hlaða torf- og grjótvegg og fara í miðnætursund í Hreppslaug í Skorradal.“
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Ganga og hjóla á ákveðnum stöðum á Vesturlandi, skipuleggja bæjarhátíð í Borgarnesi, halda útskriftarteiti, ferðast um Ísland, hlaða torf- og grjótveggi og mögulega margt, margt fleira,“ segir Hafþór.