Hótel Blönduós opnaði formlega á dögunum eftir miklar endurbætur og búið er að endurnýja veitingastaðinn. Eldhúsið er í dag í upprunalega sýslumannshúsinu og veitingasalurinn inn af því og þótti tilvalið að kalla endurnýjaðan veitingastaðinn Sýslumanninn og sýna sögu hússins með því virðingu. Mikill metnaður er í matargerðinni og áhersla lögð á að vera með hráefni sem hefur tengingu við nærumhverfið.
Hótel Blönduós opnaði formlega á dögunum eftir miklar endurbætur og búið er að endurnýja veitingastaðinn. Eldhúsið er í dag í upprunalega sýslumannshúsinu og veitingasalurinn inn af því og þótti tilvalið að kalla endurnýjaðan veitingastaðinn Sýslumanninn og sýna sögu hússins með því virðingu. Mikill metnaður er í matargerðinni og áhersla lögð á að vera með hráefni sem hefur tengingu við nærumhverfið.
Hótel Blönduós opnaði formlega á dögunum eftir miklar endurbætur og búið er að endurnýja veitingastaðinn. Eldhúsið er í dag í upprunalega sýslumannshúsinu og veitingasalurinn inn af því og þótti tilvalið að kalla endurnýjaðan veitingastaðinn Sýslumanninn og sýna sögu hússins með því virðingu. Mikill metnaður er í matargerðinni og áhersla lögð á að vera með hráefni sem hefur tengingu við nærumhverfið.
Húsnæði hótelsins og umhverfi þess er einstakt fyrir margar sakir. Hótelið stendur í miðjum gamla bænum en elsti hluti hússins var byggður árið 1900 sem embættisbústaður Gísla Ísleifssonar þáverandi sýslumanns og hefur húsið í gegnum tíðina því verið kallað Sýslumannshúsið. „Húsið skipti nokkrum sinnum um eigendur næstu áratugi þar til Snorri Arnfinnsson festi kaup á því árið 1943 og opnaði hið upprunalega Hótel Blönduós í húsinu. Á 7. áratugnum byggði Snorri við húsið og stækkaði hótelið til þess sem það er enn þann dag í dag. Eldhúsið er í dag í upprunalega sýslumannshúsinu og veitingasalurinn inn af því svo okkur þótti tilvalið að kalla endurnýjaðan veitingastaðinn Sýslumanninn og sýna sögu hússins með því virðingu,“ segir Pétur Oddbergur Heimisson, markaðs- og sölustjóri Hótels Blönduóss.
Farið var í miklar endurbætur á húsnæðinu. „Það er óhætt að segja að miklar endurbætur á húsnæðinu í heild hafi átt sér stað. Að því sögðu þá hefur hótelið í heild sinni alltaf verið vel skipulagt svo við þurftum einungis að fara í sáralitlar þess háttar breytingar. Sýslumannshúsið var á sínum tíma byggt í svokölluðum norrænum byggingarstíl, tréhús á hlöðnum kjallara en síðar klætt með bárujárni og enn þá seinna forskalað eins og algengt var á sínum tíma. Það má segja að á sínum tíma hafi verið reynt að breyta Sýslumannshúsinu svo útlit þess samræmdist steinsteyptu viðbyggingunum en nýir eigendur með Blönduósinginn Reyni Finndal Grétarsson í fararbroddi ákváðu að gera hið gagnstæða og færa Sýslumannshúsið til upprunalegs útlits sem heppnaðist einstaklega vel. Það má segja að Sýslumannshúsið, sem áður var frekar ófrýnilegt að sjá sökum ástands þess, sé í dag andlit hótelsins og um leið gott dæmi um hversu jákvæð áhrif vel uppgert hús getur haft á umhverfið,“ segir Pétur og bætir við að mikil ánægja sé um verkið.
Hótelið er í heild 19 herbergi, þar af 3 á efri hæð Sýslumannshússins og áherslan var lögð á að vinna með söguna eins og áður sagði. „Þau herbergi sem eru í Sýslumannshúsinu eru í gamla stílnum, líkt og farið sé meira en 100 ár aftur í tímann á meðan önnur herbergi eru í nútímalegri stíl. Reynir er án efa mesti safnari gamalla landakorta og inni á hverju herbergi má finna kort úr glæsilegu safni hans sem segja má að tengi herbergin saman.“
Veitingasalurinn hefur alltaf verið glæsilegur. „Engu að síður var kominn tími á andlitslyftingu á honum og þar er unnið með samspil sögunnar og þeirrar náttúrufegurðar og kyrrðar sem við erum svo heppin að njóta hér. Við klæddum einn vegginn með rekavið sem hefur rekið inn Húnaflóa í áranna rás, á barnum var bætt við útsýnisglugga þar sem gestir geta notið þess að horfa á sólina setjast fyrir miðjum Húnaflóanum. Við viljum reyndar meina að sólsetrið eigi lögheimili í Húnaflóanum en það er önnur saga. Við varðveittum gamla barinn sem er einkar glæsilegur, sem og dansgólfið en hér voru ósjaldan böll á árum áður. Á gólfin settum við síðan litríkt teppi sem er í senn skírskotun í húnverskan haga, sólsetrið og Blöndu sem rennur hér til hafs rétt utan við hótelið.“
Fjöldi manns lagði hönd á plóg við endurbæturnar. „Við erum svo heppin að eiga fjölmarga smekklega ættingja og vini sem hafa lagt hönd á plóg þegar kemur að útliti hótelsins og Sýslumannsins svo það er ekki hægt að nefna neina sérstaka hönnuði í þessu samhengi. Við tölum mun frekar um hönnunina sem stórt og mikið samstarfsverkefni sem skilaði þessari útkomu sem við erum mjög stolt af.“
Þegar kemur að matargerðinni og þróun matseðilsins er hráefnið úr nærumhverfinu í forgrunni. „Við leggjum mikla áherslu á gæði hráefnisins og leitumst eftir því að vera með lambakjöt, kindakjöt og lax sem hefur tengingu við svæðið enda er héraðið rómað fyrir gjöfulan landbúnað og heimsþekktar laxveiðiár. Við leggjum mikið upp úr Blöndubakkanum okkar sem er með mörgum réttum tengdum svæðinu. Það er mjög spennandi að vera í matargerð og rekstri núna á staðnum og það á sér stað mikil uppbygging á Blönduósi og þá sérstaklega í Gamla bænum.
Aðspurður segist Pétur ekki vita ekki hvort hægt sé að tala um einhvern sérstakan leyndardóm í eldhúsinu. „En við finnum fyrir áhuga gesta okkar á því að tengjast fallega héraðinu okkar með mat úr nágrenninu. Ætli það sé ekki nær að tala um illa falinn leyndardóm enda vita allir að stysta leiðin að hjartanu er í gegnum magann.“ Það er einn réttur sem nýtur mikillar sérstaklega mikilla vinsælda. „Sá réttur er lambafillet en að auki er laxinn mjög vinsæll og svo selst mikið af rétti dagsins, sem er yfirleitt fiskur eða kjöt. Við bjóðum upp á fjölbreyttan matseðil en að auki bjóðum við upp á vegan/grænmetisrétti í forrétt, aðalrétt og eftirrétt.“
Pétur segir að það sé virkilega gaman að reka veitingastað á Blönduósi. „Við erum náttúrulega bara búin að vera með opið í rúman mánuð en síðan við opnuðum hefur fjöldi ferðamanna lagt leið sína á hótelið og á veitingastaðinn og það á bara eftir að aukast. Það er gaman að sjá hve gestir taka hótelinu vel og þeim breytingum sem hafa verið gerðar. Framtíðin í veitingarekstri á Blönduósi er björt í ljósi þess hve margt fólk hefur áttað sig á fegurð svæðisins og að það sé í rauninni hægt að stoppa í bænum en það hefur verið algengt að fólk keyri bara í gegn á ferð sinni suður eða norður. Útsýnið frá veitingastaðnum er líka eitthvað sem margir hafa dásamað og á fallegum degi er fátt betra en að rölta um svæðið og niður í fjöru eða að Blöndu eftir góða máltíð á Sýslumanninum.“
„Ég má líka til með að nefna að Hótel Blönduós og Sýslumaðurinn eru í hjarta gamla bæjarins á Blönduósi sem er einstakur fyrir margra sakir. Hér áður fyrr mátti finna í gamla bænum alla helstu starfsemi sem einkennir blómlegt mannlíf, hótel, veitingastað, kirkju, bakarí, skóla, sjúkrahús, samkomuhús, bókabúðir og svo mætti lengi telja. Síðan tók við tímabil stöðnunar sem leiddi til þess að lítið var um framkvæmdir en fyrir vikið stendur enn upprunaleg götumynd sem grípur augað. Hér í gamla bænum má sjá nokkurs konar þversnið af íslenskri byggingarlist á árum og öldum áður því hér má finna hús frá hverjum einasta áratug frá 1870 til 1970. Að fá að taka nú þátt í uppbyggingu blómlegs mannlífs hér á nýjan leik eru forréttindi.“
Aðspurður segir Pétur að hann horfi bjartsýnum augum til framtíðar. „Hótelið og veitingastaðurinn eru að stimpla sig á kortið sem áhugaverður viðkomustaður. Nýtingin á hótelinu fer vaxandi í sumar og næsta sumar er nú þegar byrjað að bókast mjög vel. Það er mikil uppbygging á svæðinu og við erum að opna viðburðarými í júlí sem mun bera nafnið Krúttið. Þar verður hægt að halda fjölbreytta viðburði eins og tónleika, veislur og fleira. Við opnuðum Apótekarastofuna í byrjun júní sem er opin alla daga vikunnar frá 11:00-18:00, sem er sælkerabúð og kaffihús. Við mælum með því að fólk geri sér ferð í Gamla bæinn og skoði þá uppbyggingu sem á sér þar stað. Við hlökkum til að taka á móti gestum í sumar,“ segir Pétur að lokum.
Það er hægt að bóka gistingu í sumar og borða á Sýslumanninum eða einfaldlega stoppa við á Sýslumanninum. Opið á veitingastaðnum frá 17:00 – 21:00 alla daga vikunnar. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni hótelsins.