Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir atburðarás dagsins er varðar birtingu greinargerðar fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, um málefni Lindarhvols koma sér á óvart. Þá sjái hann ekki annað en að birting Pírata á greinargerðinni „fari í bága við ákvæði þingskapa og reglur þingsins um meðferð trúnaðarupplýsinga.“
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir atburðarás dagsins er varðar birtingu greinargerðar fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, um málefni Lindarhvols koma sér á óvart. Þá sjái hann ekki annað en að birting Pírata á greinargerðinni „fari í bága við ákvæði þingskapa og reglur þingsins um meðferð trúnaðarupplýsinga.“
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir atburðarás dagsins er varðar birtingu greinargerðar fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, um málefni Lindarhvols koma sér á óvart. Þá sjái hann ekki annað en að birting Pírata á greinargerðinni „fari í bága við ákvæði þingskapa og reglur þingsins um meðferð trúnaðarupplýsinga.“
Í samtali við mbl.is segir Birgir að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og nefndarmenn í forsætisnefnd Alþingis hafi um langa hríð haft kost á að kynna sér fyrrnefnda greinargerð. Á þessu og síðasta kjörtímabili hafi þeim staðið það til boða í samræmi við reglur Alþingis um meðferð trúnaðarupplýsinga.
„Það þó að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi í morgun fengið afrit af þessari greinargerð Sigurðar sent á pappírsformi þá breytir þetta ekki hinni lagalegu stöðu málsins að hér er enn um að ræða, lagalega séð, trúnaðargagn. Ég sé ekki annað en að birting þeirra, eða birting Pírata á skjalinu, fari í bága við ákvæði þingskapa og reglur þingsins um meðferð trúnaðarupplýsinga. Þetta er hins vegar atriði sem maður auðvitað þarf að fara yfir, bæði með lögfræðingum þingsins og síðan með forsætisnefnd en þetta eru mín fyrstu viðbrögð,“ segir Birgir.
Birgir játar þó að umdeilt sé hvort greinargerðin flokkist sem trúnaðarupplýsingar.
„Ég hef hins vegar sem forseti þingsins litið svo á að þar sem ríkisendurskoðandi hefur lagst gegn opinberri birtingu, þá væri eðlilegt að fylgja því, enda forræði gagna sem unnin eru á vegum Ríkisendurskoðunar almennt hjá því embætti. Þar hef ég fyrst og fremst horft á ákvæði 3. mgr. 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun sem í raun og veru gerir ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi eigi seinasta orðið í þessum efnum og afstaða mín hefur byggst á þeim grundvelli. Það er hins vegar ljóst að um þetta hefur verið deilt, en sú deila verður auðvitað, eins og aðrar slíkar, ekkert leyst með því að einstakir þingmenn taki sig til og birti gögnin,“ segir Birgir.
Spurður hvort stofnanir geti yfirhöfuð treyst nefndum Alþingis fyrir gögnum sem þessum ef litið er til máls dagsins og birtingar Íslandsbankaskýrslunnar, segir hann áhyggjuefni ef upplýsingar sem berist þinginu og eigi að flokkast sem trúnaðarmál birtist í fjölmiðlum. Umræður hafi átt sér stað í vetur og vinnulag breyst hvað varðar samskipti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við ríkisendurskoðanda eftir birtingu Íslandsbankaskýrslunnar.
„Það hvort þetta kalli á einhverjar breytingar af okkar hálfu er ótímabært að segja en það er auðvitað eitt af því sem verður farið yfir. Við þurfum að fara yfir hvernig atburðarásin var í þessu máli, hver lagagrundvöllurinn er og þess háttar og í framhaldi auðvitað að fjalla um það hvort þetta kallar á annaðhvort breyttar reglur eða breytt vinnulag hjá okkur. Hins vegar er auðvitað erfitt að laga svona hluti með breyttum reglum ef menn vilja ekki fylgja reglunum,“ segir Birgir.
Miðflokkurinn hefur kallað eftir því að þing verði kallað saman vegna málsins, hver er þín skoðun á því?
„Ég hef svo sem enga skoðun á því, ég sé ekki tilefni til þess að kalla þing saman og bendi bara á að ef þing er kallað saman þegar því hefur verið frestað að vori þá gerist það ekki samkvæmt ákvörðun forseta Alþingis, heldur er það forseti Íslands sem gefur út forsetabréf, sem byggist þá annaðhvort á beiðni frá forsætisráðherra eða meirihluta alþingismanna,“ segir Birgir.