Freydís Halla Einarsdóttir er 28 ára útivistarkona og fyrrverandi landsliðskona og ólympíufari á skíðum. Freydís Halla ætlar að nýta sumarið áður en hún byrjar á fimmta ári í læknisfræði til þess að ferðast um landið.
Freydís Halla Einarsdóttir er 28 ára útivistarkona og fyrrverandi landsliðskona og ólympíufari á skíðum. Freydís Halla ætlar að nýta sumarið áður en hún byrjar á fimmta ári í læknisfræði til þess að ferðast um landið.
Freydís Halla Einarsdóttir er 28 ára útivistarkona og fyrrverandi landsliðskona og ólympíufari á skíðum. Freydís Halla ætlar að nýta sumarið áður en hún byrjar á fimmta ári í læknisfræði til þess að ferðast um landið.
Ætlar þú að ferðast innanlands í sumar?
„Já heldur betur! Ég stefni á einhverjar útilegur á Suðurlandinu og svo ætla ég líka í gönguferð á Hornstrandir.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Vesturlandi og af hverju?
„Erfitt að gera upp á milli en Rauðfeldsgjá er alltaf gullfalleg og skemmtilegt að klöngrast þar inn, og svo auðvitað Snæfellsjökull. Ég er mikil skíðakona og hef farið nokkrum sinnum á skíði þar og það er fátt sem toppar miðnætursólina á toppnum.“
Áttu uppáhaldssundlaug úti á landi?
„Er ennþá að vinna mig í gegnum þær allar, en held að tvær sundlaugar standi upp úr: Krossneslaug á Ströndum og sundlaugin á Hofsósi.“
Hvað finnst þér best að grilla í útilegunni?
„Ég er mjög mikið fyrir lax, og hann er alltaf bestur með sætum kartöflum, salati og kannski einum maísstöngli.“
Áttu uppáhaldstjaldsvæði?
„Þau eru mörg mjög góð en verð að segja tjaldsvæðið í Þakgili. Hef verið þar bæði á góðviðrisdögum og í gulri viðvörun og það er alltaf jafn guðdómlega fallegt.“
Hvað er eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?
„Síðasta sumar fór ég í mjög eftirminnilega fimm daga göngu á Hornstrandir. Við gengum með allt á bakinu, fengum alls konar veður, komum okkur óþarflega oft í frekar hættulegar aðstæður, og á einhvern undraverðan hátt tókst okkur líka að smitast af covid.“
Áttu uppáhaldsgönguleið?
„Ég er nýbúin að fara Skalla-hringinn í Landmannalaugum og það var ótrúlega skemmtileg og falleg leið sem ég á klárlega eftir að fara aftur.“
Er einhver staður á landinu sem þú hefur enn ekki komið á en langar að fara á?
„Já! Þori varla að segja frá því en ég hef aldrei gengið Laugaveginn, svo það er mjög ofarlega á „to-do-listanum.“
Tjald eða hótel?
„Ég er mikil útilegumanneskja svo ég verð að segja tjald. Það er miklu skemmtilegra að vera úti í náttúrunni og svo spilar kannski inn í að vera fátækur námsmaður.“
Hvaða flík verður að fara með í útileguna?
„Hatturinn! Það er ekki alvöruútilega nema hatturinn sé með.“
Hvað ætlarðu að gera annað skemmtilegt í sumar?
„Það er margt á dagskránni fyrir utan vinnuna, meðal annars brúðkaup í Vestmannaeyjum, fjallaskíðaferð á Snæfellsjökul, afslöppun í sumarbústað og svo vonandi bara nóg af spontant ævintýrum þegar veður leyfir.“