Fór úr fatahönnun yfir í garðhönnun

Garðurinn | 9. júlí 2023

Fór úr fatahönnun yfir í garðhönnun

Auður Svanhvít Sigurðardóttir garðahönnuður hefur alltaf haft mikinn áhuga á blómum og gróðri og að sinna eigin garði. Þegar börnin uxu úr grasi ákvað hún að skella sér í nám í umhverfisskipulagi. Í dag vinnur hún við að hjálpa fólki að fá meira út úr görðunum sínum.

Fór úr fatahönnun yfir í garðhönnun

Garðurinn | 9. júlí 2023

Eldri garður endurnýjaður í heild. Lagt var upp með að …
Eldri garður endurnýjaður í heild. Lagt var upp með að halda í einkenni garðsins sem var þetta skemmtilega hringsvæði með grjóthlöðnu fjölæringabeði í kring og unnið út frá því. Andi liðins tíma fær þarna að njóta sín og lifa áfram. Ljósmynd/Aðsend

Auður Svanhvít Sigurðardóttir garðahönnuður hefur alltaf haft mikinn áhuga á blómum og gróðri og að sinna eigin garði. Þegar börnin uxu úr grasi ákvað hún að skella sér í nám í umhverfisskipulagi. Í dag vinnur hún við að hjálpa fólki að fá meira út úr görðunum sínum.

Auður Svanhvít Sigurðardóttir garðahönnuður hefur alltaf haft mikinn áhuga á blómum og gróðri og að sinna eigin garði. Þegar börnin uxu úr grasi ákvað hún að skella sér í nám í umhverfisskipulagi. Í dag vinnur hún við að hjálpa fólki að fá meira út úr görðunum sínum.

Í BS-náminu sameinaði Auður áhuga sinn á plöntum, ánægjunni af görðum, hönnun og skipulagi. „Áður hafði ég lært fatahönnun bæði hér heima og erlendis og hattagerð sem ég starfaði við meðfram heimilishaldi og barnastússi. Námið í umhverfisskipulagi átti mjög vel við mig og það kom mér skemmtilega á óvart að ég vann til verðlauna fyrir góðan námsárangur,“ segir Auður sem í dag veitir ráðgjöf um skipulag garða, val á plöntum ásamt því að halda úti vefsíðunni umhverfis.is.

Eftir hverju leitast fólk helst í görðum sínum í dag?

„Það er mjög margbreytilegt eftir hverju fólk leitast en þó má segja að nú vilji flestir geta nýtt garðinn til meiri útiveru en hér áður fyrr þegar oft var lagt meira upp úr því að garðurinn væri einungis til prýði. Margir líta á garðinn sem framlengingu af húsinu og vilja koma því þannig fyrir að hann nýtist sem lengst yfir sumartímann, til dæmis með því að mynda skjólsæl svæði þar sem hægt er að koma fyrir hiturum og jafnvel skyggni, markísum eða pergólu sem veita skjól í rigningarskúrum.

Það er nokkuð algengt að fólk vilji koma fyrir heitum potti, útisturtu, jafnvel skiptiklefa og köldum potti eða sánu ef pláss leyfir. Þá eru fleiri en áður sem vilja gróðurhús bæði til ræktunar og til að njóta hlýju á köldum en sólríkum dögum. Nú er úrval af plöntutegundum orðið það fjölbreytt að margir vilja fá tillögu um val á gróðri fyrir einstök beð eða allan garðinn,“ segir Auður og bætir við að vinsælt sé að koma fyrir útieldhúsi og aðstöðu til að rækta matjurtir en slík aðstaða þarf ekki að taka mikið pláss segir hún.

Grasflöt er afmörkuð með þrifkanti.
Grasflöt er afmörkuð með þrifkanti. Ljósmynd/Aðsend

Vel heppnaður garður getur aukið verðmæti eignar

Auður segir mikilvægt að leita ráða fagfólks áður en hafist er handa við að breyta görðum og segir hún það geta sparað bæði tíma og peninga.

„Það er mikilvægt að lágmarka kostnað og draga eins og unnt er úr hættu á mistökum og tvíverknaði. Vel heppnaðar umbætur á garði geta aukið verðmæti eignar umfram kostnað og góður undirbúningur er lykilatriði í þessu eins og í öðrum framkvæmdum. Fagfólk sem hefur hannað fjölda garða getur leiðbeint um hvernig megi nýta garða sem best, finna lausnir og útfærslur sem eru hagkvæmar.

Það er svo ótalmargt sem þarf að hafa til hliðsjónar við hönnun garða. Fyrsta skrefið er að ræða við eigendur til að fá sem bestan skilning á þeirra óskum og hugmyndum. Því næst er að skoða garðinn og þá möguleika sem í honum felast. Að því loknu er hægt að vinna hugmyndir og tillögur fyrir eigendur að velja úr sem síðan eru unnar áfram í fullbúna hönnun. Viðskiptavinir geta ráðið hversu ítarleg gögnin eru. Ráðgjöfin getur verið í formi samtals og ráðlegginga, eða fullbúinna teikninga í þrívídd með útfærslu á pöllum, pottum, hleðslum og vali á gróðri. Með vandaðar og skýrar teikningar í höndunum er auðveldara fyrir eigendur eða verktaka að framkvæma verkið.“

Auður Svanhvít Sigurðardóttir er garðahönnuður.
Auður Svanhvít Sigurðardóttir er garðahönnuður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þarf fólk að gera allt strax?

„Margir taka nokkur ár í að breyta garði sínum, allt eftir efni og aðstæðum eða áhuga. Best er að móta stærstu svæðin, grasflatir, hellusvæði, palla og skjólveggi fyrst, þau svæði sem þarfnast stórra vinnuvéla. Í framhaldi er svo hægt að gera minni svæðin, beð og útplöntun. Einnig er líka gott að hafa í huga að oft þarf að endurhugsa garð og gróður eftir áratugi þar sem gróður hefur kannski vaxið úr sér eða orðið allt of umfangsmikill. Kominn skuggi þar sem áður var sól og svo framvegis. Þó viljum við auðvitað varðveita falleg og gróskumikil tré sem lengst. Því er mikilvægt að planta þeim þar sem þau fá að njóta sín um ókomin ár eða klippa þau áður en þau verða of stór,“ segir Auður. Hún bendir á að vinnan verði markvissari þegar unnið er eftir heildarskipulagi þó vinnan fari fram á nokkrum árum. Þegar garðeigendur taka garðinn í gegn sjálfir getur verið gott að skipta verkinu í hluta en ef verktakar eru fengnir í verkið er oft hagkvæmara að gera allt í einu.

Gróðurinn fær að njóta sín í uppgerðum garðinum.
Gróðurinn fær að njóta sín í uppgerðum garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Garðurinn þarfnast ekki stanslausrar vinnu

Auður segir að flestir vilji hafa blóm og fjölbreytileika í gróðrinum í garðinum. „Smekkur fólks er misjafn á gróðri eins og öðru, sumir vilja ekki ákveðna liti eða tegundir sem laða að sér geitunga og flugur. Einnig eru sumir viðkvæmir fyrir lyktarsterkum plöntum. Flestir setja þó ekki neinar skorður og yfirleitt fæ ég frjálsar hendur við gróðurvalið. Ég ráðlegg þó oftast harðgerðar plöntur sem nokkuð öruggt er að muni spjara sig og þrífast vel en hvet þó fólk til að vera óhrætt við að prófa plöntur sem það heillast af. Blönduð frjálsleg limgerði eru oft kjörin þar sem pláss er gott, í stað einsleitra klipptra limgerða. Með því að vera með margar mismunandi tegundir verður auðveldara að skipta út ef einhver óværa kemur upp. Ávinningurinn er minna viðhald þar sem svona limgerði má klippa eftir þörfum á nokkurra ára fresti. Fallega snyrt koparreynislimgerði eða sígræn grenilimgerði eru líka augnayndi við rétt skilyrði. Ég mæli oft með botnþekjandi runnum eins og japanskvistum, sunnukvistum, yrkjunum Gamla stóra og June Bride og einnig ilmkórónu. Að ógleymdum ýviði, garðaýr og japansýr. Þetta eru sígrænir runnar sem auðvelt er að klippa og forma en barr þeirra er mjúkt viðkomu.“

Þessi staður minnir á fallegan lystigarð.
Þessi staður minnir á fallegan lystigarð. Ljósmynd/Aðsend

Er hægt að eiga viðhaldslítinn garð?

„Já, tvímælalaust. Það er hægt að lágmarka viðhald með ýmsu móti. Velja má viðhaldsminni tegundir af gróðri og hafa einföld form í garðinum. Velja stærri hellur með færri fúgum eða steypa bílaplanið annað hvort með pússaðri steypu eða mynstursteypu. Nota lerki eða bambus í palla og skjólveggi sem gránar fallega og þarf ekki að bera á árlega. Setja þrifkanta kringum grasflatir til að auðvelda slátt og gerir kantklippingar óþarfar. Róbótar geta séð um að slá grasið, þar fleygir tækninni hratt fram. Svo eru til dæmi um garða sem eru án gróðurs.“

Eigendur vildu fá gróðurhús og var myndað viðbótardvalarsvæði þar.
Eigendur vildu fá gróðurhús og var myndað viðbótardvalarsvæði þar. Ljósmynd/Aðsend

Þegar kemur að eldri görðum sem þarf að taka í gegn, vill fólk almennt taka allt í gegn eða vill fólk nýta hluta þess sem fyrir var og endurbæta?

„Það er misjafnt. Sumir eru bara að spá í hluta garðsins en aðrir vilja breyta öllu. Ég styð nú yfirleitt það að nýta áfram allt sem hægt er og hanna út frá því. Fullvaxinn gróður er mikils virði og tekur mörg ár að rækta upp svo það er til mikils að vinna að geta nýtt hann eins og kostur er. Sumar tegundir hafa síðan frekar stuttan líftíma og þá skapast tækifæri til að endurhanna og breyta,“ segir Auður.

Grjóthleðsla sem skilur að lóðir er upplýst og til prýði.
Grjóthleðsla sem skilur að lóðir er upplýst og til prýði. Ljósmynd/Aðsend
Aðaldvalarsvæðið er sólríkt og skjólsælt.
Aðaldvalarsvæðið er sólríkt og skjólsælt. Ljósmynd/Aðsend
Hér var aðkoman gerð veglegri og allur gróður endurnýjaður.
Hér var aðkoman gerð veglegri og allur gróður endurnýjaður. Ljósmynd/Aðsend
Garðhús nýtt hjá hæðarmun lóðar.
Garðhús nýtt hjá hæðarmun lóðar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is