Draumur Ingimars að vinna með Chris Martin

Frakkland | 15. júlí 2023

Draumur Ingimars að vinna með Chris Martin

Ingimar Birnir Tryggvason er nafn sem ekki allir þekkja en engu að síður hefur hann getið sér gott orð innan tónlistarbransans eftir að hafa unnið með einum heitasta tónlistarmanni Íslands, Prettyboitjokko. 

Draumur Ingimars að vinna með Chris Martin

Frakkland | 15. júlí 2023

Ingimar Birnir Tryggvason naut hverrar mínútu í upptökuverinu með Illangelo.
Ingimar Birnir Tryggvason naut hverrar mínútu í upptökuverinu með Illangelo. Samsett mynd

Ingimar Birnir Tryggvason er nafn sem ekki allir þekkja en engu að síður hefur hann getið sér gott orð innan tónlistarbransans eftir að hafa unnið með einum heitasta tónlistarmanni Íslands, Prettyboitjokko. 

Ingimar Birnir Tryggvason er nafn sem ekki allir þekkja en engu að síður hefur hann getið sér gott orð innan tónlistarbransans eftir að hafa unnið með einum heitasta tónlistarmanni Íslands, Prettyboitjokko. 

Hinn 23 ára gamli músíkant er nýlega kominn heim frá Frakklandi þar sem hann sótti námskeið hjá einum virtasta tónlistarframleiðanda í heimi og var einn af þeim 19 sem valdir voru alls staðar að úr heiminum.

Ingimar er eldklár, sjálflærður, ástríðufullur og hæfileikaríkur og á án efa eftir að ná langt á alþjóðavettvangi. 

„Mér finnst gaman að bulla“

Hvernig gengur í tónlistinni? 

„Það gengur mjög vel. Það er alltaf ánægjulegt að heyra lögin sín spiluð í útvarpi og sjá fólk taka vel í eitthvað sem maður átti þátt í að skapa.“

Hvernig hafa viðtökurnar við lögum þínum og Prettyboitjokko verið?

„Þær hafa farið fram úr öllum væntingum. Við erum með þrjú lög í spilun á útvarpsstöðinni FM957 um þessar mundir. Prettyboitjokko og Luigi trylltu lýðinn í Gamla bíói fyrir nokkru síðan, en þar spiluðu þeir slatta af lögum eftir mig og fólk virtist mjög hrifið.“

Hefur þú verið að vinna með fleiri listamönnum?

„Á Íslandi er aðal fókusinn að vinna með Prettyboitjokko, en ég er aðeins farinn að horfa út fyrir landsteinana.“

Vinnur þú með ólíkar tónlistartegundir?

„Mér finnst gott lag bara vera gott lag! Ef það grípur mig, þá er mér alveg sama um hvaða tónlistartegund er að ræða.“

Spilar þú á hljóðfæri?

„Já, ég spila á gítar og píanó. Það getur verið mjög hjálplegt að kunna á hljóðfæri og auðvitað hjálpað í upptökuverinu. Mér finnst bara gaman að bulla eitthvað á þau og kannski gerir maður eitthvað sem listamanninum lýst á og þá verður bullið mögulega að einhverju.

Fólk þarf líka ekkert endilega að sækja sér kennslu á gítar eða píanó í dag, maður nálgast allt á Youtube eða samfélagsmiðlum. Það fer þó auðvitað eftir því hvert markmið hvers og eins er.“

Ingimar líður hvergi betur en í upptökuverinu.
Ingimar líður hvergi betur en í upptökuverinu. Ljósmynd/Ingimar Birnir Tryggvason

Óþolinmóður en góður að grípa augnablikið

Hverjir eru þínir helstu styrkleikar?

„Ég hugsa að mínir styrkleikar liggi í því að geta unnið og pródúserað hugmyndir hratt og örugglega með listamönnum, það hefur alla vega verið sagt við mig. Það er mjög mikilvægt að ná rétta augnablikinu í upptökuverinu og ég er mjög góður að finna neistann og grípa augnablikið. 

Minn helsti styrkleiki er bara sá að ég hef mikla ástríðu fyrir því sem ég er að gera.“

Hverjir eru þínir helstu veikleikar?

„Það er óþolinmæði. Ég vil sjá allt gerast mjög hratt og þarf á tímum að kúpla mig út.“

Með hverjum dreymir þig að vinna?

„Það er auðvitað langur listi af fólki sem ég væri til í að vinna með, en forsprakki Coldplay, Chris Martin, trónir efst á listanum. Hann er svo geggjaður.

Pabbi kynnti mig fyrir honum þegar ég var kannski 13 ára gamall og lét mig hlusta á fiðlurnar, raddirnar og uppbygginguna í lögunum og ég heillaðist frá fyrstu hlustun.

Það yrði því skemmtilegur lífssigur að fá að vinna með gæjanum sem er ein stærsta ástæðan fyrir því að ég starfa við þetta í dag.“

Ingimar eyddi tíu klukkustundum á dag í upptökuverinu ásamt samnemendum …
Ingimar eyddi tíu klukkustundum á dag í upptökuverinu ásamt samnemendum sínum og Illangelo. Ljósmynd/Ingimar Birnir Tryggvason

Uppáhaldstónlistarmaður?

„Chris Martin og Avicii heitinn eru á toppnum, en ég held upp á marga.“

Uppáhaldslag?

„Það er alltaf að breytast en A Sky Full of Stars með Coldplay er í mikilli spilun um þessar mundir.“

Flottasta plötuumslagið?

„Ég veit ekki hvað það þýðir?“

„Þessi ferð var rugl“

Hvernig finnst þér að vera orðinn þekktur í tónlistarbransanum?

„Það er bara ólýsanlegt eftir alla þessa vinnu. Ég hef lagt hart að mér til þess að ná þangað sem ég er kominn og er í dag að njóta ávinningsins.

Það að eiga vinsæl lög í spilun hefur alltaf verið draumurinn og nú er tónlistin farin að draga mig út um allan heim og orðin stór partur af lífi mínu. Ég get ekki annað en verið þakklátur og glaður.“

Hvernig kom Frakklandsferðin til?

„Þessi ferð var rugl!

Ég var inn á heimasíðu sem heitir Mix With The Masters, en þar er allt stærsta liðið í tónlistarbransanum, og sá auglýst námskeið með stærsta tónlistarframleiðanda í heimi, Illangelo. Ég ákvað að gamni mínu að sækja um en taldi að sjálfsögðu engar líkur á því að komast inn enda bara ungur maður á litla Íslandi og nýr í bransanum. 

Tæpum tveimur mánuðum síðar fékk ég tölvupóst, en í honum stóð: Velkominn til Frakklands. Ég gjörsamlega missti kúlið og hringdi í alla.“

19 manns fengu tækifæri til þess að læra af Illangelo.
19 manns fengu tækifæri til þess að læra af Illangelo. Ljósmynd/Ingimar Birnir Tryggvason

Hvernig var námskeiðsupplifunin?

„Tilgangurinn var að læra af einum stærsta tónlistarframleiðanda í heimi. Við vorum 19 valin til þátttöku, alls staðar að úr heiminum. 

Í tíu klukkustundir á dag vorum við í einhverju svakalegasta upptökuveri sem ég hef stigið fæti inn í og gistum í villu á sama stað og upptökuverið, en það kallast La Fabrique. 

Þetta var ótrúleg upplifun. Við vorum með kokka og einkabílstjóra, þetta var eins og atriði úr bíómynd og það var sko alls ekki erfitt að aðlagast lífsstílnum.

Dagarnir voru uppfullir af skemmtilegum og lærdómsríkum verkefnum, við fengum að kynnast Illangelo og verkferlum hans, hann gaf ómetanleg ráð og hjálpaði okkur að koma sköpun okkar á næsta stig.“

Gerðist eitthvað skondið á námskeiðinu?

„Einn daginn ákváðum við strákarnir í hópnum að skella okkur í fótbolta og Illangelo dreif sig með okkur. Við vorum allir berir að ofan og í miklum gír. Allt í einu fattaði ég að stærsti tónlistarframleiðandi í heimi var að reyna að sóla mig og ég hugsaði: Hvaða rugl er þetta? Hvar er ég eiginlega? Mér fannst þetta augnablik hálf óraunverulegt.“

Langar þig að flytja erlendis?

„Já, ég er alltaf að heillast meira að því, þar liggja frekari tækifæri.“

mbl.is