„Í Fljótavík líður mér best“

Ferðumst innanlands | 16. júlí 2023

„Í Fljótavík líður mér best“

Katla Vigdís Vernharðsdóttir, tónlistarkona og Vestfirðingur, saknar heimahaganna en hún býr um þessar mundir í Reykjavík. Hún segir ekkert jafnast á við sumarið á Vestfjörðum. Hún ætlar að sjálfsögðu að ná góðum tíma heima í sumar og njóta þess sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Kajakferðir, bátur afa hennar og sveitaball bíður

„Í Fljótavík líður mér best“

Ferðumst innanlands | 16. júlí 2023

Katla Vigdís með móður sinni í göngu á Hornströndum.
Katla Vigdís með móður sinni í göngu á Hornströndum.

Katla Vigdís Vernharðsdóttir, tónlistarkona og Vestfirðingur, saknar heimahaganna en hún býr um þessar mundir í Reykjavík. Hún segir ekkert jafnast á við sumarið á Vestfjörðum. Hún ætlar að sjálfsögðu að ná góðum tíma heima í sumar og njóta þess sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Kajakferðir, bátur afa hennar og sveitaball bíður

Katla Vigdís Vernharðsdóttir, tónlistarkona og Vestfirðingur, saknar heimahaganna en hún býr um þessar mundir í Reykjavík. Hún segir ekkert jafnast á við sumarið á Vestfjörðum. Hún ætlar að sjálfsögðu að ná góðum tíma heima í sumar og njóta þess sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Kajakferðir, bátur afa hennar og sveitaball bíður

„Ég ólst upp fyrir vestan, á Suðureyri nánar tiltekið. Ættir mínar má m.a. rekja til Súgandafjarðar, Hnífsdals, Ísafjarðardjúpsins og Fljótavíkur á Hornströndum, ég er nefnilega hreinræktaður Vestfirðingur í báðar ættir og næstum öll fjölskyldan mín býr þar,“ segir Katla Vigdís.

Katla Vigdís flutti suður til Reykjavíkur til þess að stunda nám við Listaháskóla Íslands haustið 2020. „Ég komst frekar fljótt að því að það var heldur glatað að standa í öllu þessu kóvidveseni í Reykjavík en ekki bara heima þannig ég dreif mig bara aftur vestur þegar skólinn lokaði um miðja önn vegna samkomutakmarkana. Ég byrjaði aftur í náminu ári seinna og á núna bara eitt ár eftir,“ segir hún.

„Það voru mjög blendnar tilfinningar að flytja suður. Ég var nýorðin 18 og var að byrja í LHÍ. Menntaskólinn var bara þrjú ár og ég hefði gjarnan viljað vera þar eitt ár í viðbót. Á sama tíma var ég spennt að byrja í nýju námi og kynnast nýju fólki. Það er margt sem ég sakna við að búa heima á Suðureyri en þessa dagana, í sumarblíðunni, sakna ég þess mest að vera með garð. Nú bý ég í miðbænum og þar er engan garð að finna. Bara þokkalega viðbjóðslegt port sem við viljum eyða sem minnstum tíma í. En ég finn það að hugurinn leitar heim og ég er búin að lofa fólkinu heima að ég „skili mér aftur“ þegar ég er búin með námið. Ég hlakka mikið til þess dags!“

Hvorki rafmagn né hiti

„Það er svo klisjukennt að segja það, en klisja er klisja af góðri og gildri ástæðu. En það er auðvitað náttúran sem heillar hvað mest við svæðið. Fyrir mér er það samt líka fólkið. Ég fer heim til að hitta mömmu og pabba, ömmur mínar og afa, frændfólk og vini, það er þetta tvennt sem ég sakna mest,“ segir Katla Vigdís.

Hún segir sumrin fyrir vestan draumi líkust. „Sumarið á Vestfjörðum er besta sumarið. Ég er í fyrsta skipti í ár ekki fyrir vestan allt sumarið og ég sakna þess alveg rosalega að vera heima. Stemningin er allt öðruvísi en um vetur. Brottfluttir Vestfirðingar leggja leið sína í heimaþorpið, krakkar hlaupa um göturnar langt fram á kvöld, garðpartí og og bátsferðir með harmonikku í blankalogni og kvöldsólinni. Það er best. Á kvöldin er eiginlega nauðsynlegt að fara einn göngutúr út fyrir þorpið (Suðureyri) og labba út í Staðardal. Það er ofboðslega falleg gönguleið þangað og þegar sólin er farin af bænum skín hún töluvert lengur á ströndinni þar. Ég fer mjög oft þangað til að draga í mig náttúruna. Ég tek góð heyrnartól með, hlusta á góða músík og geng í átt að sólinni! Klárlega falin perla sem ekki margir vita um. Þar er búið að reisa litla verbúð í gömlum stíl sem er gaman að kíkja inn í.“

Áttu þér uppáhaldsstað á Vestfjörðum?

„Uppáhaldsstaðurinn minn á Vestfjörðum, fyrir utan ströndina í Staðardal, er klárlega Fljótavíkin. Það er uppáhaldsstaðurinn minn í heiminum held ég barasta. Föðurafi minn fæddist þar og bjó í örfá ár með fjölskyldu sinni. Hann og amma byggðu síðan lítinn sumarbústað löngu seinna sem þau heimsækja á hverju sumri. Þangað kemst maður bara með bát eða á lítilli flugvél. Þar er ekkert rafmagn og enginn hiti, ekkert síma- eða netsamband. Við styttum okkur stundir með spilum, lestri og göngum um svæðið. Þá verður maður að glugga eitthvað í Hornstrendingabækurnar og jafnvel lesa upp nokkrar draugasögur af svæðinu. Í Fljótavík líður mér best og kveð ég víkina með miklum trega á ári hverju.“

Fullkomin dýpt á Suðureyri

Hvaða sundlaug mælir þú með?

„Ég hugsa að ég verði rekin úr Súgfirðingafélaginu ef ég nefni ekki sundlaugina á Suðureyri sem bestu sundlaug Vestfjarða. Hún er mjög hugguleg með tveimur pottum og 16 metra laug. Það besta við sundlaugina er samt barnalaugin sem er hið fullkomna millistig milli heits potts og stóru laugarinnar. Hitinn: ekki of heitt, ekki of kalt: fullkomið. Dýptin er líka fullkomin, barnalaugar eiga það nefnilega til að vera allt of grunnar og maður að krókna úr kulda þar sem að um það bil 15% af líkamanum kemst fyrir í lauginni. Barnalaugin á Suðureyri er snilld og sundlaugar landsins mættu horfa til hennar þegar á að fara að grafa einn sullupollinn í viðbót. Síðan má vera með kaffi og ís í lauginni. Gordjöss!“

Af hverju má fólk alls ekki missa þegar það ferðast um Vestfirði í sumar?

„Það eru alls konar viðburðir fyrir vestan í sumar sem vert er að skoða. En ég held að ég verði að mæla með einleikjahátíðinni Act Alone sem er haldin á Suðureyri ár hvert, helgina eftir versló. Þá er frítt inn á alla viðburði en á hátíðinni er hægt að finna tónlist, einleiki, danssýningar og ljóðalestur svo eitthvað sé nefnt. Barnasýningar yfir daginn og tónleikar að kvöldlagi. Eitthvað fyrir alla og ótrúlega góð og skemmtileg stemning sem myndast í þorpinu þar sem bæjarbúar og aðrir gestir flakka milli sýningarstaða til að ná öllum sýningum og njóta sem best.“

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ég er að vinna á leikskóla í Reykjavík út júní en þegar hann lokar ætla ég að skella mér aðeins í sólina í útlöndum og síðan beinustu leið heim á Suðureyri. Ætlunin er síðan að kíkja í Fljótavík og vera þar eins lengi og ég get! Inn á milli ætla ég að: tana á Austurvelli, spila kubb á Klambratúni, gista í tjaldi, fara á sveitaball, fara á kajak, drekka svalandi drykk, ganga upp á fjall, fara í sjóferð á bátnum hans afa, fara í partí og hitta góða vini og fjölskyldu.“

mbl.is