Þurfa að endurheimta traust

Þurfa að endurheimta traust

Linda Jónsdóttir, nýkjörinn stjórnarformaður Íslandsbanka, segir nýtt hlutverk sitt vera átaksverkefni sem hún sé spennt fyrir. Hún segir einnig að verkefni nýrrar stjórnar sé að búa bankanum til skýra stefnu og endurheimta traust sem hefur verið rofið.

Þurfa að endurheimta traust

Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka | 28. júlí 2023

Linda er nýr stjórnarformaður stjórnar Íslandsbanka.
Linda er nýr stjórnarformaður stjórnar Íslandsbanka. mbl.is/Inga Þóra

Linda Jónsdóttir, nýkjörinn stjórnarformaður Íslandsbanka, segir nýtt hlutverk sitt vera átaksverkefni sem hún sé spennt fyrir. Hún segir einnig að verkefni nýrrar stjórnar sé að búa bankanum til skýra stefnu og endurheimta traust sem hefur verið rofið.

Linda Jónsdóttir, nýkjörinn stjórnarformaður Íslandsbanka, segir nýtt hlutverk sitt vera átaksverkefni sem hún sé spennt fyrir. Hún segir einnig að verkefni nýrrar stjórnar sé að búa bankanum til skýra stefnu og endurheimta traust sem hefur verið rofið.

Linda var tilnefnd til stjórnarsetu af tilnefningarnefnd Íslandsbanka. Kjörið fór fram í dag á hluthafafundi bankans. Til­nefn­ing­ar­nefnd lagði til, í sam­ráði við Banka­sýslu rík­is­ins, að Linda yrði formaður stjórn­ar og var hún sjálfkjörin í embættið þar sem enginn mótframboð bárust.

Frítíminn mun skerðast

Ari Daníelsson, fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn Íslandsbanka, tók til máls á fundinum í dag. Þar sagði hann meðal annars að seta í stjórn Íslandsbanka væri ekki fyrir þá sem vilja vinna við annað þar sem að það væri mjög krefjandi að sitja í stjórninni.

Linda er nú formaður stjórnar og ljóst er að hennar bíða að krefjandi verkefni. Hún sinnir ábyrgðarmiklu starfi hjá Marel en þar er hún fram­kvæmda­stjóri rekstr­ar. Spurð hvernig hún ætli að ná að sinna þessu nýja starfi sínu sem stjórnarformaður Íslandsbanka samhliða starfi sínu hjá Marel segir Linda:

„Ég er búin að vera í fjórtán ár hjá Marel. Í gegnum tíðina er ég búin að stýra ýmsum teymum, bæði hér heima og erlendis. Það hefur verið mín lukka í gegnum tíðina að ég hef unnið með frábæru fólki sem að vex og dafnar í sínum hlutverkum.

Ég mun gera þetta þannig að það teymi sem ég er með í dag, sem eru mjög öflugir einstaklingar, mun stíga að einhverju leyti upp. Ég mun líka væntanlega skera út eitthvað af frítímanum. Ég hef í gegnum tíðina tekið svona átaksverkefni þegar ég hef verið með fleira en eitt í gangi í einu og ég ætla að gera það aftur núna. Ég hef farið í gegnum nám og ýmislegt á meðan ég hef verið í fullri vinnu. Ég lít á þetta sem átaksverkefni.“

Ný stjórn Íslandsbanka.
Ný stjórn Íslandsbanka. mbl.is/Inga Þóra

Starfsfólk og stjórn þurfi ró og frið

Spurð hver séu stóru verkefni nýkjörinnar stjórnar segir Linda:

„Við þurfum að tryggja að við séum með mjög skýra stefnu fyrir bankann. Við þurfum að tryggja að við séum með rétt gildi, rétta menningu og rétt teymi. Það er það sem stjórn þarf að hugsa um núna á næstunni. Það er líka mjög mikilvægt að við vinnum í þessum atriðum, sem hafa komið í ljós, að voru ábótavant. Það er eitthvað sem við munum leggja mikla áherslu á. Það er alveg skýrt að fjármálafyrirtæki þurfi að hafa þessa hluti í lagi,“ segir Linda og bætir við:

„Mig langar líka nefna að það sem ég hef heyrt af bankanum er að hann er vel rekinn. Það kom hérna fram í dag að það voru mistök í þessu verkefni. Við þurfum núna að gefa starfsfólki og stjórn ró og frið til að vinna úr þessum málum. Við munum leggja okkur mikið fram um að ná tilbaka því trausti sem að hefur verið rofið í kringum þetta verkefni.“

Frá hluthafafundinum í dag.
Frá hluthafafundinum í dag. mbl.is/Eyþór

En hvernig nær maður trausti tilbaka?

„Það er komin aðgerðaráætlun. Auðvitað á stjórn eftir að fara yfir það með bankastjóra þannig að allir séu á sömu blaðsíðu með vegferðina. Með því að vinna í þessum hlutum sem þarf að laga og þeim aðgerðum sem við förum í munum við sýna það. Það er eina leiðin í mínum huga til að ná trausti tilbaka,“ segir Linda.

Fyrrverandi stjórn í erfiðri stöðu

Á fundinum skapaðist umræða um hvort að ekki hefði verið réttara að ráða einhvern utanaðkomandi í starf bankastjóra eftir að Birna Einarsdóttir bankastjóri sagði af sér, en í hennar stað var Jón Guðni Ómars­son ráðinn. Hann gegndi áður starfi fram­kvæmda­stjóra fjár­mála hjá Íslandsbanka. 

Spurð hvort heppilegra hefði verið að ráða einhvern utanaðkomandi í stöðuna segir Linda:

„Þetta er erfið ákvörðun að taka. Það er mjög gott þegar það er fólk sem er tilbúið að taka við störfum innan bankans. Það er mjög jákvætt. Á endanum þarftu að finna rétt jafnvægi á milli fólks sem kemur með ferska vindinn og fólks sem að hefur verið lengi. Stjórnin var í erfiðri stöðu á þessum tímapunkti og tók sínar ákvarðanir þá. Núna er dagur eitt og við vinnum okkur upp úr þeirri stöðu sem er í dag.“

Jón Guðni tók til máls á fundinum í dag.
Jón Guðni tók til máls á fundinum í dag. mbl.is/Eyþór

Skýrt að hluthafar vildu sjá breytingar

Sjö sæti eru í stjórn Íslandsbanka. Bankasýsla ríkisins tilnefndi þrjá í stjórn og tilnefningarnefnd Íslandsbanka fjóra. Þrír af fjórum sem tilnefningarnefnd tilnefndi náðu kjöri. Val­gerður Hrund Skúla­dótt­ir hlaut ekki kjör en hún hafði setið í stjórn bankans frá síðasta aðalfundi bankans í mars. 

Helga Hlín Há­kon­ar­dótt­ir, meðeig­andi og ráðgjafi hjá Strategíu ráðgjafa­fyr­ir­tæki, bauð sig fram án tilnefningar Bankasýlsunnar eða tilnefningarnefndar og hlaut hún kjör á fundinum í dag. Helga Hlín var hvött af Gildi lífeyrissjóði til að gefa kost á sér.

Spurð hvort að niðurstaða kosninga hafi verið skilaboð frá hluthöfum um að þörf hafi verið á breytingum á stjórn segir Linda:

„Já. Ég held að það sé alveg skýrt ef að maður hefur fylgst með umræðunni. Það var beiðni um að sjá breytingar. Það er samt mikilvægt að breyta ekki of miklu því að það er þekking og annað sem að maður þarf að passa að sé áfram til staðar innan teymisins. Það er eins og með aðrar breytingar, það þarf að finna rétt jafnvægi á milli nýrra aðila sem koma ferskir að borðinu og þeirra sem hafa verið áður. Ég tel að þetta sé gott jafnvægi þegar ég horfi á nýja stjórn.“

Þurfa að kynnast og fara yfir styrkleika

Beint eftir hluthafafundinn í dag fór ný stjórn til fundar. En hvað verður tekið fyrir á þeirra fyrsta fundi?

„Það eru margir þarna sem ég þekki ekki og hef aldrei unnið með áður þannig að það er fyrsta verk að kynnast fólkinu og að fara yfir styrkleikana, hvernig nýtum við þá best í skipan nefnda. Það sem er mikilvægast í öllum umbreytingum er að stilla teymi rétt upp. Við erum að fara gera þetta sjö saman. Það er mikið undir að þetta gangi allt vel þannig að það er mikilvægt að stilla teyminu í samræmi við styrkleika,“ segir Linda.

mbl.is