Vilhjálmur Vernharðsson, ferðaþjónustubóndi í Möðrudal á Fjöllum, hefur í mörg horn að líta í byrjun júní, sauðburður að klárast og sumarvertíðin í ferðaþjónustunni að fara af stað. Vilhjálmur segir langflesta gesti sína erlenda ferðamenn en vonast til þess að sem flestir Íslendingar kynnist fegurðinni á hálendinu.
Vilhjálmur Vernharðsson, ferðaþjónustubóndi í Möðrudal á Fjöllum, hefur í mörg horn að líta í byrjun júní, sauðburður að klárast og sumarvertíðin í ferðaþjónustunni að fara af stað. Vilhjálmur segir langflesta gesti sína erlenda ferðamenn en vonast til þess að sem flestir Íslendingar kynnist fegurðinni á hálendinu.
Vilhjálmur Vernharðsson, ferðaþjónustubóndi í Möðrudal á Fjöllum, hefur í mörg horn að líta í byrjun júní, sauðburður að klárast og sumarvertíðin í ferðaþjónustunni að fara af stað. Vilhjálmur segir langflesta gesti sína erlenda ferðamenn en vonast til þess að sem flestir Íslendingar kynnist fegurðinni á hálendinu.
„Ég er fæddur og uppalinn hérna. Ég var farinn og fluttur til Reykjavíkur eins og nánast allir aðrir. Þegar þjóðveginum var breytt árið 2001 þá ætluðu foreldrar mínir að hætta að búa og fólkið sem var með greiðasölu við þjóðveginn ætlaði að loka og bærinn var að fara í eyði, þá ákvað ég prófa þetta skref og kaupa. Ég ætlaði svo sem aldrei að verða bóndi nema í hjáverkum en var með þessa hugmynd að byggja upp ferðaþjónustu,“ segir Vilhjálmur.
Ferðaþjónusta á Íslandi hefur breyst mjög mikið á undanförnum tveimur áratugum og hefur Vilhjálmur ekki farið varhluta af því. Ævintýrið hans fór rólega af stað en hann hefur staðið af sér kreppu og kórónuveiru. „Ég er allavega enn hérna og með gömlu kennitöluna,“ segir hann glettinn.
Útsýnið er aðalsmerki staðarins að sögn Vilhjálms. „Við höfum fjalladrottninguna Herðubreið hérna í fanginu, Kverkfjöllin og sjáum ótrúlega vítt, við sjáum héðan inn á jökul, það eru 100 kílómetrar. Við erum með óhemju vítt og flott útsýni. Svo er það náttúru- og dýralíf sem er hér allt í kring. Svo er þetta eldfjallalandslag allt í kringum okkur.“
Vilhjálmur segir að allir bílar og ferðavagnar komist á tjaldstæðið. Hins vegar ef fólk ætlar lengra inn á hálandið þarf það að vera á betri bílum. Hann er með gistirými fyrir 110 manns í mismunandi gistirýmum og auk þess er veitingastaður. „Við framleiðum okkar kjöt sjálf sem við bjóðum gestum okkar upp á. Við veiðum bleikjuna sem er á matseðlinum í vötnunum og ánum. Gæsin og hreindýrið kemur frá okkar veiðimönnum sem við þjónustum, matseðillinn er eins staðbundinn og hann getur verið. Ástæðan fyrir að því að við erum bændur er að við viljum að allir okkar aðalréttir séu af bænum, hvort sem það er villibráð eða það sem við ræktum,“ segir Vilhjálmur og segir þau vera að vinna í því að koma upp gróðurhúsi til að rækta salat.
Vilhjálmur segir vinsælt að gista í eina til tvær nætur og fara í ferðir í Kverkfjöll eða í Öskju. Ferðaþjónustan hans býður upp á slíkar ferðir auk þess sem þyrluflug er að byrja aftur eftir hlé í kjölfar heimsfaraldurs. Að fljúga yfir Öskju er ein vinsælasta þyrluferðin en það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk fer í útsýnisflug með þyrlu. Draumur eldra fólks um að fara á topp Herðubreiðar varð til að mynda að veruleika þegar þau fengu þyrlu til að lenda þar. „Það er hægt að láta ýmislegt rætast ef maður er rétt þenkjandi,“ segir Vilhjálmur.
Á haustin eru það Íslendingar að megninu til sem koma til þeirra Vilhjálms og eiginkonu hans, Elísabetar Svövu Kristjánsdóttur, á Möðrudal á Fjöllum. Tilgangurinn er veiðar. „Yfir sumartímann á venjulegum degi erum við að tala um 95 prósent útlendinga eða meira. En svo í kórónuveirufaraldrinum var allt fullt af Íslendingum og gott veður,“ segir Vilhjálmur. Hann segir Íslendinga einnig hafa fjölmennt fyrir nokkrum árum. „Þeir voru hálfveðurtepptir af því þeir vildu ekki yfirgefa góða veðrið. Að Íslendingar komi í gistingu á hótelinu eða gistihúsinu yfir sumartímann það er undantekning.“
Vilhjálmur vonast til að ferðalög Íslendinga um eigið land hafi opnað augu þeirra fyrir ágæti landsins og breytt ferðavenjum landsmanna til frambúðar, að einhverju leyti að minnsta kosti. „Árið 2020 fengum við hingað fólk á miðjum aldri hálfnað með hringinn umhverfis Ísland sem hafði aldrei komið á Austurland áður. Þau voru svo heilluð, þau voru bara: „Hér eru flottir veitingastaðir og flott hótel.“ Fólk upplifði Ísland allt öðruvísi en áður og ég vonaði að þetta myndi breyta einhverju og fólk myndi ferðast meira um landið en ég veit ekki hvernig það verður af því Ísland er náttúrlega bara fullsetið af útlendingum yfir sumarið.“
Ekki er hægt að koma við á Möðrudal á Fjöllum nema fá sér annaðhvort kleinur eða ástarpunga í Fjallakaffi en bakkelsið er að sjálfsögðu heimasteikt. Aðspurður hvort þetta séu bestu kleinur á Íslandi vill Vilhjálmur lítið fullyrða um það en segir leiðsögumennina sem koma við mjög ánægða. „Við höfum alveg heyrt það að við séum með bestu ástarpungana á Íslandi,“ segir hann.
Hvort er betra kleinurnar eða ástarpungarnir?
„Fjallakaffi var þekkt fyrir kleinurnar lengst af en þetta hefur snúist við. Fjallakaffi er orðið þekktara fyrir ástarpungana.“
Hvernig er lífið á veturna?
„Þetta er allt öðruvísi. Þetta eru alveg tveir mismunandi tímar. Á sumrin höfum við minni tíma fyrir ferðamennina. Við viljum að ferðamennirnir upplifi að þetta sé fjölskyldufyrirtæki og við erum hérna alla daga, allt sumarið, sjálf. Við reynum að spjalla við fólkið og gefa því upplýsingar sjálf. Það eru hins vegar óhemjumargir að koma. Á veturna getur maður gefið hverjum ferðamanni meiri tíma af því að það eru miklu færri. En sumarið er árstíðin sem allt snýst um til þess að lifa af árið en við erum með opið allt árið,“ segir Vilhjálmur sem mælir með að skoða norðurljósin í Möðrudal á Fjöllum.