Júlíus Freyr Theódórsson er leiðsögumaður hjá Adventures By Disney á Íslandi. Júlíus fær að vinna við það sem honum finnst skemmtilegast og segir hann að Norðurland standi iðulega upp úr hjá sínu fólki.
Júlíus Freyr Theódórsson er leiðsögumaður hjá Adventures By Disney á Íslandi. Júlíus fær að vinna við það sem honum finnst skemmtilegast og segir hann að Norðurland standi iðulega upp úr hjá sínu fólki.
Júlíus Freyr Theódórsson er leiðsögumaður hjá Adventures By Disney á Íslandi. Júlíus fær að vinna við það sem honum finnst skemmtilegast og segir hann að Norðurland standi iðulega upp úr hjá sínu fólki.
Júlíus lýsir hlutverki leiðsögumanns í Disney-ferðum sem nánast sólarhringsstarfi og tekur hann þátt í öllum ævintýrum gesta sinna. „Þetta eru margar kynslóðir sem ferðast saman, börn og ömmur og afar. Þau kaupa ferðina í gegnum Disney og hér erum við og tökum á móti þeim. Við sýnum þeim landið okkar, kynnum þeim söguna og höfum gaman. Við tökum þetta svona skrefinu lengra, við tökum allar myndir af fólki og sjáum um þau frá A til Ö, lyftum af þeim öllum áhyggjum í lífinu,“ segir Júlíus.
Þegar blaðamaður náði á Júlíusi var hann staddur á Húsavík þar sem fólkið hans fékk að spóka sig í góða veðrinu. Hópurinn var þá nýbúinn að skoða Goðafoss og Grenjaðarstað í sólinni, enda alltaf sól fyrir norðan að sögn Júlíusar.
Hvað gerir maður í Disney-ferð á Norðurlandi?
„Þegar þú ert búinn að hreinsa upp alla afþreyingarmöguleika á Suðurlandi þá förum við náttúrlega norður og verjum helmingnum af ferðinni þar. Eins og við öll vitum þá er það vísindalega sannað að allt á Norðurlandi er þrisvar sinnum betra en það sem er fyrir sunnan eins og ég kynni vel fyrir mínum gestum. Við byrjum á að fara á Hauganes í hvalaskoðun sem er ótrúleg upplifun. Við borðum á Baccalá Bar og fylgjum þeim eiganda svo eftir yfir í Ektafisk og förum í gegnum hvernig við búum til fisk, hvað við gerum, hvernig við flökum hann. Gerum grín og höfum gaman. Við förum í pottana og við hoppum í sjóinn til að sýna fólki að þetta sé nú lítið mál, þetta sé ekkert kalt, bara hressandi. Við gerum allt með fólkinu, fólk er aldrei á eigin vegum nema klukkutíma hér og þar,“ segir Júlíus.
Daginn eftir viðtalið var Júlíus á leið í Mývatnssveit en þar líður honum alltaf vel. „Við erum yfirleitt það heppin að jólasveinarnir koma að hitta okkur. Þeir koma og tala við okkur sérstaklega. Við förum á fuglasafnið og köfum í söguna, höfum gaman og njótum þess að vera til. Svo förum við í flúðasiglingar vestur í Jökulsá, njótum alls þess besta sem Norðurland hefur upp á að bjóða.“
Ef Júlíus væri á eigin vegum með konu og þremur börnum myndi hann gera það nákvæmlega sama. Einn stærsti kosturinn við starfið er að hann fær að gera það sem honum finnst skemmtilegast á launum.
„Þetta er nákvæmlega það sama og ég geri með minni fjölskyldu. Við förum út um allt, við förum í hvalaskoðun. Það er nokkuð sem Íslendingar ættu raunverulega að kynna sér. Áður en ég byrjaði í þessu starfi fannst mér hvalaskoðun algjörlega glórulaus. En ég er svo fullkomlega heillaður af því að vera í hvalaskoðun, ég er eins og fimm ára krakki. Ég þarf að vara viðskiptavini mína við áður en ég fer með þeim út á sjó því ég stend uppi á brú og orga á þau ef við sjáum eitthvað. Ég skríki og hlæ, ég missi raunveruleikatilfinningu þegar ég er kominn út á sjó, þetta er svo gaman og fólk trúir því ekki fyrr en það prófar, þetta ættu allir að gera.“
Lá beint við að gerast leiðsögumaður?
„Þetta lá ekki beint við, þetta blundaði alltaf í mér. Þetta byrjaði með ömmu og afa á Vopnafirði af því að þau voru í Ferðafélaginu. Sem smástrákur var maður að þvælast í rútum hingað og þangað og þar einhvern veginn kviknaði bakterían. Það var helst amma mín heitin sem kom inn hjá mér þessari dellu, amma las kort eins og aðrir lesa bækur. Þótt hún kæmi á svæði í fyrsta skipti gat hún sagt þér nöfnin á hverjum tindi. Ég gleypti þetta í mig og þetta blundaði í mér en mér fannst aldrei raunhæft að komast í þetta starf. Svo bara gerast hlutir og nú hefur þetta verið mín aðalvinna í rúmlega átta ár, ég byrjaði fyrst fyrir 13 árum að keyra traktor í Hrísey með heyvagn aftan í að segja sögur,“ segir Júlíus.
Nærðu að hitta fjölskylduna þína?
„Jú, ég hitti þau í Covid, þetta er fínasta fólk,“ segir Júlíus léttur í bragði. „Árið fyrir Covid var ég tvö hundruð nætur á hóteli. Við hlæjum svolítið að því heima að þegar ég og frúin vorum að hefja okkar búskap þá kom ekki til greina að ég færi á sjó. Ég er minna heima en ef ég væri á sjó en þá er bara að nýta tímann þegar maður kemur heim.“
Júlíus mælir með að fara í hvalaskoðun á Hauganesi í sumar og verja öllum deginum þar. „Ég mæli heilshugar með Hauganesi af því að þar er hægt að gera svo margt skemmtilegt. Þar hefurðu pottana í fjörunni og sandfjöru sem krakkarnir geta buslað í, þeir geta vaðið langar leiðir út, fjaran snýr í suður, fjórir fimm heitir pottar, þetta er algjör paradís. Svo skokkarðu yfir á veitingastaðinn og ferð í hvalaskoðun,“ segir Júlíus.
Það þurfa allir að gera sér ferð í Mývatnssveitina að mati Júlíusar, þangað er ekki hægt að koma of oft. „Farið í Dimmuborgir, njótið þess sem þær hafa upp á að bjóða. Segið söguna, finnið jólasveinahellinn, hann er algjörlega frábær, það er hægt að laumast þangað, ef þið eruð heppin finnið þið jólasveina eða ummerki um þá,“ segir Júlíus.
Hvað stendur upp úr?
„Það sem skorar hæst hjá okkur er Norðurlandið,“ segir Júlíus þegar hann er spurður að lokum hvað fólk er ánægðast með. „Við erum búin að fara á jökul, við erum búin að fara Gullna hringinn, við erum búin að fara á hestbak, við erum búin að fara á flúðasiglingu, við erum búin að fara í Bláa lónið og það sem stendur upp úr er þetta augnablik þegar þau labba inn í Grenjaðarstað og við segjum þeim hvernig var að búa hérna. Þau verða svo heilluð af þessari tengingu. Þetta tengist svo náttúrunni. Allt í einu tengja þau; af hverju sjáum við engar fornminjar? Hvað er í gangi? Allt í einu sjá þau þetta ljóslifandi. Þau tengjast svo Íslandi á annan hátt þegar við erum búin að fara með þau í gegnum torfbæinn og segja þeim hvernig þetta var. En ég er náttúrlega ekki eðlilegur, ég er með tattú af torfbæ á hægri hendinni og af sauðkindinni á hinni en það er nú annað,“ segir Júlíus.
Útisturtan á leiðinni upp í Kröflu
– alveg geggjað!
Fiskur og franskar á Baccalá Bar,
gerist ekki ferskara
Veitingahúsið Vogafjós í Mývatnssveit þar sem hægt er að horfa á kýrnar í gegnum gler
Selhótel Mývatn sem býður upp á góðar pítsur í fallegu umhverfi
Ásbyrgi
Dettifoss
Heimskautagerðið Langanesi
Skagafjörður
Að keyra fyrir Skaga
Hvammstangi – alveg feikilega fallegur staður