Fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir er hætt í morgunútvarpinu á Rás 2 og undirbýr sig fyrir flutning til Búdapest með manninum sínum, Frey Rögnvaldssyni blaðamanni á Heimildinni og dætrum sínum tveimur. Það var ekki skyndiákvörðun en hluti af því ferli að festast ekki í viðjum þægindarammans.
Fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir er hætt í morgunútvarpinu á Rás 2 og undirbýr sig fyrir flutning til Búdapest með manninum sínum, Frey Rögnvaldssyni blaðamanni á Heimildinni og dætrum sínum tveimur. Það var ekki skyndiákvörðun en hluti af því ferli að festast ekki í viðjum þægindarammans.
Fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir er hætt í morgunútvarpinu á Rás 2 og undirbýr sig fyrir flutning til Búdapest með manninum sínum, Frey Rögnvaldssyni blaðamanni á Heimildinni og dætrum sínum tveimur. Það var ekki skyndiákvörðun en hluti af því ferli að festast ekki í viðjum þægindarammans.
„Ég er að kveðja minn fasta póst á RÚV eftir sex ár í Efstaleitinu og flyt til Búdapest í Ungverjalandi með manninum mínum og okkar yngri dætrum í lok mánaðarins. Þetta er löngu ákveðið og búið að vera alvarlega á teikniborðinu síðastliðin þrjú ár að flytja út haustið 2023. Ég er að fara að taka mastersgráðu í Art and Design Mangagement, maðurinn minn ætlar að vinna áfram í fjarvinnu og dæturnar tvær fara beint í djúpu laugina í ungverskan skóla og leikskóla enda þær alhugrökkustu stelpur sem ég þekki,“ segir Snærós aðspurð um flutninginn til Búdapest.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara í þetta nám?
„Ég er útskrifuð með gráðu í listfræði og listasögu frá Háskóla Íslands og langar að bæta ofan á þá þekkingu með öflugu stjórnunarnámi sem er sérhæft í skapandi greinum. Þær eru framtíðin.“
Fannst þér það ekki gefa þér nægilega lífsfyllingu að vera í útvarpinu?
„Ég hef verið ótrúlega lánsöm á mínum áratug í fjölmiðlum að sinna skemmtilegum störfum með frábæru fólki og njóta hvers dags - en vinnan er ekki það sem gefur manni lífsfyllingu. Það væri fátæklegt líf sem byggði allt á vinnunni. Ég fæ lífsfyllingu af því að verja tíma með fólkinu mínu, vera vinum mínum góður gestgjafi og dekra við börnin mín og eiginmann. Svo fæ ég lífsfyllingu úr ferðalögum, af því að sjá og upplifa bestu listaverk í heimi, fara á góðar leiksýningar og úr því að hitta fólk sem gefur innblástur og úðar sjarma, visku og lífsgleði,“ segir Snærós.
Í fyrrasumar dvaldi Snærós í New York í sex vikur þar sem hún tók sumarönn í Columbia University í New York. Hún segir að þetta hafi verið besta sumar lífs síns.
„Mig langaði að bæta við mig þekkingu umfram það sem Háskóli Íslands hafði fram að færa og tók meðal annars áfanga sem skildi eftir alveg ótrúlega yfirgripsmikla þekkingu á listasafnakúltúr, sögu þeirra og strúktúr. Sá strúktúr er enn ein manngerða grindin sem við höfum lært að taka sem hversdagslegum hlut þó sjónarhornið sé afskaplega vestrænt og hvítt. Það gaf mér gríðarlega mikið að verja sumrinu í þessari bestu borg heims og fékk mig til að átta mig á ákveðnum karaktereinkennum sem eru ólík með Reykjavík og New York, sem ég kann vel að meta í síðarnefndu borginni og vil gjarnan hafa meira af í mínu lífi. Og auðvitað öfugt,“ segir hún.
Samstarf Snærósar og föður hennar, Sindra Freyssonar sem er rithöfundur og skáld, vakti athygli en þau gerðu svo dæmi sé tekið útvarpsþáttaröð um Joe Grimsson sem fékk mikla hlustun. Í byrjun næsta árs frumsýnir Rúv sjónvarpsþættina Fangar Breta sem eru úr smiðju feðginanna og Republik.
„Þættirnir fjalla um þá Íslendinga sem voru stríðsfangar Breta í seinni heimsstyrjöld og sátu í fangelsum án dóms og laga. Spennandi verkefni sem ég vona að fólk komi til með að læra eitt og annað af. Svo er von á útvarpsþáttum frá mér um jólin um afa minn og ömmu, leikarahjónin Helga Skúlason og Helgu Bachmann, sem Rás 1 ætlar að leyfa hlustendum að heyra. Ég elska að segja góðar sögur og ætla vonandi ekki að hætta því svo lengi sem ég lifi,“ segir Snærós sem er dóttir þingmannsins Helgu Völu Helgadóttur.
Hvernig var að vinna með foreldri í svona krefjandi verkefni?
„Það er frábær áskorun að vinna með pabba mínum. Við skiljum hvort annað vel, erum miklir vinir og pabbi er gríðarlega hæfileikaríkur sagnamaður. Við höfum líka sama húmor og deilum oftast skoðunum á þeirri stefnu sem við viljum taka þó auðvitað sé stundum meiningarmunur. En hann þekkir mig og treystir minni dómgreind í þessu skapandi ferli á sama hátt og ég treysti hans dómgreind. Við vegum salt og tökum svo nauðsynlegar pásur á milli verkefna til að verða aftur feðgin,“ segir hún.
Kom það þér á óvart hvað þættirnir um Joe Grimsson urðu vinsælir?
„Bæði og. Við vorum með frábæran efnivið í höndunum og pabbi búinn að rannsaka bæði Joe Grimson og mál Eggerts bæjarfógeta í öreindir. Sjálf hafði ég gefið út Heiðina í mars 2021, ein og óstudd, og það hlaðvarp sló sömuleiðis í gegn svo ég vissi vel út í hvað ég var að fara og þekkti hvað þetta er þakklát framleiðsla þegar vandað er til verka. Hins vegar voru viðbrögðin gríðarlega sterk og miklar umræður um þær sögur sem við sögðum og gátum ekki séð fyrir sem er bara æðislegt.“
Talið berst aftur að ferðalagi fjögurra manna fjölskyldu til Búdapest. Þegar Snærós er spurð að því hvort það sé ekki mikið mál að rífa fjögurra manna fjölskyldu upp með rótum og flytja úr landi?
„Já auðvitað er það heilmikið mál. Við Freyr fórum í brúðkaupsferð til Búdapest 2016 og aftur í kelerísferð í janúar 2020 svo við þekkjum borgina vel. Ungverjaland er hins vegar með mjög ólíkt málkerfi og þetta var því ekkert auðveld ákvörðun en við erum mjög bjartsýn og spennt fyrir flutningunum.“
Hvernig hefur þú undirbúið þetta?
„Með miklu skipulagi og séríslenskri framhleypni. Við ákváðum strax að leigja okkur almennilega og flotta íbúð í góðu hverfi og það reyndist í raun minnsta hindrunin. Við vorum heppin. Þegar það var frágengið tók við að hafa upp á netföngum skólastjóra og leikskólastjóra í hverfinu, óska eftir því að þær stofnanir taki við stelpunum, og þræla sér í gegnum hvert ungverska eyðublaðið á fætur öðru til að ganga frá skráningum á rétta deild, skrá í skólamat og þýða námsmat dætranna yfir á ungversku svo þeirra námsferill héðan fylgi þeim. Það er svona lærdómskúrvan. Svo eru það skemmtilegu smáatriðin sem er gaman að pæla í, eins og hvaða markaður er bestur til að kaupa rauðvín af nærliggjandi vínekru á krana, hvar við fáum bestu kjörin á góðum ostum, hvar Freyr getur komist inn í vikulegan bumbubolta og hversu margar brekkur þarf að hjóla á leiðinni í skólann minn. Punkturinn yfir I-ið er svo stóra IKEA-sendingin sem við erum búin að undirbúa að komi í nýju íbúðina þegar við mætum út. Við settum saman stóran óskalista á ungversku IKEA-síðunni og mættum svo í verslunina hér og prófuðum rúmdýnur, borðstofustóla, vínglös og kodda til að vera viss um að allt væri vel valið og gott. Að umbreyta íbúð í heimili er klárlega mest spennandi verkefnið framundan og við erum full tilhlökkunar að bjóða fólkinu okkar héðan og nýjum vinum úti í heimsókn,“ segir hún.
Hvað drífur þig áfram í lífinu?
„Tilhlökkun. Hún er algjör frumkraftur hjá mér. Ég verð alltaf að hafa eitthvað að hlakka til og lifi lífinu svolítið með því að stikla á milli ævintýra og áfanga. Mér leiðist alveg hræðilega þegar ég er komin á þann stað að vera hætt að læra og þá veit ég að kominn er tími til að takast á við næsta verkefni eða nýja staði. Þægindahringurinn er leiðinlegasti staður jarðar. Bermúdaþríhyrningur ástríðunnar.“
Hvar verður þú stödd eftir 10 ár?
„Erfið spurning og ómögulegt að svara henni af einhverri sannfæringu. Það er ekkert leyndarmál að ég er metnaðargjörn og stefni eins hátt og ég mögulega kemst. Hin fullkomna staða fyrir mig inniber mikið frelsi, umtalsverðan sveigjanleika og mörg en fjölbreytt verkefni. Við stefnum smátt og smátt að stofnun eigin fyrirtækis sem býður fólki góða þjálfun í framkomu í fjölmiðlum og samskipum við fjölmiðlafólk og heitir „Good Question“. Það er aldrei að vita hvaða sproti vex svo út úr því hliðarverkefni. Ég sé fyrir mér að framtíðin inniberi ferðalög, sjálfstæði og sköpun,“ segir Snærós bjartsýn og full tilhlökkunar.