Fyrstu niðurstöður landmælinga sem gerðar voru við Öskjuvatn í gær gefa til kynna að landris haldi áfram við eldstöðina. Þá er hallinn frá miðju orðinn meiri.
Fyrstu niðurstöður landmælinga sem gerðar voru við Öskjuvatn í gær gefa til kynna að landris haldi áfram við eldstöðina. Þá er hallinn frá miðju orðinn meiri.
Fyrstu niðurstöður landmælinga sem gerðar voru við Öskjuvatn í gær gefa til kynna að landris haldi áfram við eldstöðina. Þá er hallinn frá miðju orðinn meiri.
Erik Sturkell, prófessor í jarðeðlisfræði við háskólann í Gautaborg, segist hafa beðið eftir því að landris mældist við Öskju frá árinu 1998. Hann var því glaður þegar landris hófst haustið 2021 en hann hefur stundað mælingar á landrisi og halla við Öskjuvatn og Heklu síðan 1998.
„Það var alltaf að síga og kvikuhólfið að dragast saman og svo, allt í einu, fór loksins að mælast landris,“ segir Erik í samtali við blaðamann sem fékk að fylgja honum eftir í árlegum mælingum í Bátshrauni við Öskjuvatn í gær. Gleðin leyndi sér ekki hjá Erik, sem talar af ástríðu um Öskju.
Erik var ekki búinn að reikna nákvæmlega hversu mikið landrisið væri milli ára né hversu mikið hallinn hefði aukist, en hann sagði skýrt af fyrstu niðurstöðum að þróunin væri sú sama. Hallinn eykst frá vestri til austurs.
Yfirborðsmælingarnar sem Erik framkvæmir ásamt eiginkonu sinni og frænda í Bátshrauni eru mikilvægar og niðurstöður þeirra, ásamt gervihnattamyndum og INSAR-myndum, gefa skýrari heildarmynd af því sem gerist undir niðri.
Spurður hvort hann teldi að kvika væri að færast nær yfirborðinu sagðist hann ekki geta sagt til um það, en eitthvað væri augljóslega að gerast undir niðri og mælingarnar sýndu að kvikuhólfið væri að þenjast aftur út.
„Það verður eldgos hérna aftur. Við vitum bara ekki hvenær það gerist eða hvernig gos það verður,“ segir Erik. Hraungos eru algengust í kringum Öskju en ef það gýs undir vatninu þá gæti orðið sprengigos. Síðast gaus við Öskju árið 1961 og þá var það hraungos. Fjöldi smærri eldgosa varð á þriðja áratug síðustu aldar en síðasta sprengigos varð árið 1875 og olli mikilli eyðileggingu í nærsveitum eldstöðvarinnar.
Melissa Anne Pfeiffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar hjá Veðurstofu Íslands, var einnig við mælingar í gær. Með henni í för var Michelle Maree Parks eldfjallafræðingur og gáfu þær sér tíma við störf sín til að svala forvitni blaðamanns og ljósmyndara Morgunblaðsins sem fylgdu þeim niður að Víti.
„Meginmarkmiðið hér er að taka gasmælingar við vatnið og mæla samsetningu gasanna,“ segir Melissa. Hiti vatnsins í Víti var í gær um 27 gráður en Veðurstofu Íslands barst nýlega ábending um skammlífan strók við Öskju sem gæti verið merki um aukna gufuvirkni.
Melissa og Michelle gáfu lítið fyrir þær skýringar, svo margt annað gæti skýrt hvað strókurinn sást vel þennan tiltekna dag, þar á meðal veðurfar og aðstæður.
Þegar niður að Víti var komið reyndist erfitt að finna nægilega gufuvirkni til að mæla gasið og sagði Melissa að brennisteinslyktin væri mun minni en oft áður. Einnig að sjaldan hefði verið svo erfitt að finna almennilega holu til að mæla gösin.
Sýnin sem þær safna fara til Háskóla Íslands, sem sér um að greina samsetningu gasanna. Þær niðurstöður geta gefið til kynna hvort aukin virkni sé við Víti.
Ekki er unnt að koma fyrir mælum sem geta sent gögn til Veðurstofunnar til að fylgjast með hita og gasi við Víti í rauntíma, meðal annars vegna þess að gögnin eru stór og flókin og dýrt þykir að senda þau.