Hvernig er hægt að meðhöndla reið börn?

Hvernig er hægt að meðhöndla reið börn?

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér svar­ar hún bréfi frá móður sem hefur áhyggjur af skapi sonar síns. 

Hvernig er hægt að meðhöndla reið börn?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur | 18. ágúst 2023

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda. Ljósmynd/Samsett

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér svar­ar hún bréfi frá móður sem hefur áhyggjur af skapi sonar síns. 

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér svar­ar hún bréfi frá móður sem hefur áhyggjur af skapi sonar síns. 

Sæl     

Strákurinn minn sem er 8 ára er með mikið skap og hefur verið að glíma við reiðivanda, heima, í skólanum og á fótboltaæfingu. Ertu með einhver ráð fyrir okkur núna áður en rútínan fer aftur af stað?

Kveðja, 

buguð móðir 

Sæl.

Takk fyrir þessa spurningu.

Fyrst og fremst er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem koma að barni sem missir oft stjórn á skapi sínu stjórni sínum eigin tilfinningum, samhliða tilfinningum barnsins. Sumir geta upplifað reiði eða gremju. En mikilvægt er að reyna að halda ró sinni og hvorki gera né segja neitt sem kann að auka á reiði barnsins eða verða til þess að auka vandann. Mikilvægt er að bregðast við barninu á þann hátt að það virki róandi á það.

Ég mæli með því að skrá niður í hvaða aðstæðum reiðiköstin koma fram og hver viðbrögð þín og annarra eru við þeim. En það hjálpar þér að skoða mynstrið í reiðiviðbrögðum barnsins. Með því er hægt að undirbúa viðbrögð, draga úr og/eða koma í veg fyrir reiðiköstin og bera kennsl á kveikjur óæskilegrar hegðunar. Þegar þú veist hvenær líklegt er að barnið reiðist, þá getur þú rætt við barnið áður en það fer af stað í verkefnið/aðstæðurnar eða gert aðrar ráðstafanir.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga þegar horft er til óæskilegrar hegðunar:

  • Gerist þetta á ákveðnum tímum dagsins eða þegar barnið er með ákveðnum einstaklingum?
  • Hegðar barnið sér á ákveðinn hátt sem gefur til kynna að reiðikast sé í vændum?
  • Hvað gerist rétt á undan reiðikasti?
  • Hver eru viðbrögð annarra?

Skráningarformið gæti e.t.v. litið svona út:

Nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga til þess að þjálfa barn í reiðistjórnun fyrir foreldra og aðra fullorðna sem koma að barninu á einn eða annan hátt.

  • Vera jákvæðar fyrirmyndir í öllum aðstæðum
  • Ekki taka því sem barnið segir persónulega.
  • Tala einslega við barnið, á rólegum nótum, þegar það hefur náð ró.
  • Leita lausna með barninu.
  • Fylgjast með barninu og bregðast fljótt við.
  • Gera viðbragðsáætlun í sameiningu.
  • Þegar barnið hefur náð sjálfsstjórn eftir reiðikast er gott að fara yfir hvað gerðist.
  • Kenna barninu slökunaræfingar. Reitt barn er spennt barn.
  • Veita barni sem á erfitt með nám stuðning.
  • Gott er fyrir kennara/stuðningsaðila að leggja sig fram um að mynda sérstök tengsl við barnið.
  • Hjálpa barninu að leysa úr árekstrum við önnur börn.
  • Minniháttar reiðiköst er best að hunsa eins og hægt er. Varast ber að barnið fái jákvæða athygli eða umbun fyrir óæskilega hegðun.
  • Veita skal jákvæðri hegðun mikla athygli og beina athygli barnsins að því sem vel er gert.

Hér koma ýmis ráð fyrir strákinn þinn til þess að ná stjórn á reiðinni:

Í staðinn fyrir að bregðast strax við því sem reitir þig til reiði, er betra að þú reynir að ná stjórn á tilfinningum þínum. Það getur þú gert í fjórum þrepum:

  1. Stopp! Ímyndaðu þér t.d. rauð aðvörunarljós eða að þú hafir frosið í sömu fótsporunum.
  2. Andaðu djúpt og teldu hægt upp að tíu. Það róar hugann svo þú getur metið aðstæður á yfirvegaðri hátt.
  3. Hugasaðu þig um. Spyrðu sjálfan þig t.d. hvað einhver ári eldri en þú myndir gera. Ef þig langar að slá einhvern eða segja eitthvað sem þú sérð eftir seinna, skaltu hugsa um hvaða afleiðingar það gæti haft. Segðu við sjálfa/n þig: „Ég get stjórnað reiðinni“.
  4. Gerðu það sem þú telur réttast. Bestu valkostirnir eru að segja hinum hvernig þér líður, ganga í burtu eða sækja hjálp. Ef þér er strítt getur þú t.d. sagt ákveðið „Hættu“. „Hættu að uppnefna mig“. Ef þér er strítt er best að ganga í burtu og getur þú sagt við sjálfan þig: „Ég get stjórnað sjálfri/sjálfum mér“. Ef ég uppnefni ekki aðra til baka er það ég sem stjórna.

Æfðu þig í að nota þessar aðferðir til þess að ná stjórn á aðstæðum. Segðu oft við sjálfa/þig: Þegar þú ert róleg/ur:

  • Ég get fundið þegar ég er að verða reið/ur .
  • Ég get munað eftir að telja upp að tíu og að anda djúpt.
  • Ég get fundið fyrir reiðinni, en samt haft sjórn á mér.
  • Ég get rætt málin við aðra, án þess að allt fari í uppnám.

Þegar þú lendir í árekstrum:

  • Ég finn að ég er að verða reið/ur.
  • Ég ætla að telja hægt upp að tíu.
  • Ég man eftir að draga andann djúpt.
  • Ég ætla að ganga í burtu ef hægt er.
  • Mér tekst þetta oft ágætlega.

Eftir að þú lendir í árekstrum:

  • Ég gat haft stjórn á mér án þess að springa.
  • Ég mundi eftir að nota aðferðirnar sem ég er búin/n að læra.
  • Það er frábær tilfinning að geta haft stjórn á eigin reiði.
  • Ég er stolt/ur af sjálfri/sjálfum mér fyrir að geta haft stjórn á mér.

Ef þér hefur ekki tekist að hafa stjórn á aðstæðum skaltu segja við sjálfan þig að næst muni þér ganga betur. Þú getur hugsað um atburðarásina og ímyndað þér hvernig þú hegðir geta brugðist við á jákvæðan hátt.

Segðu við sjálfan þig:

  • Ég missti stjórn á mér og mér þykir það leitt.
  • Næst ætla ég að muna hvað ég á að gera þegar ég lendi í árekstrum.
  • Ég ætla að bregðast öðruvísi við.
  • Ég ætla að stoppa, róa mig niður og hugsa áður en ég bregst við.
  • Ég get (að minnsta kosti stundum) stjórnað minni eigin reiði.

Einnig mæli ég með eftirfarandi bókum:

Kær kveðja, 

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is