Þarf að stelast til að hitta fjölskylduna svo kærastan verði ekki óhress

Þarf að stelast til að hitta fjölskylduna svo kærastan verði ekki óhress

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá aðstandanda manns sem þarf að stelast til að hitta fjölskyldu sína því annars verður kærastan óhress. 

Þarf að stelast til að hitta fjölskylduna svo kærastan verði ekki óhress

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur | 20. ágúst 2023

Tinna Rut Torfadóttir svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Samsett

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá aðstandanda manns sem þarf að stelast til að hitta fjölskyldu sína því annars verður kærastan óhress. 

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá aðstandanda manns sem þarf að stelast til að hitta fjölskyldu sína því annars verður kærastan óhress. 

Hæ,

hvernig hjálpar maður aðila til að sjá að hann sé í sambandi þar sem hinn aðilinn er stjórnsamur og með andlegt ofbeldi?

Þetta er gagnkynhneigt samband og konan er ólétt. Hún stjórnar öllu. Hann er farinn að útiloka fjölskyldu og vini og eyðir öllum tímanum sínum með henni eða til að vinna verkefni sem hún hefur sett fyrir. Auðvitað er eðlilegt að eyða tíma með maka en hann þorir ekki að fara og hitta fjölskyldu og vini því hún verður pirruð. Hann hefur alltaf verið í miklu og góðu sambandi við bestu vini sína og alla fjölskylduna þangað til núna. Hún hefur látið frá sér alls konar skítakomment um fjölskyldu hans, vini og hann sjálfan sem hann virðist ekki sjá sjálfur.

Hann segist vera ástfanginn.

Þetta brýtur hjartað í okkur sem aðstandendur og við vitum ekki hvað við eigum að gera. Hann hefur „stolist“ að hitta okkur en bara í stuttan tíma þegar hún sjálf er upptekin og hann drífur sig alltaf heim eða vill ekki að staðsetningin hans sjáist þegar hann hittir okkur svo hún verði ekki pirruð. Við höfum reynt að ná til hans eftir því sem þetta hefur versnað með því að spyrja hvernig honum líður með hitt og þetta en hann afsakar hana alltaf og við erum orðin hrædd um það að hann haldi að hún muni ekki leyfa honum að hitta ófædda barnið sitt ef hann segir eitthvað við hana sem gæti endað í sambandssliti (þó að við vitum það ekki en höfum öll velt því fyrir okkur).

Hvað getum við sem aðstandendur gert til að hjálpa honum í þessum aðstæðum? Er eitthvað sem við getum gert til að hjálpa honum að sjá þetta og hvernig fer maður í svona vant með farið mál? Eða eigum við bara að bíða og vona og leyfa honum að glata fjölskyldutengslum og nokkra tuga gömlum vinasamböndum?

Kveðja, 

áhyggjufullur aðstandandi

Takk fyrir þessa spurningu.

Lýsing þín hljómar einmitt, eins og þú segir, að maðurinn sé í andlegu ofbeldissambandi. En andlegt ofbeldi felur í sér hótanir, niðurlægingu, óvelkomið og yfirþyrmandi eftirlit eins og með endalausum skilaboðum, auðmýkingu, ógnun, einangrun og/eða ofsóknum.

Birtingarmynd andlegs ofbeldis getur birst á eftirfarandi hátt:

  • Að uppnefna þig og gera lítið úr þér.
  • Að öskra á þig.
  • Að niðurlægja þig viljandi fyrir framan aðra.
  • Að koma í veg fyrir að þú hittir eða talir við vini þína eða fjölskyldumeðlimi.
  • Að segja þér í hverju þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér.
  • Að eyðileggja eigur þínar í bræðiskasti (henda hlutum, kýla í vegg, sparka í hurð o.sfrv.).
  • Að notast við samfélagsmiðla eða síma til að stjórna þér, ógna eða niðurlægja.
  • Að nota hegðun þína sem afsökun fyrir ofbeldi eða óheilbrigðri hegðun.
  • Að saka þig um framhjáhald og fyllast afbrýðissemi yfir samskiptum þínum við annað fólk.
  • Að ofsækja þig.
  • Að hóta að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir ákveðna hegðun, eins og til dæmis að þú slítir sambandinu.
  • Að hóta að skaða þig, gæludýrið þitt eða fólk sem þér er annt um.
  • Að láta þig efast um upplifanir þínar og tilfinningar þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að ímynda þér ofbeldið sem þú verður fyrir.
  • Að þrýsta á þig að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með því að láta þig fá samviskubit eða saka þig um barnaskap þegar þú vilt ekki gera eitthvað.
  • Að hóta að opinbera einkamál þín, svo sem kynhneigð eða heimilisaðstæður.
  • Að hóta að dreifa viðkvæmum myndum af þér á netinu.
  • Að dreifa ljótum sögum um þig.

Andlegt ofbeldi í samböndum veldur tilfinningalegum skaða og sárum, ofbeldið getur orðið það slæmt að þolandinn fer að trúa því sem maki hans segir og fer að efast um eigin upplifanir. Það getur bent til þess að gerandinn sé að gaslýsa þolandann. Gaslýsing getur verið mjög dulin, en er jafnframt mjög alvarleg birtingarmynd andlegs ofbeldis. Þeir sem beita gaslýsingu grafa undan veruleika annarra manneskju með því að afneita staðreyndum og tilfinningum hennar í þeim tilgangi að ná stjórn á manneskjunni. Sá sem verður fyrir gaslýsingu getur t.d. farið að efast um sitt eigið ágæti, t.d. upplifa að hann sé einskins virði og ómöguleg manneskja. Einnig gæti viðkomandi upplifað sig áttavilltan, ringlaðan, átt erfitt með að taka ákvarðanir og traust á eigið innsýni getur farið dvínandi. Það getur reynst þolandanum erfitt að átta sig á því að hann sé að verða fyrir gaslýsingu.

Þess vegna er mikilvægt að þið sem standið honum næst reynið að nálgast hann og ræða við hann á rólegum og góðum nótum um áhyggjur ykkar. Ef það er t.d. einhver í ykkar fjölskyldu sem nær vel til hans og myndi treysta sér til þess að hitta hann í góðu tómi yfir t.d. kaffibolla eða í bíltúr og ræða þessar áhyggjur ykkar af honum þá myndi ég eindregið mæla því. Jafnvel ræða við hann um helstu einkenni andlegs ofbeldis í samböndum og hvernig gaslýsing birtist. Þessa umræðu gæti þurft að endurtaka nokkrum sinnum við hann, sérstaklega ef hann er alveg blindur á stöðu sína eins og mér heyrist hann vera miðað við þínar lýsingar. En hann er heppinn að eiga fjölskyldu sem er eins vakandi og meðvituð um hans stöðu og þið eruð, því andlegt ofbeldi getur verið mjög falið. Mínar ráðleggingar til ykkar er að halda áfram samskiptum við hann, halda sambandinu, reyna að skapa samverustundir með honum einum og einnig honum og maka hans, kíkja í heimsókn heim til hans. Ef þið dragið ykkur til hlés og minnkið samskipti við hann, þá er það í raun maki hans sem stjórnar.

Einnig er hægt að taka umræðu við hann um að hvað einkennir heilbrigð sambönd. Í heilbrigðum samböndum er heinskilni og traust undirstöðuatriði. Fyrsta skrefið í að byggja upp gott samband er að skilja þarfir og væntingar hvors annars, því er mikilvægt að einstaklingarnir tali saman. Að setja mörk er góð leið til þess að skapa heilbrigt og öruggt samband. Einnig er mikilvægt að hugsa um hvernig maður vill láta koma fram við sig og hlusta á það hvernig makinn vill láta koma fram við sig. Ef par ræðir mörkin sín þá eru auknar líkur á því að parið átti sig betur á því hvernig sambandi þau eru að sækjast eftir. Mikilvægt er að hafa í huga að mörk eru EKKI gerð í þeim tilgangi að hefta einstaklingana eða láta þá líða eins og þeir þurfi að tipla á tánum í kringum hinn einstaklinginn. Að setja mörk þýðir EKKI að maður vantreysti hinum, heldur þveröfugt. Mörk segja til um það sem manni líður vel með og hvernig maður vill að komið sé fram við mann. Mjög mikilvægt er að muna að mörk eiga ekki að koma í veg fyrir neitt af eftirfarandi:

  • Að einstaklingurinn skemmti sér eða verji tíma með fjölskyldu og vinum.
  • Að einstaklingurinn rækti áhugamálin sín.
  • Að komið sé fram við einstaklinginn af virðingu og tekið tillit til hans þarfa og skoðanna.

Ef til vill gæti honum finnst óþægilegt eða erfitt að ræða þetta við ykkur fjölskylduna sína og sömuleiðis gæti ykkur finnst erfitt að ræða þetta við hann, þá væri hægt að benda honum á ýmis samtök sem hann gæti leitað til, eða hvetja hann til þess að ræða við fagaðila, eins og t.d. félagsráðgjafa hjá sínu sveitarfélagi eða leita til sálfræðings á stofu. Það er alltaf gott að spegla vangaveltur sínar við aðra, sérstaklega þegar maður er ekki alveg viss hvort manns upplifun sé rétt.

Einnig langar mig til þess að benda þér á nokkur samtök  sem hægt er að leita til:

Bjarkarhlíð (bjarkarhlid.is). Bjarkarhlíð býður upp á viðtöl og ráðgjöf fyrir þolendur ofbeldis af ýmsum toga. Auk Bjarkarhlíðar eru á staðnum lögregla og lögfræðingur. Öll þjónusta Bjarkarhlíðar er á forsendum þolenda og þeim að kostnaðarlausu.

Meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum (heimilisfridur.is)

Hjá Heimilisfrið er veitt meðferð fyrir fólk sem beitir ofbeldi í nánum samböndum. Hjá Heimilisfriði starfar fagfólk með sérþekkingu á ofbeldismálum. Um er að ræða einstaklingsmeðferð og hópmeðferð auk þess sem parameðferð er stundum í boði að undangengninni einstaklingsmeðferð. Viðtalið þar kostar 3000 kr.

Gangi ykkur öllum sem allra best,

Kveðja,

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is