Séra Svavar Alfreð fékk óvenjulega afmælisgjöf

Barnabörn | 3. september 2023

Séra Svavar Alfreð fékk óvenjulega afmælisgjöf

Séra Svavar Alfreð er maður margra titla. Hann er meðal annars fyrrverandi sóknarprestur í Akureyrarprestakalli, eiginmaður og þriggja barna faðir, áhugaljósmyndari, rithöfundur, útivistarmaður og matgæðingur. Ofan á þetta varð hann svo afi á dögunum þegar yngsta dóttir hans eignaðist barn. Svavar Alfreð fékk það mikilvæga verkefni að skíra fyrsta barnabarn sitt, en stúlkubarnið sem á hug og hjörtu ömmu sinnar og afa hlaut nafnið Lea Karitas. 

Séra Svavar Alfreð fékk óvenjulega afmælisgjöf

Barnabörn | 3. september 2023

Mía, dóttir Séra Svavar Alfreðs og Bryndísar, útskrifaðist frá Háskólanum …
Mía, dóttir Séra Svavar Alfreðs og Bryndísar, útskrifaðist frá Háskólanum í Breda hinn 12. júlí síðastliðinn, tæpum tveimur vikum eftir fæðingu frumburðar síns. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Séra Svavar Alfreð er maður margra titla. Hann er meðal annars fyrrverandi sóknarprestur í Akureyrarprestakalli, eiginmaður og þriggja barna faðir, áhugaljósmyndari, rithöfundur, útivistarmaður og matgæðingur. Ofan á þetta varð hann svo afi á dögunum þegar yngsta dóttir hans eignaðist barn. Svavar Alfreð fékk það mikilvæga verkefni að skíra fyrsta barnabarn sitt, en stúlkubarnið sem á hug og hjörtu ömmu sinnar og afa hlaut nafnið Lea Karitas. 

Séra Svavar Alfreð er maður margra titla. Hann er meðal annars fyrrverandi sóknarprestur í Akureyrarprestakalli, eiginmaður og þriggja barna faðir, áhugaljósmyndari, rithöfundur, útivistarmaður og matgæðingur. Ofan á þetta varð hann svo afi á dögunum þegar yngsta dóttir hans eignaðist barn. Svavar Alfreð fékk það mikilvæga verkefni að skíra fyrsta barnabarn sitt, en stúlkubarnið sem á hug og hjörtu ömmu sinnar og afa hlaut nafnið Lea Karitas. 

Árið í ár hefur einkennst af jákvæðum breytingum, en ásamt afahlutverkinu sagði Séra Svavar Alfreð skilið við stöðu sína sem sóknarprestur í Akureyrarprestakalli eftir 23 ár. Í dag er hann starfandi prestur á Sjúkrahúsinu á Akureyri. 

Ómetanleg afmælisgjöf

Svavar Alfreð er kvæntur Bryndísi Björnsdóttur, skólastjóra Naustaskóla, og fagna þau hjónin 40 ára rúbínbrúðkaupi sínu um þessar mundir. „Börnin okkar þrjú eru; Björn Ingi, Sunna og Hildur Emelía, sem hóf að kalla sig Míu þegar hún var pínulítil stúlka þar sem hún réði ekki við að bera fram nafnið sitt,“ segir Svavar Alfreð, en Mía er móðir Leu Karitasar. 

Mæðgurnar.
Mæðgurnar. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

„Yngsta barnið okkar, hún Mía, er búsett í Hollandi. Á afmælisdaginn minn, hinn 29. október síðastliðinn, hringdi hún í konu mína snemma morguns og bað hana um að halda mér innandyra því hún hyggðist senda mér dálítið í tilefni dagsins. 

Stuttu fyrir hádegið hringdi sendill frá blómabúð hér í bæ dyrabjöllunni og afhenti okkur hjónunum tvo fallega pakka. Ég opnaði annan pakkann og í honum var kaffikrús sem á stóð stórum stöfum „yndisleg amma“. 

Ég sagði við konu mína að nú hefði ég opnað vitlausan pakka,“ segir Svavar Alfreð og hlær. 

„Fjóla, tengdamamma mín, hefði sennilega átt að fá þessa krús, en við eigum sama afmælisdag. Ekki var því um annað að ræða en að opna hinn pakkann líka. Í honum var alveg eins krús með áletruninni „yndislegur afi“.

Við hjónin skildum ekkert í þessu og hringdum í Míu. „Heldur þú að þau hafi kannski eitthvað ruglast þarna í blómabúðinni?“ spurði konan. „Nei, mamma“ var svarað. „Þetta eru réttar krúsir. Þið fáið þessa titla næsta sumar ef allt gengur að óskum,“ sagði Mía við foreldra sína í símann, en Svavar Alfreð og Bryndís grétu af gleði yfir fregnunum enda tókst Míu að koma foreldrum sínum skemmtilega á óvart á þessum góða degi. 

Grobbinn á skírnardaginn

Þar sem yngsta dóttir hjónanna er búsett í Hollandi ásamt manni sínum, Kenson, þá reiddu Svavar Alfreð og Bryndís sig reglulega á síma- og tölvusamskipti til þess að fylgjast með meðgöngunni. 

„Við fengum reglulega fréttir af meðgöngunni, bæði frá Míu og manninum hennar, Kenson. Því er ekki að neita að oft hafði maður áhyggjur og fannst ekki gott að vera langt í burtu frá dóttur sinni þegar svo stór atburður var í vændum,“ segir Svavar Alfreð. 

Söguhetjan, Lea Karitas.
Söguhetjan, Lea Karitas. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Afastelpa Svavars Alfreðs fæddist í borginni Breda í Hollandi, en nóttin sem stúlkan kom í heiminn var afa og ömmu á Íslandi afar eftirminnileg. „Ég gleymi ekki nóttinni þegar afastelpan kom í heiminn. Mía eignaðist hana úti í Hollandi en hringdi reglulega í okkur þegar hún var komin á sjúkrahúsið. Allt gekk vel og ég náði að sofna en vaknaði við að Bryndís hnippti í mig. 

Þegar ég opnaði augun hélt hún símanum yfir mér og við blasti yndisleg, vær og splunkuný afastelpa,“ segir Svavar Alfreð. 

Stúlkan fæddist hinn 1. júlí síðastliðinn og voru Svavar Alfreð og Bryndís mætt út til hennar og nýbökuðu foreldranna, Míu og Kenson, í Breda aðeins þremur dögum síðar. „Við áttum dásemdardaga með Leu Karitas, Míu, Kenson, foreldrum hans og fleiri fjölskyldumeðlimum, þar á meðal Sunnu móðursystur, litlu dömunnar, sem flaug út með okkur,“ segir Svavar Alfreð. 

Séra Svavar Alfreð skírði fyrsta barnabarnið á heimili Míu og …
Séra Svavar Alfreð skírði fyrsta barnabarnið á heimili Míu og Kenson í Breda, Hollandi. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

„Kenson er frá eyjunni Aruba í Karíbahafi. Lea Karitas á því uppruna á eyjum langt suður og norður í höfum. „Góðar rætur sækja vítt til fanga,“ segir skáldið Heiðrekur Guðmundsson í einu ljóða sinna og erum við hjónin sammála um að þótt við hefðum gert ráð fyrir að ömmu- og afastelpan yrði fallegasta barn í heimi hafi hún farið langt fram úr þeim vonum,“ segir afinn montinn. 

Kærkomið augnablik.
Kærkomið augnablik. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Sunna gat ekki verið með fjölskyldunni nema í örfáa daga og var því ákveðið að skíra stúlkuna áður en frænka þyrfti að halda heim til Íslands. „Það var ógleymanleg athöfn og presturinn sem embættaði alveg ægilega grobbinn,“ segir Svavar Alfreð og hlær. 

Er að læra að bera afatitilinn

Svavar Alfreð gerði sér ekki grein fyrir því hvað það er mikil upplifun að verða afi. „Það er mjög líkt því og að verða pabbi og hvort tveggja eitt það alstærsta sem maður verður fyrir,“ segir hann. „Afatitillinn er svo nýr að ég er enn að átta mig á honum, máta mig við hann og læra að bera hann. Öll reynsla breytir manni,“ segir nýbakaði afinn. 

Svavar Alfreð er með góðar fyrirmyndir þegar kemur að afahlutverkinu, en afar hans voru einstakar menn. „Afar mínir tveir sem ég kynntist, sá þriðji var fallinn frá þegar ég fæddist, voru alveg einstakir. Þeir verða mér fyrirmyndir í afahlutverkinu og vonandi tekst mér jafnvel upp í því og þeim,“ segir Svavar Alfreð, sem heitir í höfuðið á tveimur af þremur öfum sínum. 

Bryndís amma og Sunna, móðursystir og guðmóðir, tóku vart augun …
Bryndís amma og Sunna, móðursystir og guðmóðir, tóku vart augun af Leu Karitas, enda stjarna fjölskyldunnar. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

„Svavar afi vann í Slippnum og þvoði sér í hendurnar með ræstidufti þegar hann kom heim úr vinnunni. Eitt sinn kom hann rennandi blautur þaðan því hann féll í sjóinn þegar hann var að laga bát. Ég man að amma mín, Emelía, skammaði hann því afar eru óskaplega dýrmætir og verða að passa sig vel. 

Alli afi vann undir kirkjutröppunum og hellti þar lýsi á flöskur fyrir apótek kaupfélagsins milli þess sem hann var í sendiferðum um miðbæinn með verk- og vindeyðandi og aðrar sendingar. Hann átti aldrei bíl en stundum leiddi hann mig inn í Fjöru, heim til sín og ömmu eftir vinnu. Á leiðinni keyptum við okkur horn og kringlur í bakaríi KEA. Í Aðalstrætinu beið amma Bára og bar okkur sönglandi heitt og sykrað kafi sem afi sötraði af undirskál sitjandi á dívaninum sínum við borðendann.

Afar sem skilja eftir sig slíkar minningar hljóta að hafa verið meðal þeirra albestu. Ég vildi óska þess að afabörnin mín eignist þannig afaminningar,“ segir Svavar Alfreð. 

Hlakkar til að segja henni sögur

Þessar síðustu vikur með Leu Karitas hafa minnt Svavar Alfreð óneitanlega á uppvaxtarár barna sinna, sem hann segir besta tíma ævinnar. „Þetta var oft og tíðum erfiður og annasamur tími og uppfullur af alls konar áhyggjum, en líka töfrandi, hlýr og hamingjuríkur,“ segir afinn. 

„Ég veit að Mía og Kenson munu upplifa það sama og við Bryndís gerðum. Afi og amma uppi á Íslandi verða bakhjarlar, alltaf til staðar og láta að sér kveða eftir þörfum.“

Afi Patrik, amma Aura, Kenson með Leu Karitas í fanginu …
Afi Patrik, amma Aura, Kenson með Leu Karitas í fanginu og afi Kennedy. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Lea Karitas minnir afa sinn á móður hennar og systkini. „Lea Karitas hefur svo sannarlega erft margt frá mömmu sinni. Ég sé líka svip frá systkinum hennar og ömmu Bryndísi. Mér er líka sagt að ekki leyni sér að ég sé afi hennar, þó er hún með sterkan svip frá föðurfólkinu sínu. Pabbi hennar á sennilega efra andlitið og þar er ekki leiðum að líkjast,“ útskýrir afinn. 

Svavar Alfreð hlakkar til komandi stunda og að fylgjast með stúlkunni vaxa og dafna. „Ég hlakka til að lesa með Leu Karitas, biðja með henni kvöldbænirnar, segja henni sögur, raula fyrir hana, halda með henni jól, leiða hana um lystigarða Breda og Akureyrar, elda fyrir hana pasta og kaupa handa henni ís,“ segir hann að lokum. 

Líklega á afinn einnig eftir að fara með afastelpuna sína á knattspyrnuleiki hjá KA og Crystal Palace, enda gallharður stuðningsmaður beggja. 

mbl.is