Greipur Hjaltason er landanum vel kunnur enda frábær uppistandari og sér á parti þegar kemur að skopskyni og frásagnarstíl. Greipur hlaut Íslandsmeistaratitil í uppistandi árið 2020 og hefur frá þeim tíma slegið í gegn með gamansömum myndskeiðum á samfélagsmiðlum. Húmoristinn er stoltur tveggja barna faðir, en Greipur tók nýverið á móti sínu öðru barni ásamt kærustu sinni Aþenu Ýr og er parið að læra á lífið og hversdagsleikann sem vísitölufjölskylda.
Greipur Hjaltason er landanum vel kunnur enda frábær uppistandari og sér á parti þegar kemur að skopskyni og frásagnarstíl. Greipur hlaut Íslandsmeistaratitil í uppistandi árið 2020 og hefur frá þeim tíma slegið í gegn með gamansömum myndskeiðum á samfélagsmiðlum. Húmoristinn er stoltur tveggja barna faðir, en Greipur tók nýverið á móti sínu öðru barni ásamt kærustu sinni Aþenu Ýr og er parið að læra á lífið og hversdagsleikann sem vísitölufjölskylda.
Greipur Hjaltason er landanum vel kunnur enda frábær uppistandari og sér á parti þegar kemur að skopskyni og frásagnarstíl. Greipur hlaut Íslandsmeistaratitil í uppistandi árið 2020 og hefur frá þeim tíma slegið í gegn með gamansömum myndskeiðum á samfélagsmiðlum. Húmoristinn er stoltur tveggja barna faðir, en Greipur tók nýverið á móti sínu öðru barni ásamt kærustu sinni Aþenu Ýr og er parið að læra á lífið og hversdagsleikann sem vísitölufjölskylda.
Uppistandarinn er óhræddur við að segja hlutina eins og þeir eru og hefur það reynst honum vel. Greipur hefur nælt sér í tæplega 400.000 fylgjendur á TikTok sem dýrka orðapúslin, sniðugheitin og að sjálfsögðu pabbabrandarana sem hann setur saman.
Hvernig leið þér þegar þú fréttir að þú værir að verða faðir?
„Æj, ég veit það bara ekki. Jú, gaman!
Ég var að sjálfsögðu spenntur en fann líka fyrir stressi þegar ég frétti af því í fyrra skiptið. Núna er ég orðinn gamall og þaulreyndur þannig að þegar ég heyrði af barni númer tvö var ég bara sallarólegur og hugsaði með mér: Ég ætla ekkert að skera einhverja fína ávaxtabita handa þessu barni, hún fær bara pizzuafganga,“ segir Greipur og hlær.
„Meðgöngurnar voru rosalega svipaðar upplifanir,“ segir uppistandarinn. „Það sem gerði þetta kannski aðeins erfiðara í seinna skiptið er að við vorum með tveggja ára krakka hlaupandi út um allt.
Ég og Aþena vorum minna stressuð fyrir fæðingunni núna enda búin að ganga í gegnum þetta áður, en svo bara fæddist þetta „nýja litla kvikindi“ og ég var ekki alveg að skilja þetta svona fyrst um sinn. Hvernig átti ég bara að elska þetta „gerpi“ eins og hitt? En svo bara elskaði ég það,“ segir Greipur með sínum sérstæða húmor.
„Það sem kom mér mest á óvart við föðurhlutverkið var án efa aðlögunarhæfnin. Eftir tvo eða þrjá daga var sem maður hefði alltaf verið í þessu hlutverki, hlutverki föðursins,“ segir Greipur. Hann og Aþena eiga tveggja ára gamlan son, Magnús, sem birtist reglulega í myndskeiðum föður síns á samfélagsmiðlum, og þriggja vikna gamla dóttur sem er ennþá nafnlaus, en hjónin hafa verið í smá vandræðum með að finna rétta nafnið á hárprúðu stúlkuna.
„Sko, ég varð bara pabbi, en er samt sami vitleysingurinn og áður en ég átti börn,“ segir Greipur. „Það sem kom mér einnig heilmikið á óvart við að verða farðir var hvað ég elska börnin mín sjúklega mikið. Auðvitað átti ég von á því að elska þessi „litlu gerpi“, en mér datt ekki í hug af hvaða skala,“ segir hann.
Greipur var konu sinni innan handar á fæðingarstofunni í bæði skiptin og segist sjálfur hafa haft vit á því að sitja og þegja. Uppistandarinn horfði bara á fótboltaleika í símanum þegar hjónin tóku á móti syni sínum enda á hliðarlínunni. „Ég var með eitt verkefni, að láta ekki líða yfir mig þegar „stóra stundin“ rann upp. Maður hefur heyrt nokkrar sögurnar af verðandi feðrum sem falla í yfirlið í fæðingunni.
Ég er svo stór maður. Ég hefði bara drepist hefði ég dottið þarna niður og þá hefðu allir þurft að sinna mér í stað fæðandi konunnar,“ segir Greipur, sem tók verkefninu háalvarlega. „Ég fékk að vísu eitt annað verkefni sem var að ýta á kallhnappinn ef við Aþena þyrftum á faglegri hjálp að halda, sem við jú, þurftum.
Við tókum eftir lækkun í súrefnismettun hjá barninu í móðurkviði og þá að sjálfsögðu ýtti ég á takkann eins og mér hafði verið ráðlagt að gera, en enginn kom. Ég ýtti aftur og enginn kom. Ég ýtti einu sinni enn og þá mætti öll deildin eins og hún lagði sig. Við þurftum ekki alveg þetta marga heilbrigðisstarfsmenn, en eftir þetta gekk fæðingin eins og í sögu,“ segir uppistandarinn. „Ég klippti á naflastrenginn, var ekki hrifinn af því en gerði það samt.“
Greipur segir fæðingu dóttur sinnar mjög svipaða Magnúsar en að starfsfólk fæðingardeildarinnar hafi dreift sér betur á fleiri stofur í þetta sinn. „Það voru þúsund manns inni á fæðingarstofunni þegar Magnús kom í heiminn en núna voru bara tvær ljósmæður með okkur,“ segir hann.
Mæður og feður gangast ekki undir hæfnispróf áður en þau taka að sér þetta mikla ábyrgðarhlutverk, en flest taka stórt þroskaskref þegar barn kemur í heiminn og í þeirra umsjón. Sjálfur segist Greipur vera verk í vinnslu þegar kemur að því að mannast en að föðurhlutverkið hafi hjálpað eitthvað.
„Það fer alveg eftir því hvern þú spyrð. Konan mín myndi án efa segja nei. En jú, maður þarf að fullorðnast þegar maður er kominn með svona ábyrgð, þetta er annars stigs dæmi. Ég er byrjaður að gera fleiri fullorðinshluti, þannig að ég hlýt að hafa þroskast eitthvað,“ segir hann og hlær.
„Nú sæki ég til dagmömmu, fer með börn í þetta margra mánaða skoðun og fleira í stað þess að sitja á afturendanum og spila tölvuleiki,“ segir Greipur.
Margir segja mikla breytingu felast í því að fara úr einu barni yfir í tvö. Það þarf að undirbúa verðandi eldra systkinið sem Greipur leyfði konu sinni alfarið að tækla en margir hafa lýst upplifuninni frá einu barni yfir í tvo sem gæludýr yfir í dýragarð. „Aþena var mjög dugleg að undirbúa breytinguna, þá að undirbúa Magnús. Ég hlustaði ekkert á hana, en ég veit svo sem ekekrt hvað náði í gegn hjá þessum litla tveggja ára manni,“ segir Greipur.
Hvernig hefur Magnús tekið nýja fjölskyldumeðlimnum?
„Magnús var nýhættur á brjósti þegar hún fæddist og þegar hann sá nýjan leigjanda á brjóstinu var hann ekki par sáttur,“ segir hann. Núna þegar nokkrar vikur eru liðnar er hann bara hálfhlutlaus. Hann klappar henni kannski eina stundina en stelur svo af henni snuddunni þá næstu. Hann er að „laumusnuddast“ og nýtur sín alveg að þykjast vera ungabarn. Ekki skrýtið, dásamleg tilvera!
Það er einhver öfundsýki í gangi en hann er búinn að standa sig mjög vel,“ segir Greipur. „Hún hefur einnig tæklað þessar fyrstu vikur lífs síns af mikilli snilld. Rosalega góð, alveg fullkomin,“ segir pabbinn um börnin.
Þar sem uppistand getur reynst fallvaltur bransi, eins og flest annað skapandi, hefur Greipur starfað sem leiðbeinandi á frístundaheimilinu Glaðheimar síðastliðin átta ár enda ungæðisleg orka og galsi sem býr í honum og birtist gjarnan í spauginu hans.
Hefur húmorinn breyst eftir að þú varðst faðir?
„Margir sögðu að ég fengi óteljandi hugmyndir af góðum bröndurum um leið og ég yrði faðir, enda væru börnin brandarinn. Ég hef ekki fundið fyrir því ennþá. Ég sýni börnin í myndskeiðunum sem ég birti á samfélagsmiðlum en mér finnst húmorinn minn samur og áður en ég varð pabbi.
Ég er auðvitað kominn með aðra innsýn á lífið, en ég veit það ekki. Vonandi ekki, ég var nefnilega svo ofboðslega fyndinn áður en þessi börn mín fæddust, grín!
Eða jú, húmorinn hefur aðeins versnað,“ segir uppistandarinn og hlær. Sjálfur hefur Greipur neglt niður stórskemmtilegan skopstíl með vott af aulahúmor sem er klassískur í pabbabröndurum sem við höfum öll án efa heyrt oftar en einu sinni á lífsleiðinni.
Áttu þér uppáhalds pabbabrandara?
„Ég er alltaf að segja brandara og orðagrín sem flokkast ábyggilega sem pabbagrín, þetta augljósa og vitlausa. Sjálfur segi ég nokkra á dag en þeir eiga heima í augnablikinu sem þeir gerast, það eru bestu pabbabrandararnir, pabbarnir eru án efa sammála mér þar,“ segir hann.
„Ef ég myndi segja pabbabrandara hér og nú myndu þeir hljóma ömurlega en ef þú hefðir verið á staðnum í fæðingu væru alveg tíu prósent af þeim ágætir,“ segir Greipur, sem er þónokkuð viss um að börnin og fjölskyldulífið eigi eftir að reynast uppspretta góðra brandara. „Það ætla ég að vona, að þessi börn mín verði ekki það leiðinleg að ég geti ekki fengið neinar hugmyndir eða sögur.“
Húmoristinn viðurkennir að föðurhlutverkið hafi breytt lífi sínu til hins betra en að það sé enginn dans á rósum enda séu börn kröfuharðir kúnnar. „Fyrstu mánuðirnir eru auðvitað mjög erfiðir, svefnleysi foreldranna og svefnrútína barnanna er vandasamt verkefni að leysa. En börn eru óvitar og það er krefjandi að þurfa að vakta þau allan sólarhringinn, þú ert sjálfstætt starfandi Securitas-vörður á eigin heimili,“ segir hann.
„Flestallt sem maður þarf að gera fyrstu árin hljómar ömurlega, passa einhvern polla sem gerir ekkert annað en að kúka á sig og kafna á öllum smáhlutum sem hann kemst í,“ segir Greipur.
„Og ef það er ekkert til að gleypa þá er bara reynt að kroppa upp næstu klessu sem hann sér hvort sem það er tyggjóklessa á bílastæðaplani eða fuglaskítur á sólpallinum hans afa. Þá, sem ábyrgt foreldri, verður maður stressað og fer að spyrja sig: Var tyggjóklessan út úr einhverjum róna eða var salmonella í mávaskítnum? En slíkt stress hverfur um leið og krakkinn dettur á hausinn, þá byrjar maður strax að pæla í heilaskemmdum,“ segir Greipur.
Hvað er skemmtilegast við að vera faðir?
„Bara að sjá börnin vaxa úr grasi, skemmta sér, leika og hlæja. Það er líka dásamlega skemmtilegt að fá frí frá börnunum, það er yndislegur hluti af því að vera foreldri. Þegar þau fara eina nótt til ömmu og afa,“ segir grínistinn.
Hvað er leiðinlegast við að vera faðir?
„Það er þegar sonur minn vill fara í risaeðluleik klukkan 03:00 að nóttu til. Ég nenni því ekkert sérstaklega. Það er mjög gaman á daginn en ég er enginn leikfélagi á nóttunni,“ segir Greipur.
Ertu með ráð fyrir verðandi feður?
„Bara að reyna að hafa gaman af þessari vitleysu. Þetta á eftir að endast stutt. Húsið þitt verður í rúst í einhvern tíma og þegar börnin eldast og flytja út þá áttu eftir að sakna þess að hafa húsið í rúst og byrjar bara að drasla til sjálfur,“ segir Greipur að lokum.