María Reynisdóttir, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, er fróðleiksfús að eðlisfari en hún kom þó sjálfri sér nokkuð á óvart þegar hún ákvað að skella sér í meistaranám í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Námskeið við Endurmenntun LBHÍ kveikti neistann.
María Reynisdóttir, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, er fróðleiksfús að eðlisfari en hún kom þó sjálfri sér nokkuð á óvart þegar hún ákvað að skella sér í meistaranám í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Námskeið við Endurmenntun LBHÍ kveikti neistann.
María Reynisdóttir, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, er fróðleiksfús að eðlisfari en hún kom þó sjálfri sér nokkuð á óvart þegar hún ákvað að skella sér í meistaranám í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Námskeið við Endurmenntun LBHÍ kveikti neistann.
María tók námskeiðið Skipulagsaðferðir til þess að styrkja sig í starfi en hún hefur starfað sem sérfræðingur í ferðamálum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Á hennar borð hafa stundum komið verkefni sem tengjast skipulagsmálum. „Námskeiðið fjallaði um hvað skipulag er og til hvers, hvað skipulagsáætlanir eru, hvernig mismunandi skipulagsstig tengjast og hvernig skipulagsferlið gengur fyrir sig samkvæmt lögum. Þetta var mjög gott yfirlit yfir skipulagsmálin,“ segir María.
„Á þessu námskeiði opnaðist má segja nýr heimur fyrir mér. Í gegnum umræður í tímum komst ég að því hvað þetta er fjölbreytt og áhugavert svið. Skipulagsfræðin er mjög þverfagleg en hún tengist m.a. arkitektúr, verkfræði, landfræði, hagfræði og sálfræði. Það heillaði mig ekki síður hve mikla þýðingu hún hefur fyrir mótun samfélagsins og umhverfisins sem við búum, störfum og leikum í. Skipulag hefur t.d. áhrif á það hvort við getum gengið eða hjólað í vinnuna eða út í búð, hvaða útivistarmöguleikar eru í nærumhverfi okkar, hvernig upplifun okkar er af ferðamannastöðum sem við heimsækjum og svo mætti áfram telja. Skipulag er að mörgu leyti grunnurinn að lífsgæðum okkar. Mér líkaði þetta námskeið það vel og leist svo vel á tilhögun námsins þegar ég kynnti mér það, að ég skráði mig í MS í Skipulagsfræði, meðfram vinnu.“
„Ég hef alltaf verið fróðleiksfús og þrífst í umhverfi þar sem ég er sífellt að læra eitthvað nýtt. Ég hafði leitt hugann að því að bæta einhverju við mig á næstu árum, þá kannski helst með stöku námskeiðum í gegnum endurmenntun eða einhvers konar styttra nám, en að ég skuli hafa byrjað í öðru meistaranámi kom sjálfri mér svolítið á óvart!“
Er það stórt skref að skrá sig í nám þegar maður er kannski búinn að koma sér ágætlega fyrir í lífinu?
„Já, svolítið. Maður spyr sig stundum hvað maður er að hugsa að leggja þetta á sig, svona þegar börnin manns eru orðin sjálfstæðari og fjölskyldulífið rétt farið að róast aðeins, af hverju að fórna þeim aukna frítíma sem skapast í meiri vinnu sem námsmaður? Frítíma sem gæti annars farið t.d. í líkamsrækt, ferðalög eða félagslíf. Maður þarf vissulega að segja oftar nei við svoleiðis hlutum, sem getur verið leiðinlegt. En þá minni ég mig á að þetta er tímabundið ástand, sem auðgar lífið á endanum. Það er hressandi að hrista aðeins upp í hausnum á sér og í raun ekkert galinn tími til þess að gera það einmitt þegar margt í lífinu er komið í fastari skorður.“
„Ég er markaðsfræðingur í grunninn og með meistaragráðu í ferðamálafræði. Bæði þessi fög, eins og svo mörg önnur, hafa snertiflöt við skipulagsfræðina. Þar sem skipulagsfræðin er svo þverfagleg grein þá held ég að það sé kostur að hafa bakgrunn í öðru og geta tengt fögin saman. Ef maður horfir á stóru myndina þá hugsa ég að skipulagsfræðin sem akademískt fag verði líka öflugri þegar þekking fólks kemur saman úr ólíkum áttum.
Að þessu sögðu þá var það að fara í þetta nám ekki útpælt hjá mér frekar en fyrra nám heldur kom það til af fremur óvæntum áhuga. Ég held að allt nám sé gott í sjálfu sér, það þroskar mann, en eins og afi minn heitinn sagði þá er sjálfur tilgangur lífsins þroski og ég fæ að gera hans orð að mínum.“
Er öðruvísi að vera í háskólanámi núna miðað við áður?
„Það er vissulega aðeins öðruvísi. Það eru fleiri hlutir að keppa um tíma og athygli manns núna, eins og fjölskyldan og vinnan. En eins og á fyrri námsárum þá hefst þetta með góðri skipulagningu og hæfilegum sjálfsaga. Skilningsrík fjölskylda og vinnuveitandi hjálpa líka til. Annað sem er öðruvísi er að maður sinnir náminu með minna samfelldum hætti. En á móti kemur að maður býr að starfsreynslu sem nýtist í náminu þannig að maður fær á vissan hátt meira út úr því og stundar það jafnvel af meiri áhuga en ella, vegna þess. Enn annað sem ég get nefnt er tæknin sem hefur breyst mikið frá því að ég stundaði nám síðast, t.d. er frábært að geta sótt tíma og jafnvel klárað heilu námskeiðin í gegnum fjarkennslu.“
Hvað hefur námið gert fyrir þig persónulega?
„Mér finnst það hafa víkkað sjóndeildarhringinn, strax á þetta skömmum tíma, svo ég hlakka til að halda áfram! Það eflir líka á vissan hátt sjálfstraustið að finna að maður getur tileinkað sér nýja þekkingu jafn vel og áður. Ég kom sjálfri mér t.d. á óvart á námskeiði í landupplýsingakerfum á síðustu önn þar sem ég var farin að teikna upp alls konar kort og gera ýmsa útreikninga í gegnum ákveðið forrit sem ég hafði ekki einu sinni heyrt um áður. Þetta var alveg nýtt fyrir mér og nú lít ég allt öðrum augum á þema landakortin sem maður sér t.d. oft í fréttum, nú þegar ég hef fengið innsýn inn í vinnuna á bak við þau.“
Ertu farin að pæla meira í skipulagi almennt?
„Já algjörlega. Ég, eins og eflaust fleiri, var ekki alveg klár á því hvað skipulagsfræði væri og þýðingu hennar fyrir samfélagsþróun. Orðið skipulagsfræði hljómar frekar þurrt og í opinberri umræðu koma skipulagsmál gjarnan fyrir sem dálítið þung í vöfum. En flestir hafa skoðanir á skipulagsmálum, sérstaklega þegar þau varða breytingar á nærumhverfinu t.d. vegna nýbygginga innan hverfa eða breytinga á samgönguinnviðum. Eða mál sem eru mikið í umræðunni eins og virkjanamál, Borgarlínan, Reykjavíkurflugvöllur og uppbygging ferðaþjónustu á hálendinu. Mjög mörg mál eru nefnilega skipulagsmál og nú finnst mér ég sjá þau alls staðar! Óneitanlega tek ég líka meira eftir hlutum í umhverfinu sem ég tók kannski ekki eftir áður. Velti fyrir mér hvers konar umhverfi mér líður vel í og hvers konar umhverfi mér líður síður vel í, og hvað það er í skipulaginu sem getur valdið því.“
Hvernig er framtíðin?
„Hún er sannarlega björt fyrir skipulagsfræðinga en maður skynjar að það er vöntun á fólki með þessa þekkingu. Áskoranir í samfélaginu og umhverfinu virðast verða sífellt fleiri og flóknari og skipulagsfræðin getur skipt miklu máli við að mæta þeim. Í því samhengi má nefna hraða fólksfjölgun hér á landi og skort á húsnæði sem því fylgir, þróun atvinnuvega eins og ferðaþjónustu og fiskeldi þar sem gæta þarf jafnvægis milli nýtingar og verndar náttúruauðlinda, og loftslagsmálin sem þarf að taka mið af við skipulagsgerð, bæði til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að aðlagast loftslagsbreytingum. Land er takmörkuð auðlind, samkeppni um landnotkun eykst og henni tengjast oft miklir og ólíkir hagsmunir, svo það er klárlega spennandi framtíð í þessu fagi. Ég vona að framtíð mín sé björt líka. Ég er sem stendur í tímabundnum vistaskiptum hjá Skipulagsstofnun og skemmtilegt að kynnast starfseminni þar. Hvert námið leiðir mig mögulega á endanum kemur svo bara í ljós.“