Útgjöld til utanríkismála dragast saman um rúmlega 1,9 milljarða að nafnvirði á næsta ári samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi, en það samsvarar lækkun upp á 11,4% á föstu verðlagi. Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því stóran hluta af þessari lækkun má rekja til þess að ekki er gert ráð fyrir framlagi í uppbyggingarsjóð EES.
Útgjöld til utanríkismála dragast saman um rúmlega 1,9 milljarða að nafnvirði á næsta ári samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi, en það samsvarar lækkun upp á 11,4% á föstu verðlagi. Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því stóran hluta af þessari lækkun má rekja til þess að ekki er gert ráð fyrir framlagi í uppbyggingarsjóð EES.
Útgjöld til utanríkismála dragast saman um rúmlega 1,9 milljarða að nafnvirði á næsta ári samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi, en það samsvarar lækkun upp á 11,4% á föstu verðlagi. Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því stóran hluta af þessari lækkun má rekja til þess að ekki er gert ráð fyrir framlagi í uppbyggingarsjóð EES.
Enn standa yfir viðræður um framlög Íslands í sjóðinn samkvæmt nýju sjóðstímabili og gæti þessi kostnaður því komist inn í fjárlögin síðar.
Samtals eru útgjöld utanríkisráðuneytisins samkvæmt fjárlögum 15,73 milljarðar á næsta ári, en til samanburðar er það svipuð upphæð á nafnvirði og fór í málaflokkinn árið 2022 og um eins milljarða lækkun frá því á fjárlögum í ár.
Utanríkismálum er skipt í fjóra undirmálaflokka í fjárlögunum, en það eru; Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála, utanríkisviðskipti, samstarf um öryggis- og varnarmál og samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs.
Framlög til utanríkisþjónustu og stjórnsýslu utanríkismála lækka örlítið að nafnverði milli ára, en lækkunin nemur 534 milljónum á föstu verðlagi milli ára. Er heildarupphæð samkvæmt fjárlögum nú 7,1 milljarður.
Framlög til utanríkisviðskipta hækka hins vegar um 200 milljónir eða 20,2% á nafnvirði. Fram kemur í frumvarpinu að þetta sé í samræmi við áætlaða hækkun tekna ríkisins af markaðsgjaldi í fjárlögum, en samkvæmt lögum um Íslandsstofu skal fjárveiting til stofnunarinnar aldrei vera lægri en sem nemur markaðsgjaldi.
Framlag í flokkinn samstarf um öryggis og varnarmál hækkar um 400 milljónir, eða 8,4% að nafnvirði. Nemur það 58 milljónum á föstu verðlagi, en heildarútgjöldin í þennan undirflokk nema samtals 4.836 milljónum.
Undir þetta heyra meðal annars framlög til Nato, í norrænt varnarsamstarf, samvinnu á vettvangi NB8-ríkjanna, sameiginlegu viðbragðssveitarinnar JEF og í tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Þá heyra líka undir þennan flokk fjölþáttaógnir, en þar er horft til netöryggisatvika sem eiga uppruna sinn frá erlendum ríkjum.
Í þessum undirflokki er meðal annars að finna 750 milljóna stuðning við Úkraínu, líkt og á núverandi ári. Hins vegar fellur niður 130 milljóna kostnaður sem kom til á þessu ári til að flýta framkvæmdum við gistiskála á varnarsvæðinu. Þá hækka útgjöld um 400 milljónir vegna áforma um hærri framlög í tengslum við þátttöku Íslands í alþjóðlegum samvinnuverkefnum á sviði fjölþáttaógna.
Þá er sérstaklega tekið fram að 130 milljónir muni fara í að hefja uppsetningu á öruggum samskiptarýmum og búnaði því tengdu í sendiskrifstofum Íslands, en þar er átt við sendiráð Íslands erlendis.
Að lokum lækkar framlag í fjórða og síðasta flokknum, samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs, um tæplega 1,6 milljarða. Skýrist það aðallega af því að framlag í uppbyggingarsjóð EES er fellt niður, en það nam 1,7 milljarði. Segir í frumvarpinu að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um áætluð framlög þegar gengið var frá frumvarpinu.
mbl.is spurðist fyrir um það hvort gert væri ráð fyrir framlögum í þennan málaflokk áfram eða hvort líklegt væri að hann myndi falla niður að fullu og þátttöku Íslands þar af leiðandi væri lokið í Uppbyggingarsjóðnum. Af svarinu að dæma standa viðræður um næsta sjóðstímabil yfir og mætti því ætla að áfram verði einhver framlög í þennan málaflokk, hvort sem þau verði svipuð milli ára, aukin eða minnkuð. Þá fékkst jafnframt staðfest að ekki sé horft til þess að hætta þátttöku í sjóðinum.
„Lækkun fjárheimilda málaflokksins 04.50 Samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs um 1.683,9 m.kr milli ára skýrist af óvissu um áætluð framlög Íslands til Uppbyggingarsjóðs EES, þar til ný áætlun sjóðsins liggur fyrir. Viðræður EFTA-ríkjanna í EES við ESB um nýtt sjóðstímabil Uppbyggingarsjóðs EES standa yfir. Eðli málsins samkvæmt getur utanríkisráðuneytið ekki veitt frekari upplýsingar um upphæð framlaga Íslands til Uppbyggingarsjóðs EES, fyrr en samkomulag um nýtt sjóðstímabil liggur fyrir,“ segir í svari ráðuneytisins.