Fangaskiptum fagnað en varnaglar slegnir

Íran | 18. september 2023

Fangaskiptum fagnað en varnaglar slegnir

Joe Biden Bandaríkjaforseti kveðst fagna því að fangaskiptum hafi verið náð við óvinaríkið Íran í dag, þegar flogið var með fimm Bandaríkjamenn út úr Persaflóaríkinu á sama tíma og jafnmörgum Írönum var sleppt úr haldi í Bandaríkjunum.

Fangaskiptum fagnað en varnaglar slegnir

Íran | 18. september 2023

Forseti Bandaríkjanna fagnar fangaskiptunum sem gerð voru í dag.
Forseti Bandaríkjanna fagnar fangaskiptunum sem gerð voru í dag. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti kveðst fagna því að fangaskiptum hafi verið náð við óvinaríkið Íran í dag, þegar flogið var með fimm Bandaríkjamenn út úr Persaflóaríkinu á sama tíma og jafnmörgum Írönum var sleppt úr haldi í Bandaríkjunum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti kveðst fagna því að fangaskiptum hafi verið náð við óvinaríkið Íran í dag, þegar flogið var með fimm Bandaríkjamenn út úr Persaflóaríkinu á sama tíma og jafnmörgum Írönum var sleppt úr haldi í Bandaríkjunum.

Sex milljarðar bandaríkjadala í eigu íranska ríkisins, sem bandarísk stjórnvöld höfðu lagt hald á, voru einnig leystir úr fjötrum sínum.

Í yfirlýsingu kveðst Biden munu halda áfram að láta Íran gjalda fyrir „ögrandi“ aðgerðir sínar og tilkynnti nýjar refsiaðgerðir gagnvart fyrrverandi forsetanum Mahmoud Ahmadinejad og leyniþjónusturáðuneyti Írans.

Engin linkind

„Á meðan við fögnum því að þessir Bandaríkjamenn fái aftur snúið, þá minnumst við einnig þeirra sem ekki auðnaðist endurkoma,“ segir í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu.

Stjórnvöld vestanhafs fullyrða að í þessum gjörningi felist þó engin linkind við Íran, sem í Washington er talið vera það ríki heimsins sem mest styður við hryðjuverk.

„Stundum, í alþjóðasamskiptum, þá færðu það sem þú getur fengið,“ sagði John Kirby, talsmaður bandaríska þjóðaröryggisráðsins, í samtali við sjónvarpsfréttastofu CNN í dag þegar flogið hafði verið af stað með fangana.

Ekki peningar skattgreiðenda

Blaðamenn þar vestra hafa enn fremur eftir háttsettum heimildarmanni innan stjórnkerfisins að ríkisstjórnin vilji að ekkert fari á milli mála um fangaskiptin. Milljarðarnir sex séu ekki eiginlegt lausnargjald og að Íran megi aðeins nota féð til að afla sér matar eða mannúðaraðstoðar.

Repúblikanar hafa enda þegar hafist handa við að gagnrýna það sem fram fór í dag. 

„Þetta eru ekki peningar skattgreiðanda. Þetta er ekki greiðsla af neinu tagi,“ segir embættismaðurinn.

mbl.is