Færri einkabílar á götunum í dag

Strætó | 22. september 2023

Færri einkabílar á götunum í dag

Margir nýttu sér þjónustu Strætó í morgun og segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, að vagnstjórar fyrirtækisins hafi tekið eftir mun færri einkabílum á götunum.

Færri einkabílar á götunum í dag

Strætó | 22. september 2023

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir vagnstjóra hafa tekið eftir …
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir vagnstjóra hafa tekið eftir færri bílum á götunum í morgun. Samsett mynd/Eggert/Strætó

Margir nýttu sér þjónustu Strætó í morgun og segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, að vagnstjórar fyrirtækisins hafi tekið eftir mun færri einkabílum á götunum.

Margir nýttu sér þjónustu Strætó í morgun og segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, að vagnstjórar fyrirtækisins hafi tekið eftir mun færri einkabílum á götunum.

Bíllausi dagurinn er í dag og af því tilefni er frítt í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og með landsbyggðarstrætó. Fólk er hvatt til að hvíla einkabílinn og nota fjölbreytta og vistvæna ferðamáta. Dagurinn er hluti af Evrópsku samgönguvikunni sem hófst á laugardag.

Strætó hvetur fólk til þess að kynna sér möguleika þess að ferðast um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina með strætó. Um leið og fleiri nýta sér ferðir vagnanna léttir á umferð og meiri áreiðanleiki næst í strætókerfið. 

„Fólk er þá annaðhvort að vinna heima eða nýta sér góða veðrið og hjóla,“ segir Jóhannes sem er ekki með tölu á því hvort farþegar í vögnunum hafi verið fleiri í dag en aðra daga. 

Hann segir markmiðið með deginum að fá fólk til að kynna sér möguleika þess að ferðast um höfuðborgarsvæðið og landið allt með strætó. 

Flýtigjöld þekkt í mörgum löndum

Aðspurður segist Jóhannes hafa talað fyrir flýtigjöldum, sem eru hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Flýtigjald er gjald sem tekið er af tiltekinni ferð eða umferð og gjöldin nýtt til að flýta framkvæmdum sem annars gætu tekið lengri tíma. 

Áætlað var að leggja umferðar- og flýtigjöld á höfuðborgarsvæðið árið 2022, en ekkert hefur orðið úr þeim áformum. 

„Það er hluti af því að reyna að fá fólk til að vera ekki að keyra á einkabílnum niðri í miðbæ. Draga þannig bæði úr mengun og hávaða og hvetja fólk til að nota aðra möguleika,“ segir Jóhannes og nefnir sem dæmi að gjöld sem þessi séu þekkt í mörgum löndum og að þau séu að verða sífellt algengari. 

„Erum þokkalega stundvís“

Hvað hefur þú að segja um gagnrýni á Strætó varðandi áreiðanleika?

„Ég get alveg tekið undir það að á háannatíma, þegar vagninn er fastur í umferð, þá nær hann ekki að halda tímaáætlun. Þess vegna eru þessar sérakreinar mikilvægar, sem eru náttúrulega komnar á nokkrum stöðum og framtíðarhugmyndir um að þær verði víðar.

Við erum þokkalega stundvís. Það er bara þannig,“ segir Jóhannes og bætir við að gagnrýnin sé gríðarlega mikilvæg. 

Hann bendir þó á að um leið og fleiri fari að nýta sér ferðir Strætó þá létti á umferðinni og þá verði einfaldara að halda tímaáætlun. Með því má ná áreiðanleika í Strætókerfið, sem Jóhannes segir mjög mikilvægt.  

mbl.is