Eykur nýtt ruslaflokkunarkerfi samverustundir fjölskyldunnar?

Marta María | 23. september 2023

Eykur nýtt ruslaflokkunarkerfi samverustundir fjölskyldunnar?

Mömmusamviskubit og pabbasamviskubit er eitthvað sem oft er til umræðu í íslensku samfélagi og flest fólk, sem hefur fjölgað sér, kannast líklega við það. Samveran þarf að fá 10 í einkunn og best er ef hún kostar ekki peninga. Hér verður þó ekki rætt um verðbólgu og hækkandi matvöruverð.

Eykur nýtt ruslaflokkunarkerfi samverustundir fjölskyldunnar?

Marta María | 23. september 2023

Hvaða áhrif hefur nýtt ruslaflokkunarkerfi á líf fólks?
Hvaða áhrif hefur nýtt ruslaflokkunarkerfi á líf fólks? Unsplash/Wesley Tingey

Mömmusamviskubit og pabbasamviskubit er eitthvað sem oft er til umræðu í íslensku samfélagi og flest fólk, sem hefur fjölgað sér, kannast líklega við það. Samveran þarf að fá 10 í einkunn og best er ef hún kostar ekki peninga. Hér verður þó ekki rætt um verðbólgu og hækkandi matvöruverð.

Mömmusamviskubit og pabbasamviskubit er eitthvað sem oft er til umræðu í íslensku samfélagi og flest fólk, sem hefur fjölgað sér, kannast líklega við það. Samveran þarf að fá 10 í einkunn og best er ef hún kostar ekki peninga. Hér verður þó ekki rætt um verðbólgu og hækkandi matvöruverð.

Þegar börn eru lítil er samveran krúttleg og gefandi en þegar fjársjóðurinn eldist getur málið vandast. Ísbúðarferðir og nammiát hættir til dæmis að vera spennandi og barnið vill frekar láta millifæra á sig fyrir próteindufti. Þá þarf rót vandans, foreldrið sjálft, að bregðast við og reyna að virkja eigið hugvit til þess að eiga heillaríkar samverustundir með barninu sínu. Jafnvel þótt barnið sé orðið dimmraddað og stærra en þú.

Nýtt ruslaflokkunarkerfi kom reyndar eins og himnasending inn í líf bugaðra unglingaforeldra. Það kallar nefnilega á mun meiri samveru og samræður en gert var ráð fyrir í kostnaðaráætlun.

Unglingurinn hendir kannski skyrdós í ruslið sem ekki er búið að skola að innan og ef foreldrið ætlar ekki að verja öllum frítíma sínum og klípa af svefntímanum, til að róta í heimilissorpinu, vaska það upp, þurrka og setja á réttan stað, þarf að kenna ungmenninu helstu reglur er málið varðar. Einhver kannast kannski við frasann „Æi mamma ...“ þegar farið er yfir flokkun á heimilissorpi.

Þegar unglingurinn byrjar setningu á „Æi mamma ...“ er gott að grípa boltann strax og segja að mamma hafi bara ekkert með þetta að gera. Þetta sé allt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í Reykjavík að kenna. Alltaf að nota þennan frasa þótt fólk búi í Garðabæ, Kópavogi eða á Akureyri. Hann hafi komið þessu kerfi á. Það má reyndar líka nota hann sem grýlu ef afkvæmið óskar eftir því að eignast systkini. Þá þarf að hryggja barnið með því að það verði líklega alltaf einkabarn. Dagmömmum hafi snarfækkað og biðlistinn eftir leikskólaplássi sé svo langur að foreldrarnir verði komnir úr barneign eða jafnvel á elliheimili þegar ástandið verði komið í lag.

Aftur að ruslaflokkunarkerfinu.

Ef foreldrið vill taka ruslaflokkunardæmið skrefi lengra, og ala barnið upp í leiðinni, þá kemur tiltekt í ísskáp sterk inn. Óvönduðu foreldrarnir, sem stelast til að kaupa tilbúnar sósur og aðrar matvörur í plastumbúðum sem innihalda mikið af repjuolíu og E-efnum, geta átt sérlega gott mót í þessum aðstæðum. Fæstir henda þessum matvörum nema þær séu löngu útrunnar og nánast það úldnar að þær séu farnar að labba sjálfar. Aðgerðin að opna myglaðar sósur og skola þær að innan áður en þær fara í plasttunnuna kalla eiginlega á grímu með plastskildi og heilgalla. Ekki ósvipað og heilbrigðisstarfsfólk klæddist þegar það meðhöndlaði sjúklinga sem voru sýktir af kórónuveirunni. Auk þess gæti fólk misst matarlystina ævilangt á ákveðnum matvörum. Sem gæti hugsanlega verið kostur en líka ókostur því löðrandi píta með E-efnabættri sósu er eitthvað sem erfitt er að standast.

Þegar barnið hefur misst matarlystina og er búið að læra á ruslaflokkunarkerfið gæti myndast tómarúm í samverustundum fjölskyldunnar. Þá gæti verið sniðugt að kenna barninu að elda fisk og sjóða kartöflur. Búa til pítusósu frá grunni án E-efna og repjuolíu, sjóða hrísgrjón og útbúa hafragraut sem kúrir inni í ísskáp yfir nóttina.

Ef ske kynni að það væru ennþá nokkur göt í samverudagatali fjölskyldunnar þegar barnið er búið að læra að flokka ruslið og elda þá gætu foreldrar tekið að sér að bera út Morgunblaðið með afkvæminu. Það tekur um það bil klukkutíma ef tveir eða fleiri taka sig til og þarf blaðið að vera komið til lesenda fyrir klukkan sjö á morgnana. Þannig gæti barnið lært að peningar verða ekki til þegar þeir ferðast með Aur-appinu og allir fá eplakinnar í leiðinni. Ef þú vilt taka þetta skrefinu lengra þá getur þú sent tölvupóst á dreifing@postdreifing.is.

Áfram við!

mbl.is