Salvör Eyþórsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn nýverið með sambýlismanni sínum Óla Ólafssyni, en þau höfðu reynt að eignast barn í rúmlega tvö ár. Parið flaug til Taílands undir lok síðasta árs í kærkomið frí eftir fráfall föður Salvarar og var það hinn 1. desember í fyrra sem þau komust að því að lítill leynifarþegi var með í för. Hárprúð stúlka fæddist parinu í síðasta mánuði og er Salvör á fullu að læra á lífið sem móðir enda nýr raunveruleiki tekinn við.
Salvör Eyþórsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn nýverið með sambýlismanni sínum Óla Ólafssyni, en þau höfðu reynt að eignast barn í rúmlega tvö ár. Parið flaug til Taílands undir lok síðasta árs í kærkomið frí eftir fráfall föður Salvarar og var það hinn 1. desember í fyrra sem þau komust að því að lítill leynifarþegi var með í för. Hárprúð stúlka fæddist parinu í síðasta mánuði og er Salvör á fullu að læra á lífið sem móðir enda nýr raunveruleiki tekinn við.
Salvör Eyþórsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn nýverið með sambýlismanni sínum Óla Ólafssyni, en þau höfðu reynt að eignast barn í rúmlega tvö ár. Parið flaug til Taílands undir lok síðasta árs í kærkomið frí eftir fráfall föður Salvarar og var það hinn 1. desember í fyrra sem þau komust að því að lítill leynifarþegi var með í för. Hárprúð stúlka fæddist parinu í síðasta mánuði og er Salvör á fullu að læra á lífið sem móðir enda nýr raunveruleiki tekinn við.
Ásamt því að sinna móðurhlutverkinu að mikilli natni er hin 27 ára gamla Salvör að bæta við menntun sína sem íþróttafræðingur, en hún hefur verið að sérhæfa sig í þjálfun kvenna á meðgöngu og eftir fæðingu enda jókst áhugi hennar á kvenlíkamanum og hreysti á meðgöngunni.
Óléttan reyndist Salvöru óvænt en yndisleg gjöf en hún hafði nýverið misst föður sinn og var þetta því erfiður tími í lífi hennar og fjölskyldunnar. Faðir Salvarar, Eyþór Baldursson flugstjóri, var bráðkvaddur hinn 10. október 2022. Hún segir það sérstaka upplifun að hafa komist að því að hún væri barnshafandi en að það hafi komið sér mjög svo á óvart.
„Þetta var ólýsanleg og ógleymanleg stund,“ segir Salvör um augnablikið þegar hún komst að því að væri barnshafandi. „Og það skemmtilega er að ég tók upp eigin viðbrögð þegar ég komst að þessu þar sem ég fann á mér að eitthvað væri í gangi.“ Salvör deildi hjartnæma augnablikinu með fylgjendum sínum á Instagram.
„Ég var stödd í fríi ásamt kærastanum mínum í Taílandi, en þangað héldum við stuttu eftir að faðir minn lést til þess að komast í annað umhverfi og reyna að slappa aðeins af,“ útskýrir hún.
„Við höfðum reynst að eignast barn í rúmlega tvö ár en það gekk mjög brösuglega og tók sinn toll á okkur. Það var svo hinn 1. desember í fyrra, umvafin fegurð Taílands, að ég vakna um morguninn og byrja að leggja saman tvo og tvo. Ég var búin að upplifa ýmis einkenni síðastliðna daga án þess að átta mig almennilega á þeim,“ segir Salvör.
„Í fluginu frá Danmörku til Bangkok, sem tók heilar 13 klukkustundir, þurfti ég mjög reglulega að nota salernið og mun oftar en ég er vön. Ég sat í gluggasæti, Óli í miðjusætinu og mjög þreytt kona við ganginn sem ég þurfti því miður að vekja oftar en einu sinni, tvisvar og þrisvar þar sem ég þurfti endalaust að komast á salernið. Þetta urðu það margar klósettferðir að við enduðum á því að skipta um sæti svo hún fengi svefnfrið fyrir „látunum“ í mér,“ segir Salvör. En hún upplifði einnig mikla svengd á næturnar og þegar skötuhjúin keyrðu um holóttar götur Taílands fannst henni hún finna óþarflega mikið til í brjóstunum.
„Já, mér datt ekki í hug að ég væri ófrísk þrátt fyrir að vera að upplifa einhver af algengustu einkennum sem konum finna fyrir í upphafi meðgöngu.
Hvernig var að segja þínum nánustu gleðitíðindin?
„Það var yndislegt! Okkar nánustu voru að bíða eftir þessum tíðindum enda vorum við mjög opin með að ræða þetta og svöruðum heiðarlega þegar og ef fólk spurði.
Fjölskyldu og vinum datt samt ekki í hug að þetta myndi gerast á þessum tímapunkti þar sem ég var að ganga í gegnum þennan mikla missi og sorgarferli,“ segir Salvör.
Salvör og Óli hafa verið par í þrjú ár en þau hnutu um hvort annað á samfélagsmiðlum. „Við höfðum vitað af hvort öðru í smátíma og fylgst með úr fjarlægð.
Um leið og við byrjuðum að spjalla áttuðum við okkur fljótlega á því að mæður okkar væru nágrannar og höfðum við því reglulega rekist á hvort annað í gegnum árin,“ segir Salvör, en eftir þessa ánægjulega uppgötvun fór parið á stefnumót og skellti sér í rómantískan göngutúr í haustblíðunni og hefur verið óaðskiljanlegt frá þeim tíma.
Hvernig var maki þinn á meðgöngunni?
„Hann sýnir mér ávallt ómældan stuðning. Það skiptir engu máli hvort að ég sé barnshafandi eða ekki, hann hugsar alltaf vel um sína konu,“ segir Salvör. „Ég þurfti mikið á honum að halda fyrstu vikurnar þar sem ég var enn að átta mig á fráfallinu og upplifði mikla ógleði og uppköst í tengslum við meðgönguna.
Það er ótrúlega skrýtið að ganga í gegnum eitt það versta sem lífið býður upp á og sömuleiðis það besta sem þú getur hugsað þér og það á sama tíma. Mér þótti þar af leiðandi ómetanlegt að hafa Óla mér við hlið, hann hjálpaði mér að ná aftur jafnvægi og leyfði mér að finna gleðina,“ segir Salvör.
Sérðu maka þinn með öðrum augum eftir barnsburð?
„Að sjá hann með dóttur okkar fyllir hjartað mitt af svo mikilli ást og kærleik. Hann þurfti að taka við móðurhlutverkinu fyrstu vikurnar þar sem ég var lögð inn á sjúkrahús, en ég fékk brjóstabólgu og varð fárveik. Óli sá því um næturgjafir með pela og bleyjuskipti á meðan ég þurfti að pumpa mig til að losa um stíflur,“ segir Salvör.
Heilsa og hreyfing spila stóran þátt í lífi Salvarar sem setur heilsuna, jafnt andlega sem líkamlega, ávallt í forgang. Hún er menntaður íþróttafræðingur og hefur getið sér gott orðspor sem bæði einkaþjálfari og hópatímakennari.
Salvör var iðin við að hreyfa sig á meðgöngunni en fyrstu fjórir mánuðirnir reyndust henni erfiðir vegna meðgönguógleði. „Meðgangan gekk vel, það er ef ég mínusa fyrstu 16 vikurnar,“ segir Salvör og hlær.
„Ég er ein af þeim sem fékk rosalega meðgönguógleði og eyddi fyrstu mánuðunum rúmliggjandi, það reyndist mér virkilega krefjandi en ég sinnti vinnu og þörfum viðskiptavina eftir bestu getu. Ég deildi þó litla leyndarmálinu mínu með flestum þeirra mjög snemma enda þurfti ég reglulega að bregða mér frá eða tylla mér vegna verkja eða ógleði.
Þetta gekk eins og smurt eftir 16. viku og gat ég stundað reglulega hreyfingu alveg fram að fæðingardegi dóttur minnar. Daglegir göngutúrar gerðu gæfumuninn fyrir mig. Ég fór í 3-8 kílómetra göngutúra og viðraði bumbuna í sumarblíðunni en þá daga sem ég fór í ræktina þá hélt ég mig við þægilega þyngdir og einblíndi á æfingar sem styrkja kviðsvæðið,“ segir Salvör, en hún segir daglegar æfingar hafa hjálpað sér að undirbúa líkama og sál fyrir fæðinguna.
„Ég er nokkuð viss um að ef ég hefði ekki haldið mig við svipaða rútínu og hreyft mig eins og áður þá hefðu komið upp líkamlegir kvillar eins og grindargliðnun, bakverkir og þess háttar. Ég var alveg laus við alla líkamlega verki út meðgönguna og er mjög þakklát fyrir það. Sömuleiðis var ég fljót að jafna mig eftir fæðinguna,“ útskýrir hún.
Um kvöldmatarleiti hinn 10. ágúst síðastliðinn byrjaði Salvör að upplifa fæðingarhríðir. „Sjálf fæðingin var draumi líkast en það sama get ég ekki sagt um hríðirnar,“ segir hún og hlær. „Ég var með sárar hríðir í 17 klukkustundir áður en ég fékk að byrja að rembast en fæðingin gekk eins og í sögu og tók aðeins 26 mínútur.“
„Það sem kom mér einna helst á óvart var hversu falleg stund þetta var. Allir í kringum þig vilja hjálpa og standa með þér. Sambýlismaður minn og móðir mín voru viðstödd fæðinguna og án þeirra hefði ég aldrei komist í gegnum þetta. Þau voru með hausinn rétt skrúfaðan og voru rétta teymið til þess að aðstoða mig enda ekkert grín að standa á hliðarlínunni og horfa á manneskjuna sem þú elskar mest í heiminum kveljast,“ segir Salvör sem er óendanlega þakklát fyrir fjölskylduna sína.
Fyrstu stundirnar eftir fæðinguna liðu eins og í þoku. „Fyrstu klukkutímarnir voru stútfullir af tilfinningum, góðum tilfinningum og einhverju sem ég hafði aldrei upplifað fyrr. Ég var svo fegin að sjá þessa hárprúðu dömu og spennt að kynnast henni,“ segir Salvör.
„Það sem þetta er fyrsta barn okkar Óla og ég örverpið í fjölskyldunni minni þá vissi ég ekki beint hvað ég átti að gera. Ég hef ekki einu sinni skipt um bleyju fyrr,“ segir hún og hlær. „Þetta kom þó um leið, náttúrulegur hæfileiki,“ segir hin nýbakaða móðir.
Hvað ætlar þú að leggja áherslu á í uppeldinu?
„Mig langar að reyna að verða eins og foreldrar mínir. Ég er virkilega sátt með uppeldið sem ég fékk og það rættist bara ágætlega úr mér. Sjálf á ég ekkert nema góðar og fallegar minningar frá mínum yngri árum.
Foreldrar mínir voru duglegir að taka upp myndbönd á gömlu góðu upptökuvélina sem ég get horft á í dag og eigum við yfir 30 VHS-spólur. Ég hef alltaf jafn gaman af því að horfa á þær og rifja upp þessar minningar, sérstaklega nú þegar pabbi er farinn,“ segir hún.
„Pabbi og mamma voru bæði mjög róleg og yfirveguð. Ég átti mjög gott og traust samband við þau. Við vorum bestu vinir alla tíð. Ég vil eiga þannig samband við dóttur mína, að hún geti leitað til mín og sagt mér allt sem henni dettur í hug án þess að verða gagnrýnd. Ég vil hún að hún viti að ég sé ávallt til staðar fyrir hana og hennar stærsti stuðningsaðili,“ segir Salvör.
Aðspurð segir Salvör fyrsta barn umturna lífi manns á marga vegu. „Ég hef verið mamma í rétt rúmar fjórar vikur og get leyft mér að segja að það sem breyttist var bókstaflega allt. Í dag er ég ekki lengur að hugsa mig um heldur snýst líf mitt og tilvera um aðra manneskju. Dagarnir snúast um þessa litlu mannveru sem við Óli sköpuðum og engan annan. Hún ræður hér ríkjum og við foreldrarnir fylgjum hennar,“ segir hún.
Það að verða foreldri er lærdómsríkt enda margt sem nýbakaðir foreldrar komast að þegar þeir fá barnið í fangið. „Það sem kom mér á óvart var hvað fyrstu vikurnar taka mikið á andlega. Ég vissi alltaf að þetta yrði erfitt en það er ómögulegt að átta sig á því hversu erfitt þetta raunverulega er.
Ég tel mig vera andlega sterka manneskju með hausinn rétt skrúfaðan á, en þegar þú ert að upplifa áhrif hormóna í kjölfar fæðingar og einnig að sinna kornabarni sem þér finnst þú ekki kunna að meðhöndla getur þetta orðið ansi yfirþyrmandi svona í byrjun,“ segir Salvör. „Fyrstu dagarnir og brjóstagjöfin taka mikið á. Ég hef rætt við margar konur sem upplifðu nákvæmlega það sama og ég. Þetta er erfitt og það þarf að opna umræðuna,“ segir hún.
Brjóstagjöfin gekk erfiðlega í byrjun hjá nýbökuðu móðurinni og endaði hún á spítala. „Dóttir mín var heldur löt á brjóstinu og sofnaði í hvert sinn þegar ég var að gefa henni, sama hvað við reyndum. Sogkrafturinn var sterkur en hún kaus að nota brjóstið sem snuddu og fannst bara kósí að leggja sig þar. Sjálfri fannst mér þetta heldur undarlegt þar sem næringarforðinn hennar frá fylgjunni var við það að klárast og hefði hún átt að vilja vera á brjósti og við í keðjugjöfum, en svo var ekki,“ segir Salvör.
„Ég enda á að fá stálma þar sem ég var ekki að ná að losa mjólkina út, en ég reyndi hvað sem ég gat til að losa um stálmann og leigði mér mjaltavél en ekkert gekk. Brjóstin byrjuðu að harðna enn frekar og mér fór að líða mjög skringalega.
Ég rauk upp í 40 stiga hita og fékk roða í brjóstin sem voru orðin glerhörð,“ segir hún, en Salvör var sett á sýklalyfjakúr en eftir þrjá daga á lyfjum leið henni ekkert betur og var hún því lögð inn á spítala þar sem hún fékk sýklalyf í æð og dvaldi í nokkra daga. „Ég var ómskoðuð til að sjá hvort að sýkingin væri búin að smitast í brjóstapúðana en sem betur fer var það ekki.
Persónulega datt mér ekki í hug að þetta myndi gerast og svona auðveldlega en það eru víst meiri líkur á því að fá brjóstabólgur ef þú ert með brjóstapúða, sem ég er með, enda er það aðskotahlutur í líkamanum sem tekur við öllum bólgum,“ segir Salvör.
„Sjálf var ég var algjörlega búin á því, bæði andlega og líkamlega. Ég gerði fátt annað á spítalanum en að gráta þar sem mér fannst ég hafa brugðist dóttur minni,“ segir hún. „Mér finnst að mæðravernd eigi að ræða um brjóstagjöf til að kynna nýjar og verðandi mæður fyrir þessu mikla verkefni og öllu því sem getur gerst og einnig farið úrskeiðis. Það væri tilvalið að ræða um brjóstapúða og brjóstagjöf þar sem það er algengt í dag að vera með brjóstapúða.“
Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður?
„Kynntu þér allt sem snýr að brjóstagjöf og fyrstu vikum eftir barnsburð. Gerðu sömuleiðis ráð fyrir því að allt gangi ekki eins og smurð vél, en leggðu áherslu á fyrstu vikurnar og brjóstagjöfina. Fæðingin tekur oftast nær einn dag, hugsaðu um það sem kemur á eftir og leggðu áherslu á það.
Ég hvet einnig verðandi mæður að hreyfa sig á meðgöngunni og fyrir íþróttaálf eins og mig þá er gott að minna á að þetta er ekki tíminn til þess að slá met í lyftingum eða öðrum íþróttum. Á meðgöngunni er mikilvægt að aðlaga hreyfinguna til að vernda líkama þinn en ekki til að ýta á hann og auka álag,“ segir Salvör.
Fljótlega eftir fæðinguna fann Salvör fyrir mikilli löngun til að mæta í ræktina, enda hennar heimavöllur. Íþróttafræðingurinn veit þó að það þarf að fara varlega af stað í hreyfingu eftir barnsburð en tilhlökkunin að komast aftur í hreyfingargírinn er mikil.
„Ég er rosalega spennt að fara aftur á æfingar og er aðeins byrjuð að taka léttar styrktaræfingar heima til að koma mér af stað,“ segir Salvör, en það er oftast mælt með því að mæður byrji að hreyfa sig um það bil sex vikum eftir barnsburð.
„Það er oft talað um þessar sex vikur en ég er á því að nýbakaðar mæður byrji að hreyfa sig um leið og þær finna sig tilbúnar til, bæði líkamlega og andlega. Það þarf bara að hafa í huga að ef einstaklingurinn æfir án þjálfara að fara ekki of geyst af stað. Það gæti valdið skaða eða vanstarfsemi í kviðvöðvum, þvagleka, grindarverkjum, bakverkjum og þess háttar,“ segir hún.
Salvör hyggst stunda mömmuþjálfun og hlakkar henni mikið til að kynnast þess háttar æfingum og þjálfunaraðferðum. „Mömmuþjálfun er eitthvað sem ég ætla að stunda og sérstaklega núna þegar ég er að læra að þjálfa konur á meðgöngu og eftir meðgöngu. Það er ómetanlegt að hafa þjálfara sem þekkir kvenlíkamann og getur aðstoðað þig.
Ekki skemmir fyrir að maður er að æfa samhliða öðrum konum sem hafa upplifað það sama og þú og eru þær allar staddar á svipuðum slóðum,“ segir hún. „Þetta er frábær leið til að halda góðri heilsu og jafnvel eignast vinkonur og það kalla ég „win win““,segir Salvör.