„Vonandi lærið þið af okkar mistökum“

Slysslepping í Patreksfirði 2023 | 30. september 2023

„Vonandi lærið þið af okkar mistökum“

Fjórir norskir kafarar eru þessa dagana að snorkla eða rekkafa í íslenskum laxveiðiám í leit að eldisfiski. Helge Skoglund leiðir hópinn sem kom til landsins á miðvikudag. Þeir hafa nauman tíma eða fimm daga til að ljúka skoðun á nokkrum af helstu laxveiðiám landsins. Sporðaköst settust niður með Helge í veiðihúsinu Tjarnarbrekku í Víðidal.

„Vonandi lærið þið af okkar mistökum“

Slysslepping í Patreksfirði 2023 | 30. september 2023

Helge Skoglund í fullum herklæðum við Víðidalsá. Hann leiðir hóp …
Helge Skoglund í fullum herklæðum við Víðidalsá. Hann leiðir hóp norskra rekkafara sem reyna að lágmarka skaðann eftir að eldslax hefur gengið í margar af helstu laxveiðiám landsins. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Fjórir norskir kafarar eru þessa dagana að snorkla eða rekkafa í íslenskum laxveiðiám í leit að eldisfiski. Helge Skoglund leiðir hópinn sem kom til landsins á miðvikudag. Þeir hafa nauman tíma eða fimm daga til að ljúka skoðun á nokkrum af helstu laxveiðiám landsins. Sporðaköst settust niður með Helge í veiðihúsinu Tjarnarbrekku í Víðidal.

Fjórir norskir kafarar eru þessa dagana að snorkla eða rekkafa í íslenskum laxveiðiám í leit að eldisfiski. Helge Skoglund leiðir hópinn sem kom til landsins á miðvikudag. Þeir hafa nauman tíma eða fimm daga til að ljúka skoðun á nokkrum af helstu laxveiðiám landsins. Sporðaköst settust niður með Helge í veiðihúsinu Tjarnarbrekku í Víðidal.

Hann hefur stundað rekköfun í tæp fjórtán ár og upphaflega var hann og félagar hans að telja fiska og meta ástand áa. Hann er lærður líffræðingur frá háskólanum í Bergen í Noregi og hefur haldið tengslum við skólann alla tíð.

„Þegar við vorum að byrja á þessu sáum við að það var mikið af eldisfiski í ánum og við áttum auðvelt með að þekkja þá úr. Á þeim tíma voru uppi vaxandi áhyggjur af hrygningu strokufisks í norskum ám. Við sáum fljótlega að það var áhrifaríkt að ná slíkum fiski með skutulbyssum og í dag er það stór hluti af okkar vinnu.“

Hamarshylur í Víðidal skoðaður af norskum köfurum. Þeir eru í …
Hamarshylur í Víðidal skoðaður af norskum köfurum. Þeir eru í dag í Svartá, Laxá á Ásum og Húseyjarkvísl ef áætlunin gengur eftir. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Fylgjast með 70 ám í Noregi

Þetta hefur undið hratt upp á sig?

„Jú. Í dag erum við með um sjötíu ár þar sem við fylgjumst með hrygningu og metum stofnstærð. Við gefum skýrslu um hvort að æskilegum hrygningarviðmiðunum í einstökum ám sé mætt og metum fjölda para sem hrygna. Einnig leggjum við mat á fjölda strokufiska sem eru í ánni.

En verkefnin eru ólík. Stundum erum við kallaðir í afmörkuð verkefni ef um slysasleppingu er að ræða eins og hér á Íslandi núna. Einnig eru skyldur settar á fiskeldisfyrirtæki í Noregi að þau þurfa að standa straum af kostnaði við eftirlit með ám í nágrenni eldiskvía.“

Helge segir að þegar þeir eru í talningum og eftirliti þá taki þeir sér auka tíma í að fjarlægja strokufiska sem þeir finna í ánum. Þeir eru alltaf með skutulbyssurnar með sér og hreinsa upp það sem þeir finna af strokulaxi eða öðrum tegundum úr eldi sem hafa gengið í árnar.

Dapurlegt ástand í Noregi

Ástandið í Noregi þegar kemur að villtum laxi er dapurlegt. Á áttunda áratug síðustu aldar gengu að jafnaði milljón villtir laxar í norskar ár. Nú er staðan sú að heildarfjöldinn er í kringum fimm hundruð þúsund einstaklingar og þeir hafa aldrei verið færri. Fiskeldi í sjókvíum er stærsta ástæðan fyrir þessari hnignun. Laxalúsin er mesti skaðvaldurinn en aðrir þættir tengdir eldinu eru einnig skaðlegir.

Helge staðfestir þetta og segir að allar ár í Noregi hafi verið frekar lélegar í sumar. Heilt yfir sé árið 2023 afskaplega slæmt þegar kemur að norska laxinum.

Teymi á borð við ykkar er ekki til á Íslandi. Ættum við að færa okkur yfir í þessa aðferð?

„Í mínum huga er það ekki spurning. Þið eruð víða með laxastiga og teljara í þeim en rekköfunin gefur ágæta mynd af stöðunni í ánni. Þetta er ekki fullkomin aðferð en hún er mjög góð og gefur glögga mynd þegar skyggni er gott í ánum og þá er hægt að gefa býsna nákvæma skýrslu um stöðu í hverri á. Við góðar aðstæður gengur þetta vel og við getum á góðum degi skoðað langa kafla í einstökum ám.“

Gjörðu svo vel. Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki í Miðfirði tekur …
Gjörðu svo vel. Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki í Miðfirði tekur við eldislaxi sem skotinn var þar á dögunum. Norska teymið náði tólf slíkum í gær. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Eldislaxinn hegðar sér allt öðruvísi

En þetta virðist virka vel. Fiskurinn er ekki að styggjast?

„Villti laxinn er ekki að styggjast okkur að neinu ráði. Þeir kannski síga undan okkur en eru fljótir að jafna sig og þeir hafa ekki miklar áhyggjur af okkur þegar við fljótum í kringum þá eða ofan við þá.“

Kom þér á óvart að fá neyðarkall frá Íslandi?

„Nei. Það kemur mér ekki á óvart að þið hafið lent í þessu, það er að segja að fjöldi eldislaxa hafi sloppið úr sjókví. Ég hef í gegnum árin verið í sambandi við Hafrannsóknastofnun á Íslandi til að undirbúa viðbrögð ef svona óhapp kæmi upp. Við bjuggumst við því að eitthvað þessu líkt gæti gerst. Við höfum miðlað af okkar reynslu og það væri skynsamlegt fyrir Ísland að læra af okkar reynslu og gera ekki sömu mistök og við höfum gert í Noregi.“

En þið mynduð aldrei leyfa eldi á íslenskum laxi út fyrir ströndum Noregs.

„Nei. Það er rétt. Hins vegar höfum við verið með eldi á regnbogasilungi í sjókvíum og hann er ættaður úr Kyrrahafinu þannig að við höfum gert okkar mistök. Ég held að Ísland geti nýtt sér okkar reynslu og lært af þeim mistökum sem hafa verið gerð.“

Helge segir ljóst að þetta verður ekki síðasta slysið af …
Helge segir ljóst að þetta verður ekki síðasta slysið af þessu tagi. Hann þekkir það af reynslu heima fyrir. Hann og félagar hans fylgjast með sjötíu ám í Noregi. Ljósmynd/Rafn Valur Alfreðsson

Erum við að læra af ykkar mistökum?

„Ég er ekki viss um það. Ég þekki bara ekki nægilega vel hvernig regluverkið er hér og hvernig staðið er að þessu á Íslandi. Við erum enn að meta stöðuna hér núna. En það verður að hafa það í huga að rekköfunin er leið til að minnka skaðann og draga úr þeim áhrifum sem strokulaxinn getur haft í einstökum ám.“

Eru í slökkvistarfi

En þið náið þeim aldrei öllum?

„Nei. Það er alveg ljóst. Besta leiðin væri að koma í veg fyrir að þeir geti strokið og komist upp ár til að hrygna. það væri náttúrulega best. Við erum í raun og veru í slökkvistarfi og að minnka skaðann eins og frekast er unnt.“

En þetta er líka spennandi?

„Við njótum þess að synda í ánum og fylgjast með lífríkinu. Ég hef gert þetta alla mín starfsævi og nýt þess enn. Ég hef þurft að eyða meiri og meiri tíma í skrifstofustörf síðari ár en að komast út og kafa er skemmtilegasti hluti starfsins. Að synda með fiskum er eitthvað sem ég elska.

Þegar kemur að því að fjarlægja eldislaxa úr villtu umhverfi væri auðvitað best að þeir væru ekki þar. En fyrst þeir eru komnir þá er eina rétt leiðin að fjarlægja þá og mér finnst ég vera að vinna þarft verk verk þegar við fjarlægjum þá. Auðvitað er þetta líka spennandi þegar maður er komin ofan í og við eltumst við þessa laxa. Þetta er eitthvað sem veiðimanninum í manni finnst spennandi. Við horfum á þetta þeim augum að við erum að verja villta laxinn og þess vegna gerum við þetta.“

Fyrst var hlegið að hugmyndinni um norska kafara. Þeir hafa …
Fyrst var hlegið að hugmyndinni um norska kafara. Þeir hafa hins vegar náð góðum árangri og tekið út um tuttugu eldislaxa, bara í Miðfjarðará. Hér er kafað í Víðidalsá. mbl.is/Eggert Skúlason

Margir Íslendingar hlógu að hugmyndinni þegar hún kom fram en þetta er öflug leið.

„Já og þetta virkar. En þetta hentar ekki alls staðar. Það er erfiðara að eiga við þetta í stórum ám. Skyggnið skiptir gríðarlegu máli. Þegar aðstæður eru réttar þá er þetta mjög árangursrík leið til að fjarlægja strokulaxinn.“

Hverju áttu von á í þessum ám sem þið eruð að fara að skoða?

„Ég er nokkuð viss um að við finnum strokulaxa. En ég er spenntur að skoða aðstæður og við erum að fara í nokkuð margar ár og það er viðbúið að aðstæður verði misjafnar. En ég er spenntur að sjá hvað við finnum.“

Eldislaxinn tryllist

Hvernig hagar eldislaxinn sér þegar þið eruð elta hann?

„Í Noregi hegðar hann sér með allt öðrum hætti en villti fiskurinn. Villti laxinn hörfar undan okkur og reynir að fela sig en er fljótur af jafna sig. Eldislaxinn aftur á móti getur tryllst. Ef að kemur styggð að honum þá verður hann mjög stressaður og það getur verið mjög erfitt að komast nálægt honum aftur. Maður verður eiginlega að ná þeim í fyrstu tilraun annars eru þeir erfiðir viðfangs. Ég hef þurft að elta eldislaxa marga kílómetra eftir að það hefur komið styggð að þeim. Villti laxinn gerir þetta ekki. Þeir halda sig í sama hylnum. Leita kannski niður á brotin en koma svo aftur upp. Við pössum líka þegar við erum að kafa að þrengja ekki of mikið að honum þannig að hann hafi pláss til að komast á milli okkar.“

Þetta á eftir að gerast aftur

Er þetta slæmt karma. Við köllum til norska kafara til að veiða upp norskættaðan eldislax?

„Ég veit ekki með það en hitt veit ég að þetta er að öllum líkindum ekki síðasta svona sleppislysið sem þið lendið í. Það er mikilvægt fyrir Ísland að koma sér upp fólki sem getur fjarlægt strokufisk og þið þurfið ykkar eigin kafarasveitir til að bregðast við svona málum í framtíðinni. En við gerum okkar besta og vonandi miðlum við af reynslu okkur og þið sjáið hvernig hægt er að gera þetta.“

Að lokum Helge. Góða veiði.

Hann hlær og þakkar fyrir. Morguninn eftir hófu þeir félagar að kafa í Víðidalsá. Þeir sáu einungis fimm eldislaxa og þar af kunna tveir af þeim að hafa verið taldir tvisvar. Þeir náðu einum eftir að hafa skoðað stærstan hluta árinnar. Sporðaköst fylgdust með verkinu og þetta eru kappsfullir dugnaðarforkar. Helge og félagar tóku það mjög alvarlega ef þeir náðu misstu af fiski. „Ég hugsa um skotin sem geiguðu þegar ég er kominn á koddann.“

Í gær var víglína færð aðeins sunnar og sérsveitin stakk sér í Miðfjarðará. Þegar dagur var að kveldi kominn höfðu þeir skutlað tólf eldislaxa og náð þeim. Tveir voru særðir og verður þeirra leitað í dag. Samtals hafa 25 eldislaxar verið fjarlægðir úr Miðfjarðará.

Svartá, Laxá á Ásum og Húseyjarkvísl eru verkefni dagsins hjá teyminu. Þeir skipta sér upp og fara tveir og tveir saman til að fara yfir stærra svæði. Vatnsdalsá er fyrirhuguð á morgun.

mbl.is