„Ekki fólkið“ er hópur fólks á Íslandi sem flest eiga það sameiginlegt að eiga nafna eða nöfnu í sviðsljósinu. Fólkið er skráð á leitarsíðum Já sem „ekki“ viðkomandi eftir að hafa ítrekað fengið símtöl sem eru ætluð nafna eða nöfnu þess og hefur hópurinn undið upp á sig á síðastliðnum árum, en upphafið nær aftur til ársins 2007.
„Ekki fólkið“ er hópur fólks á Íslandi sem flest eiga það sameiginlegt að eiga nafna eða nöfnu í sviðsljósinu. Fólkið er skráð á leitarsíðum Já sem „ekki“ viðkomandi eftir að hafa ítrekað fengið símtöl sem eru ætluð nafna eða nöfnu þess og hefur hópurinn undið upp á sig á síðastliðnum árum, en upphafið nær aftur til ársins 2007.
„Ekki fólkið“ er hópur fólks á Íslandi sem flest eiga það sameiginlegt að eiga nafna eða nöfnu í sviðsljósinu. Fólkið er skráð á leitarsíðum Já sem „ekki“ viðkomandi eftir að hafa ítrekað fengið símtöl sem eru ætluð nafna eða nöfnu þess og hefur hópurinn undið upp á sig á síðastliðnum árum, en upphafið nær aftur til ársins 2007.
Í dag eru 54 einstaklingar sem titla sig „ekki ...“ á heimsíðu Já, en samkvæmt Mekkín Bjarkadóttur, viðskiptastjóra Já, þá er þetta gömul hefð.
„Þetta er víst gömul hefð sem varð til hjá gamla Landsímanum, en Já var hluti af gamla Landsímanum þar til árið 2005 þegar Já hf. var stofnað utan um rekstur símaskrárinnar,“ segir Mekkín.
Áttu nafnar þekktra Íslendinga til að kvarta undar áreiti?
„Já, þetta voru yfirleitt einstaklingar sem áttu alnafna eða alnöfnu í sviðsljósinu,“ segir Mekkín. „En árið 2014 kom út frétt þar sem tekið var viðtalið við „ekki stjórnmálamanninn Árna Pál Árnason og í kjölfarið fengum við slatta af „ekki“ skráningum. Þá kom í ljós að það voru greinilega margir sem tengdu við þetta vandamál,“ segir hún.
Árið 2014 voru átta einstaklingar skráðir sem „ekki fólk“ hjá símaskránni en 46 manns hafa bæst í hópinn á síðastliðnum níu árum. Á meðal þeirra eru þær Diljá Pétursdóttir „ekki Eurovision-keppandi“ og Ragnhildur Hólm „ekki Reykjavíkurdóttir“, en báðar segjast þær hafa orðið fyrir miklu símaáreiti og þá sérstaklega þegar tónlistarkonurnar kepptu í Söngvakeppni sjónvarpsins.
Diljá Pétursdóttir óperusöngkona er búsett í Antwerpen, annarri stærstu borg Belgíu, þar sem hún leggur stund á óperusöng. Hún er nafna poppstjörnunnar Diljár Pétursdóttur, sem gerði garðinn frægan fyrr á þessu ári þegar hún sigraði Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu Power.
Aðspurð segir óperusöngkonan þetta hafa verið sérkennilegan tíma, en hún fékk svo sannarlega að upplifa vinsældir íslensku Eurovision-stjörnunnar og það allt í gegnum símann.
„Þetta var alveg fáránlegt dæmi. Ég var að fá allt að tíu símtöl á hverjum einasta degi og þá aðallega frá ungum krökkum sem sum vildu syngja fyrir mig, en í flestum tilfellum voru þetta símaöt,“ segir Diljá, sem ber þó millinafnið Huld sem poppstjarnan gerir ekki. „Ég var líka að vakna upp við símtöl, en Belgía er tveimur tímum á undan Íslandi. Það var ekkert sérstaklega skemmtilegt,“ segir óperusöngkona.
Óperusöngkonan rifjaði upp skondið atvik í tengslum við nafnaruglingin. „Ég man að mér var boðið að syngja á skólaslitum Háskóla Íslands í Laugardalshöllinni, mér þótti það mjög skrýtið. Ég hafði mjög gaman af þeirri beiðni, enda söngkona. Það var eldri maður sem hafði samband við mig og við hlógum að þessu saman þegar við áttuðum okkur á misskilningnum. Ég verð þó að viðurkenna að ég hugsaði eftir á að það hefði alveg verið fyndið að mæta og henda í smá Fauré eða Brahms fyrir nemendur og aðstandendur,“ segir Diljá og hlær.
„Ég óska Diljá Pétursdóttur alls hins besta í framtíðinni,“ segir Diljá Huld Pétursdóttir, sem er í dag að íhuga flutninga heim til Íslands og því kannski von á dúett frá nöfnunum í náinni framtíð.
„Ég skráði mig sem „ekki Reykjavíkurdóttir“ eftir að þær stöllur tóku þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins,“ segir Ragnhildur Hólm, en hún fann fyrir auknu símaáreiti eftir þátttöku hljómsveitarinnar í íslensku undankeppninni.
„Sjálf hafði ég aðeins fundið fyrir nafnaruglingi og símaáreiti fyrir keppnina en í kjölfar þátttöku Reykjavíkurdætra í söngvakeppninni þá byrjaði bylgja af símtölum og skilaboðum,“ segir Ragnhildur.
Hún segir símtölin hafa einkum snúist um það hvort hún gæti tekið að sér „DJ gigg“ enda er Ragga Holm ein sú allra vinsælasta í íslensku tónlistarsenunni í dag. „Þetta voru mikið af símtölum á kvöldin og um helgar og var orðið heldur truflandi. Ég endaði því á að skrá mig sem „ekki“ á Já,“ segir hún.
Gastu séð húmorinn í þessu?
„Já, að sjálfsögðu. Þetta var bara fyndið og skráningin var bara gerð upp á grínið en auðvitað líka aðeins til að dempa áreitið,“ segir Ragnhildur. „Mér fannst þetta bara vera ákveðinn heiður. Það var fullt af fólki að reyna að ná í Röggu Holm en náði bara í mig,“ segir hún og hlær.
Eftir að hún titlaði sig sem „ekki Reykjavíkurdóttir“ fann hún fyrir miklum mun, en símtöl og skilaboð ætluð Röggu Holm hættu að berast í símann hennar.
Aðspurð segist Ragnhildur vera mikill aðdáandi Röggu Holm og Reykjavíkurdætra, en sjálf segist hún ekki gædd miklum tónlistarhæfileikum. „Ég er mjög langt frá því að vera Ragga Holm, ég sinni stöðu mannauðs- og markaðsstjóra hjá Jarðböðunum við Mývatn,“ segir hún og hlær.
Ragnhildur rakst á Reykjavíkurdótturina á djamminu fyrir einhverjum árum síðan í Reykjavík, en þá var hún nýbúin að fá tvö símtöl ætluð Röggu Holm. „Ég sagði henni frá símtölunum og henni fannst þetta að mig minnir fyndið,“ segir Ragnhildur og hlær.
„Ekki fólkið“ á síðum Já inniheldur einnig Ásgeir Pál „ekki útvarpsmann“, Halldór Gylfason „ekki leikara“, Ellen Kristjánsdóttur „ekki söngkonu“, Samúel Jón „ekki tónlistarmann“ og fleiri áhugaverða Íslendinga, en samkvæmt Mekkín er þetta skemmtileg leið til að koma í veg fyrir misskilning og óþarfa áreiti.
„Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem verða fyrir svipuðu áreiti að láta okkur vita. Það er líka gaman að segja frá því að núna geta allir skráð sig inn á „mitt já“ sem er nýja sjálfsafgreiðslukerfið okkar. Þar er hægt að nýskrá sig á Já.is með auðveldum hætti eða uppfæra núverandi skráningu, hvort sem það er til að bæta sér í „ekki fólkið“, setja inn starfsheiti eða breyta heimilisfangi,“ segir Mekkín.