Hundurinn er dæmigerður „stóri bróðir“

Dýrin | 1. október 2023

Hundurinn er dæmigerður „stóri bróðir“

Jóna María Ólafsdóttir verkefnastjóri og Andrés Fjeldsted regluvörður Arion banka eiga tveggja ára hund sem heitir Eddi og er órjúfanlegur hluti af fjölskyldunni. Dýrmætast finnst þeim að fylgjast með sambandi ungrar dóttur þeirra og Edda þróast en Eddi gætir hennar eins og stóri bróðir. 

Hundurinn er dæmigerður „stóri bróðir“

Dýrin | 1. október 2023

Jóna María, Ásthildur Þóra, Eddi og Andrés.
Jóna María, Ásthildur Þóra, Eddi og Andrés. Ljósmynd/Aðsend

Jóna María Ólafsdóttir verkefnastjóri og Andrés Fjeldsted regluvörður Arion banka eiga tveggja ára hund sem heitir Eddi og er órjúfanlegur hluti af fjölskyldunni. Dýrmætast finnst þeim að fylgjast með sambandi ungrar dóttur þeirra og Edda þróast en Eddi gætir hennar eins og stóri bróðir. 

Jóna María Ólafsdóttir verkefnastjóri og Andrés Fjeldsted regluvörður Arion banka eiga tveggja ára hund sem heitir Eddi og er órjúfanlegur hluti af fjölskyldunni. Dýrmætast finnst þeim að fylgjast með sambandi ungrar dóttur þeirra og Edda þróast en Eddi gætir hennar eins og stóri bróðir. 

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Við höfðum lengi haft það á bakvið eyrað að eignast hund og pössuðum reglulega stórvin Edda, hann Bósa. Við sáum svo fyrir tilviljun mynd í Coton de Tulear grúppu á Facebook af glænýju goti. Ég setti mig í samband við konuna sem hafði birt myndina og þá var akkúrat einn hvolpur enn ólofaður, hann var sá allra minnsti í gotinu og þau vildu vera viss um að hann stálpaðist vel. Það gerði hann svo sannarlega og flutti til okkar 8 vikna gamall í lok nóvember 2021, en þá var ég einmitt komin 8 vikur á leið með dóttur okkar,“ segir Jóna María.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Við vöknum saman, og á meðan ég og Ásthildur Þóra, dóttir okkar, gerum okkur til í daginn fara Andrés og Eddi í fyrsta göngutúr dagsins. Síðastliðið ár hef ég verið í fæðingarorlofi með Ásthildi svo að dagurinn hefur svo oftast einkennst af rólegheitum, sófakúri, kaffihúsaferðum og öðrum göngutúr eftir hádegi.“

Áttirðu gæludýr þegar þú varst yngri?

„Já við áttum bæði hunda á unglingsaldri. Andrés átti hundinn Mozart og ég hundinn Óliver. Þeir voru, fyrir tilviljun, báðir American Cocker Spaniel.“

Kostirnir við að eiga hund?

„Skilyrðislaus ást og gleði. Hann er alltaf til í leik en á sama tíma mjög rólegur og algjör kelirófa. Einnig er þetta sannkölluð heilsubót þar sem að hann dregur okkur út í göngur í öllum veðrum og heldur okkur í ákveðinni rútínu.“

Ókostirnir við að eiga hund?

„Það getur verið binding og uppeldið er tímafrekt en alltaf þess virði. Okkar helsta áskorun hefur verið sú að Eddi kom til okkar undir lok Covid og svo í kjölfarið fór ég í fæðingarorlof, svo hann hefur lítið verið einn heima. Nú er hann að venjast breyttum aðstæðum og það getur tekið smá á kvíðapésann okkar.“

Fjölskyldan tekur Edda með í öll ferðalög innanlands. Hann á …
Fjölskyldan tekur Edda með í öll ferðalög innanlands. Hann á sitt eigið hundasæti í bílnum. Ljósmynd/Aðsend

Hafið þið deilt saman einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum?

„Eddi hefur ferðast með okkur um landið og gist á hótelum og í sumarbústað. Eftirminnilegt er þegar við hittum tík á hóteli i Búðardal sem Eddi var svo hrifinn af að hann grét sárt fyrir utan herbergið þeirra og laumaði sér reglulega þar inn. Verst var að henni líkaði alls ekki við Edda en okkar maður gafst ekki upp og ætlaði að kynnast tíkinni betur. Það gekk þó aldrei og Eddi yfirgaf staðinn í ástarsorg,“ segir Jóna María.

„Dýrmætasta minningin er þegar hann hitti dóttur okkar í fyrsta skipti og það er ómetanlegt að fylgjast með sambandinu þeirra þróast. Hann er dæmigerður „stóri bróðir“ sem passar upp á hana þegar hún er veik eða grætur en finnst hún frekar pirrandi öðrum stundum.“

Ásthildur Þóra og Eddi tengjast sterkum böndum. Hann passar upp …
Ásthildur Þóra og Eddi tengjast sterkum böndum. Hann passar upp á hana þegar hún er lítil í sér. Ljósmynd/Aðsend

Hefur hundurinn einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Ótal margar, hann sefur helst eingöngu undir húsgögnum, t.d. sófanum, sjónvarpsskápnum, rúmi dóttur okkar og náttborðunum okkar. Uppáhaldsstaðurinn hans á heimilinu er þó upp í gluggakistu þar sem hann hefur gott útsýni yfir hverfið og getur látið vita ef honum mislíkar eitthvað. Við grínumst oft með að hann haldi að hann sé köttur, en hann reynir reglulega að koma sér fyrir á litlum stöðum og klifra, sem gengur misvel.“

„Hann er mjög sérvitur á mat og borðar t.d. ekki serios, ost eða hnetusmjör. Hann elskar allt fólk en pabbi Andrésar er í sérstöku uppáhaldi og hann fagnar honum eins og kóng í hvert skipti sem þeir hittast og grætur sárt þegar hann fer. Hann er mjög hræddur við allt sem rúllar og eru ferðatöskur og ryksugan sérstaklega hættulegar að hans mati.“

Eddi er stöðugt á vaktinni.
Eddi er stöðugt á vaktinni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gengur að skipuleggja fríin með dýr á heimilinu?

„Mjög vel, við ferðumst með hann innanlands og hann á hundasæti í bílnum. Við eigum gott bakland og fólkið okkar hefur passað hann og hugsað vel um hann þegar við höfum ferðast erlendis. Eins fylgir hann alltaf með í kaupum ef dóttir okkar fer i pössun.“

Einhver góð ráð til annarra hundaeigenda?

„Þetta er mikil vinna og sérstaklega til að byrja með. Okkur fannst frábært að fara á námskeið og umhverfisvenja hundinn strax. Við höfum alltaf tekið hann með þar sem það er hægt og hann er t.d. vanur kaffihúsahundur.“

Eddi fagnar hér eins árs afmæli sínu. Hann er af …
Eddi fagnar hér eins árs afmæli sínu. Hann er af tegundinni Coton de Tulear. Ljósmynd/Aðsend
Jóna María er mikill fagurkeri og heldur úti vinsælli Instagram …
Jóna María er mikill fagurkeri og heldur úti vinsælli Instagram síðu þar sem Eddi fær stundum að fljóta með á mynd. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is