Köttur sem elskar kvöldfréttirnar

Gaman saman | 9. október 2023

Köttur sem elskar kvöldfréttirnar

Auður Lóa Guðnadóttir listakona á með fjölskyldu sinni kött sem orðinn er meira en átján ára gamall. Hann var ættleiddur úr Kattholti og elskar að horfa á kvöldfréttirnar á hverju kvöldi klukkan sjö.

Köttur sem elskar kvöldfréttirnar

Gaman saman | 9. október 2023

Auður Lóa á vinnustofu sinni ásamt Krúselíusi.
Auður Lóa á vinnustofu sinni ásamt Krúselíusi. Ljósmynd/Aðsend

Auður Lóa Guðnadóttir listakona á með fjölskyldu sinni kött sem orðinn er meira en átján ára gamall. Hann var ættleiddur úr Kattholti og elskar að horfa á kvöldfréttirnar á hverju kvöldi klukkan sjö.

Auður Lóa Guðnadóttir listakona á með fjölskyldu sinni kött sem orðinn er meira en átján ára gamall. Hann var ættleiddur úr Kattholti og elskar að horfa á kvöldfréttirnar á hverju kvöldi klukkan sjö.

Um er að ræða 18 og hálfs árs kött sem heitir Krúselíus (en er reyndar einnig þekktur sem Krúsi, Krútti, Kústi, Krúbbi, Krúbbi Lúbbi, Lúsi, jafnvel Brúsi og þar fram eftir götunum). Fjölskyldumeðlimir eru allir sammála um að hann sé besti köttur í heimi. 

Auður Lóa og Krúselíus njóta veðurblíðunnar.
Auður Lóa og Krúselíus njóta veðurblíðunnar. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Við fjölskyldan ættleiddum Krúselíus frá Kattholti þegar ég var 12 ára. Ég og systir mín fórum með pabba og völdum hann í sameiningu, en reyndar teljum við að hann hafi valið okkur því hann fór að mala þegar við kíktum í búrið hans. Þegar heim var komið furðaði mamma sig reyndar á hversu ljótan kött við hefðum valið, þvert á skoðanir annarra fjölskyldumeðlima, en hann var valinn vegna persónuleikans. En hann hefur semsagt heiðrað okkur með nærveru sinni síðan þá,“ segir Auður Lóa.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Krúselíus býr hjá foreldrum mínum þar sem ég er með vinnustofu. Við hittumst því flesta morgna, en hann þekkir lykilinn minn í skránni og situr fyrir mér í stiganum svo ég gleymi alveg örugglega ekki að gefa honum. Ef vel viðrar finnst honum gott að fara út í garð, og þá tökum við okkur smá spássitúr, leikum jafnvel smá. Svo kíkir hann á mig á vinnustofunni við og við. Annar fastur punktur í lífi hans er að horfa á kvöldfréttir í fanginu á pabba, en hann stillir sér upp fyrir framan sjónvarpið stundvíslega klukkan sjö.“

Kostirnir við að eiga kött?

„Kettir eru frábær gæludýr. Góðir vinir en líka sjálfstæðir og oft sérvitrir. Það er því mikill heiður að eiga kött fyrir vin.“

Ókostirnir við að eiga kött?

„Engir.“

Hafið þið deilt saman einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum?

„Krúelíus á langa ævi að baki og hefur sannarlega lent í ýmsum ævintýrum. Þó dettur mér helst í hug að nefna þegar mamma og pabbi voru nýbúin að flytja og stóðu í framkvæmdum. Á einhverjum tímapunkti ákvað hann að hann væri búinn að fá nóg. Hann flutti því að heiman í tvígang, af Háteigsvegi, og fannst í bæði skiptin í Fossvogskirkjugarði þar sem systir mín vann við garðyrkju það sumarið. Þess má geta að hann er ekki þekktur fyrir ratvísi frekar en ég, og er kannski ekki sá veraldarvanasti svo við höfum furðað okkur mikið á þessum löngu ferðalögum hans.“

Hefur kötturinn einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Krúsi er hæglátur og yfirvegaður. Alls ekki svona brussa eins og köttur í myndböndum á internetinu. Hann á sér hérumbil þrjá staði í húsinu sem honum hugnast að sofa á. Þar má nefna tiltekinn þvottabala, uppi á þurrkara eða í tröppu númer þrjú í stiganum, og flakkar hann milli þessara staða eftir tíma dags.“

„Rækjur eru uppáhalds maturinn hans og honum þykir fiskur góður, en alls ekki bleikur fiskur. Hann hatar ryksuguna og vindjakka. Hann elskar pabba og verður einmana þegar hann er ekki heima.“

Hvernig gengur að skipuleggja fríin með dýr á heimilinu?

„Þegar við fjölskyldan ferðumst öll saman fellur það oftast í hlut ömmu að líta við hjá honum, gefa honum að borða og spjalla við hann. Það er ekki annað að sjá en að það sé konunglega séð um hann, og þykir okkur mjög gaman að fá myndir og skilaboð send frá honum þegar við erum í fríi.“

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Að ættleiða kött frá Kattholti! Við höfum ekki verið svikin af því.“

Bestu vinir.
Bestu vinir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is