Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir það mikilvægt að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýskipaður fjármálaráðherra, hafi „augun á boltanum“.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir það mikilvægt að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýskipaður fjármálaráðherra, hafi „augun á boltanum“.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir það mikilvægt að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýskipaður fjármálaráðherra, hafi „augun á boltanum“.
Segir hún að stólaskipti ráðherra séu að hluta til þess að skapa frið um áframhaldandi sölu á Íslandsbanka.
Tilkynnt var í dag á blaðamannafundi formanna ríkisstjórnarflokkanna þriggja að Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármálaráðherra, og Þórdís Kolbrún, fráfarandi utanríkisráðherra, myndu skipta um ráðuneyti.
„Mér heyrðist meginskilaboðin með þessum blaðamannafundi vera að það þyrfti að halda þessari ríkisstjórn saman vegna mikilvægra verkefna. Þá eru mín skilaboð og mínar athugasemdir að þau þurfa bara að koma sér að verki,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.
„Það eru mjög krefjandi verkefni fyrir nýjan fjármálaráðherra og ég óska henni auðvitað velfarnaðar í starfi en ég vona innilega að það muni ganga betur með verðbólguna og vextina.“
Hrókeringin var gerð í kjölfar þess að Bjarni lét af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra vegna álits umboðsmanns Alþingis um sölu ríkisins á Íslandsbanka.
Kristrún kveðst spyrja sig hvort þessar mannabreytingar muni hafa einhver áhrif stefnuna sem er stunduð í fjármálaráðuneytinu og á fjárlögin.
„Við erum á þeirri skoðun að fjárlögin þurfi að breytast – helst strax – núna í aðdraganda annarrar umræðu fjárlaga og höfum til dæmis lagt til kjarapakka Samfylkingarinnar.“
Telurðu Bjarna vera að axla einhverja ábyrgð með því að skipta um ráðuneyti?
„[Bjarni] telur sig vera að skapa frið í kringum ráðuneytið og þá væntanlega áframhaldandi sölu á Íslandsbanka með því að stíga úr ráðuneytinu. Ég held að það verði einfaldlega að eiga sér stað alvarlegt samtal um áframhaldandi bankasölu til að mynda. “
Nefnir hún þá að minnihlutinn á Alþingi hafi enn ekki fengið samþykkta kröfu um að stofna rannsóknarnefnd til þess varpa frekara ljósi á bankasöluna.
„Allt sem hefur verið rannsakað hefur komið illa út,“ segir hún og bætir við að fráhvarf ráðherra skapi ekki endilega frið um áframhaldandi sölu ef krafa um rannsóknarnefnd er samþykkt.
„Það sem aðallega skiptir máli í þessu samhengi er að við getum haldið áfram að fókusa á það sem skiptir máli í dag. Sem eru verkefnin sem blasa við – ekki einstakar persónur í þessari ríkisstjórn. Fólkið í landinu er upptekið af vöxtunum og stöðu efnahagsmála,“ segir hún og heldur áfram:
„Nú þarf nýr ráðherra að vera með augun á boltanum. Við erum öll af vilja gerð til þess að styðja við frekari áætlanagerð hjá ríkisstjórninni. Við höfum lagt til þennan kjarapakka okkar og við höfum sagt að þau megi taka hann okkar vegna. Aðalmálið er að við sjáum verðbólgu og vexti í landinu fara neðar.“