„Við erum algjörlega sátt“

„Við erum algjörlega sátt“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist algjörlega sátt við þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar að taka við embætti utanríkisráðherra.

„Við erum algjörlega sátt“

Bjarni segir af sér sem fjármálaráðherra | 14. október 2023

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundinum í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist algjörlega sátt við þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar að taka við embætti utanríkisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist algjörlega sátt við þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar að taka við embætti utanríkisráðherra.

„Þetta er hans ákvörðun og hann hefur rætt ýmsar hliðar þessara mála við okkur, bæði í aðdraganda ákvörðunarinnar á þriðjudag og þeirrar ákvörðunar sem er kynnt hér í dag, við erum algjörlega sátt við hana,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Finnst þér Bjarni axla nægilega mikla ábyrgð með þessari ákvörðun?

„Hann stígur úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna þeirra athugasemda sem eru gerðar við framkvæmdina á sölu á hlut í Íslandsbanka og ég tel að hann axli ábyrgð með því að stíga út úr því ráðuneyti. Það er líka mikilvægur liður í því að skapa vinnufrið og traust á því ráðuneyti.

Hann er hins vegar formaður eins af stjórnarflokkunum þannig að það yrði auðvitað stór ákvörðun að yfirgefa ríkisstjórnina, þannig ég tel að þetta sé ágæt ákvörðun að gera þetta með þessum hætti.“

„Við erum bara brött

Katrín segir formenn stjórnarflokkanna hafa sest niður eftir ákvörðun Bjarna á þriðjudag um að segja af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra og farið yfir erindi ríkisstjórnarinnar.

„Við fórum yfir allt sem við erum að gera í uppbyggingu innviða, bæði áþreifanlega innviði og hvað við erum að gera inni í tilfærslukerfunum, breytingarnar sem við höfum verið að gera á barnabótakerfinu, í húsnæðisstuðningi, hvað varðar framboð húsnæðis, þær áætlanir sem við höfum kynnt í ríkisfjármálum og við sögðum: Þetta er auðvitað okkar erindi.“

Ýmis önnur mál hafi náð að skyggja á raunverulegt erindi ríkisstjórnarinnar.

„Það er ástæðan fyrir þessum fundi. Hann er um það að eftir þessi samtöl þá var það okkar eindregna afstaða að við ætluðum að klára þetta verkefni,“ segir Katrín.

„Við erum með fókusinn á efnahagsmálin en við erum að sjálfsögðu ekkert hætt í öðrum verkefnum, þannig að við erum bara brött í því markmiði að ljúka þessu kjörtímabili.“

Frá blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna.
Frá blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni kom mörgum á óvart

Katrín segist hafa fundið fyrir eindreginni afstöðu þingmanna í gær.

„Auðvitað verður ekkert öllum vandamálum lokið á einum fundi, en það er eindregin afstaða í því að vilja leysa vandamálin, en ekki bara að tala um þau.“

Hefur þú fundið fyrir ólgu hjá þingmönnum stjórnarflokkanna varðandi þessa tilfærslu Bjarna?

„Bjarni kom mörgum á óvart á þriðjudaginn, en ég held líka að þrátt fyrir að fólk hafi alls konar skoðanir þá skilur það að hann er formaður eins af stjórnarflokkunum og hafði frumkvæði að þessari stjórn á sínum tíma og það hefur skipt máli.“

mbl.is