„Það eru fordæmi fyrir því að svona leikir bendi til þess að formaðurinn sé að hugsa sér útgöngu. Við hljótum að líta á þessi skipti sem einhvers konar skref og lengri ferð til valdaskipta í Sjálfstæðisflokknum og með þessu er Þórdís Kolbrún [R. Gylfadóttir] styrkt verulega í sessi sem hinn augljósi arftaki Bjarna Benediktssonar á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum.“
„Það eru fordæmi fyrir því að svona leikir bendi til þess að formaðurinn sé að hugsa sér útgöngu. Við hljótum að líta á þessi skipti sem einhvers konar skref og lengri ferð til valdaskipta í Sjálfstæðisflokknum og með þessu er Þórdís Kolbrún [R. Gylfadóttir] styrkt verulega í sessi sem hinn augljósi arftaki Bjarna Benediktssonar á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum.“
„Það eru fordæmi fyrir því að svona leikir bendi til þess að formaðurinn sé að hugsa sér útgöngu. Við hljótum að líta á þessi skipti sem einhvers konar skref og lengri ferð til valdaskipta í Sjálfstæðisflokknum og með þessu er Þórdís Kolbrún [R. Gylfadóttir] styrkt verulega í sessi sem hinn augljósi arftaki Bjarna Benediktssonar á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum.“
Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, sem ræddi við mbl.is um fréttir gærdagsins af stólaskiptum fjármálaráðherra og utanríkisráðherra.
Bjarni sagði af sér embætti á þriðjudaginn, í kjölfar þess að álit umboðsmanns Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka var birt. Í gær var greint frá því að Bjarni og Þórdís Kolbrún myndu skipta um ráðuneyti – hún færi í fjármála- og efnahagsráðuneytið en hann í utanríkisráðuneytið.
Spurður hvort stólaskiptin gætu markað upphafið á endalokum stjórnmálaferils Bjarna svarar Eiríkur: „Hvenær byrja endalok stjórnmálaferils? Það er kannski matsatriði. En jú, ég held að við getum verið viss um að meira sé liðið af stjórnmálaferli Bjarna Benediktssonar heldur en er eftir af honum.“
Þá var hann spurður hvort hann héldi að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, ætti þá einhvern séns í næsta formannskapphlaupi, enda kemur hennar nafn gjarnan upp í umræðunni um næsta formann Sjálfstæðisflokksins.
„Það virkar þannig út á við að þær væru báðar að máta sig við hugmyndina að taka við flokknum og með þessu er Þórdís komin mun framar í þeirri röð,“ svarar hann.
Eiríkur telur að atburðarásin í kringum stólaskiptin hafi hrist verulega upp í ríkisstjórnarsamsarfinu. Það hafi verið alveg augljóst að forystumennirnir áttu fullt í fangi með að berja í brestina. En þrátt fyrir mikla óvissu undanfarna viku um framtíð ríkisstjórnarinnar hefðu þessi stólaskipti alltaf verið líklegasta niðurstaðan.
„Stundum fannst manni svona fullmikil óvissa látin lifa í þjóðfélagsumræðunni, sem var kannski ekki alveg eins raunveruleg og á leit. Niðurstaðan sem var kynnt í gær bendir hins vegar til þess að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna ætli sér að láta þetta ríkisstjórnarsamstarf ganga út kjörtímabilið,“ segir Eiríkur.
„Ég myndi því segja að það væri líklegra eftir niðurstöður gærdagsins að ríkisstjórnin haldi, heldur en falli. Hún er hins vegar miklu óstöðugri núna að hausti heldur en hún var að vori. Það blasir við.“
Heldurðu að almenningur beri minna traust til ríkisstjórnarinnar vegna þessarar atburðarásar?
„Já, ég get ímyndað mér það,“ svarar hann en bendir þó á að hann hafi engar tölur til þess að miða við í því samhengi – ekki nema þjóðarpúls Gallup, þar sem yfirgnæfandi meirihluti sagðist þeirrar skoðunar að Bjarni ætti að segja sig úr ríkisstjórn vegna álits umboðsmanns.
„Það eru fordæmi fyrir því í öðrum ríkisstjórnum, að svona skilji eftir meira vantraust heldur en var áður en [atburðarásin] hófst,“ segir Eiríkur. „Hins vegar verður að segja að miðað við þrönga stöðu og líka út frá pólitískum klókindum og leikjafræði þá hafi formaður Sjálfstæðisflokksins enn sem komið er spilað vel úr þeim erfiðu spilum sem hann hafði á hendi eftir að álit umboðsmanns Alþingis lá fyrir.“
Margir í stjórnarandstöðunni hafa bent á að með því að skipta um stól við varaformann sinn væri Bjarni í raun ekki að axla ábyrgð á því sem fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis – þá hefði hann frekar átt að hætta í ríkisstjórn.
„Auðvitað er það ekki hefðbundinn skilningur þess að axla ábyrgð í stjórnmálum að ráðherra skipti um ráðuneyti. Þegar það kemur að afsögnum ráðherra og því að axla ábyrgð þá leggjum við hefðbundið í þann skilning að ráðherra stígi úr ríkisstjórninni,“ segir stjórnmálafræðingurinn.
„Ég held að þessi gjörningur snúist ekki fyrst og fremst um að axla ábyrgð á þessari niðurstöðu umboðsmanns, heldur að búa til nýja stöðu og það liggur alveg ljóst fyrir að hið efnislega í málinu er nú kannski ekki síst það að Bjarni Benediktsson hefði átt erfitt með að klára söluna á Íslandsbanka eftir þetta álit umboðsmanns Alþingis. Þannig þetta er leið til þess að geta haldið því máli áfram.“