Hermann hefur heimsótt allar heimsálfurnar

Á Grænlandi | 22. október 2023

Hermann hefur heimsótt allar heimsálfurnar

Hermann Helguson er mikill ævintýramaður sem hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum. Hann hefur ferðast víða, heimsótt allar heimsálfurnar sjö og er núna staddur á átta mánaða ferðalagi um heiminn ásamt kærustu sinni og hafa þau eytt síðustu vikum á Indlandi. Planið er meðal annars að ferðast um suður og suðaustur Asíu og halda svo þaðan til Eyjaálfu í ársbyrjun 2024.

Hermann hefur heimsótt allar heimsálfurnar

Á Grænlandi | 22. október 2023

Hermann Helguson hefur heimsótt heimsálfurnar sjö og lent í ýmsum …
Hermann Helguson hefur heimsótt heimsálfurnar sjö og lent í ýmsum ævintýrum á ferðalögum sínum. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hermann Helguson er mikill ævintýramaður sem hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum. Hann hefur ferðast víða, heimsótt allar heimsálfurnar sjö og er núna staddur á átta mánaða ferðalagi um heiminn ásamt kærustu sinni og hafa þau eytt síðustu vikum á Indlandi. Planið er meðal annars að ferðast um suður og suðaustur Asíu og halda svo þaðan til Eyjaálfu í ársbyrjun 2024.

Hermann Helguson er mikill ævintýramaður sem hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ferðalögum. Hann hefur ferðast víða, heimsótt allar heimsálfurnar sjö og er núna staddur á átta mánaða ferðalagi um heiminn ásamt kærustu sinni og hafa þau eytt síðustu vikum á Indlandi. Planið er meðal annars að ferðast um suður og suðaustur Asíu og halda svo þaðan til Eyjaálfu í ársbyrjun 2024.

Þegar Hermann er ekki á flakki um heiminn er hann búsettur í Reykjavík, en hann er menntaður ferðamálafræðingur og leiðsögumaður og eyðir miklum tíma um borð á skipinu MS Seaventure þar sem hann starfar sem leiðangursstjóri á siglingu í kringum Ísland og til Grænlands.

Hermann er menntaður ferðamálafræðingur og leiðsögumaður.
Hermann er menntaður ferðamálafræðingur og leiðsögumaður. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum?

„Já ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum, bæði á Íslandi og í útlöndum, alveg frá því ég var barn. Fjölskyldan mín flutti út til Þýskalands þegar ég var 9 ára og fannst mér æðislegt að kynnast annarri menningu og heimsækja nærliggjandi lönd. Árið 2011, eftir að ég útskrifaðist úr menntaskóla, fór ég svo í mitt fyrsta bakpokaferðalag til Ástralíu og stóð yfir í þrjá mánuði. Þar var ég einn á ferð sem var rosalega gaman!“

En ljósmyndun?

„Áhugi minn á ljósmyndun kviknaði af mikilli alvöru árið 2015. Þá var ég að vinna sem leiðsögumaður um borð í leiðangursskipi sem er í raun lítið skemmtiferðaskip og var með mína fyrstu myndavél meðferðis, Canon 500D. Þá langaði mig svo mikið til þess að sýna vinum og ættingjum heima það sem ég var að upplifa og besta leiðin til þess fannst mér að taka myndir og deila þeim til þeirra. Í kjölfarið fór ég að taka myndir reglulega og varð hægt og rólega betri í ljósmyndun.“

Áhugi Hermanns á ljósmyndum kviknaði á ferðalögum hans.
Áhugi Hermanns á ljósmyndum kviknaði á ferðalögum hans. Ljósmynd/Hermann Helguson

Nú hefur þú heimsótt heimsálfurnar sjö – hvaða heimsálfa stóð upp úr og af hverju?

„Allar eru einstakar á sinn hátt, en ég verð að segja að Suðurskautslandið stóð upp úr. Ástæðan fyrir því er sú að heimsálfan hefur að miklu leyti verið vernduð í töluvert langan tíma og þar af leiðandi hefur dýralíf og náttúra fengið að dafna. Það er magnað að dýrin þarna eru lítið sem ekkert hrædd við mannfólk, enda stafar engin hætta af okkur gagnvart þeim. Þess vegna koma dýrin oft mjög nálægt manni og eru forvitin. Svo má ekki gleyma landslaginu þarna sem er nánast allt þakið ís og er undurfagurt.“

Hvernig upplifun var að heimsækja Suðurskautslandið?

„Það var ótrúleg upplifun að heimsækja Suðurskautslandið. Ég gleymi því aldrei þegar ég steig í fyrsta skipti á land í heimsálfunni á eyju sem heitir Barrientos Island. Það voru fjórar mismunandi tegundir af mörgæsum í þúsundatali ásamt fílaselum sem voru að hvíla sig á ströndinni. Ég vissi ekki hvert ég átti að horfa eða hverju ég ætti að taka myndir af – það var eitthvað að sjá alls staðar. Suðurskautið er jafnframt einstakt á allan hátt og maður kemst svo rosalega nálægt öllu dýralífi og náttúrunni þar. Veðrið er líka óútreiknanlegt líkt og heima á Íslandi.“

Hermann segir dýralífið á Suðurskautslandinu magnað.
Hermann segir dýralífið á Suðurskautslandinu magnað. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hvaða lönd hafa staðið upp úr?

„Ef ég ætti að nefna þrjú lönd eða staði sem hafa staðir upp úr þá myndi ég segja suður Georgía, Víetnam og Grænland. Ég á þó enn eftir að heimsækja mörg lönd á næstunni og því gæti svarið breyst!

Efst á listanum trónir samt suður Georgía. Ég er nokkuð viss um að það sé enginn staður í heiminum þar sem maður sér jafn mikið dýralíf á jafn litlu svæði. Kóngamörgæsir í hundruði þúsunda tali og hundruðir sela liggjandi á ströndunum, ásamt miklu fuglalífi. Hef ekki séð neitt þessu líkt annarsstaðar.“

Ótrúlegt sjónarspil á ferðalagi Hermanns.
Ótrúlegt sjónarspil á ferðalagi Hermanns. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Sennilega þegar ég fór einn til Kúbu árið 2016. Ég man að það sumar var ég að vinna nánast hvern einasta dag sem leiðsögumaður hér á Íslandi og einn daginn þegar ég var þreyttur eftir vinnu tók ég skyndiákvörðun og bókaði „one way ticket“ til Kúbu. Þegar ég kom til Kúbu fékk ég alvöru menningarsjokk, enda gisti ég í  Havana í íbúðarblokk sem var í algjörri niðurníðslu og þegar ég fór út fyrsta daginn var eins og ég hefði farið 50 ár aftur í tímann. Kúbverjar eru líka rosalega gott og almennilegt fólk sem gerði upplifunina enn skemmtilegri. Svo má ekki gleyma romminu og vindlunum!“

Besti matur sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Ég hef nokkrum sinnum fengið hrikalega gott Pad Thai í Taílandi. Það er fátt sem toppar það! Svo fékk bestu pizzu sem ég hef smakkað í Hanoi í Víetnam – ótrúlegt, en satt!“

Hermann hefur gott auga fyrir ljósmyndun.
Hermann hefur gott auga fyrir ljósmyndun. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalögum þínum?

„Já, ég var að sigla slöngubát á Svalbarða í grennd við rostungahjörð. Það voru sennilega tvö hundruð rostungar á ströndinni að hvíla sig þar sem við vorum og sennilega í kringum 20 að synda í sjónum. Yfirleitt er rostungum nokkurn veginn sama þegar við erum að sigla bátunum nálægt þeim, nema þegar urta er með kóp, en ekki í þetta skipti.

Þegar ég er að stýra bátnum sé ég rostung nálgast mig hratt, sem lyftir svo hausnum upp úr vatninu og stingur með tönnunum í bátinn. Svo endurtekur hann sama leikinn aftur. Ég náði sem betur fer að bregðast fljótt við og koma mér í burtu. Annars hefði getað farið mjög illa enda geta fullvaxta karlkyns rostungar náð allt að tveggja tonna þyngd.“

Hermann lenti í ótrúlegu atviki á siglingu á Svalbarða.
Hermann lenti í ótrúlegu atviki á siglingu á Svalbarða. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnastur af?

„Mér finnst skemmtilegast að skoða landslag og fara í göngur, ásamt því að taka myndir á meðan. Aftur á móti þegar ég er í svona löngu ferðalagi eins og núna þá finnst mér líka skemmtilegt að tala við íbúana og kafa aðeins dýpra í menninguna þannig. Ég skoða líka alveg hina hefðbundnu túristastaði á hverjum stað en þó ekki alla. Mér finnst maður verði að passa sig að ferðalagið eigi ekki að vera einhver tékklisti því þá hættir maður að njóta.

Jafnframt finnst mér oft áhugavert að vera þar sem það eru færri ferðamenn vegna þess að þar sem það eru fleiri ferðamenn er oft búið að búa til öðruvísi umgjörð sem er sniðin að ferðamanninum. Þannig upplifir maður ekki staðina eins vel og hægt væri. Svo er líka alltaf gaman að prófa staðbundinn mat.“

Það er margt sem heillar Hermann við ferðalög.
Það er margt sem heillar Hermann við ferðalög. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hverjir eru uppáhaldsstaðirnir þínir á Íslandi?

„Þetta er mjög erfið spurning því ég á svo marga, en eftir mikla umhugsun ætla ég að segja eftirfarandi: Friðland að Fjallabaki eins og það leggur sig, bústaður fjölskyldunnar rétt hjá Hellu og svo Árneshreppur á Ströndum.“

Hvað getur þú sagt mér um ferðalagið sem þú ert á núna?

„Við erum núna á átta mánaða ferðalagi sem byrjaði 14. september síðastliðinn. Við erum búin að vera á Indlandi fyrstu vikurnar og förum svo til Nepal seinnipartinn í október. Það góða við ferðina okkar að við erum ekki búin að plana meira en þetta. Við viljum vera sveigjanleg og breyta til ef okkur líst vel á eitthvað og hætta við annað ef það passar ekki. En þó er gróft plan að halda áfram að ferðast um suður og suðaustur Asíu í október, nóvember og desember og halda svo til Eyjaálfu í janúar og febrúar. Restin er svo alveg óráðin.“

Hermann og kærasta hans eru á átta mánaða ferðalagi um …
Hermann og kærasta hans eru á átta mánaða ferðalagi um heiminn. Ljósmynd/Hermann Helguson

Hvað hefur staðið upp úr?

„Ég heimsótti fátækrahverfi í borginni Jaipur og það var hrikalegt að sjá aðbúnað fólksins og hvernig það býr. Þar eru engar skólplagnir þannig fólk þarf að gera þarfir sínar í kamra rétt hjá, foreldrar hafa ekki efni á að senda börnin sín í skóla, húsin þeirra leka þegar rignir, mikið rusl á svæðinu og fólk hefur ekki efni á læknisþjónustu. Þetta er vissulega ekki beint jákvæð upplifun en það var magnað að fá innsýn inn í þennan heim og tala við fólkið. Ég útbjó einmitt myndband um þessa heimsókn og setti á YouTube fyrir þá sem hafa áhuga á að horfa.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart?

„Það sem hefur komið mest á óvart hingað til er hversu rosalega fjölbreytt Indland er menningarlega séð. Ég vissi svo sem að menningin væri fjölbreytt áður en ég kom en ekki svona rosalega.“

Hvaða ferðalög eru framundan hjá þér?

„Eftir þessa átta mánaða reisu verður maður víst að fara að vinna aftur og safna pening, en ég vinn við að ferðast, sem er gott! Þá hefjast aftur siglingar umhverfis Ísland og til Grænlands með fyrirtækinu Iceland ProCruises. Ég reyni eflaust að ferðast eitthvað um Ísland næsta sumar. Svo veit maður aldrei hvað gerist í haust!“

Hvar er hægt að fylgjast með ferðalaginu ykkar?

„Við setjum reglulega inn myndskeið, svokölluð Vlog, á Youtube-rás undir nafninu mínu og svo erum við líka dugleg að setja inn myndir á Instagram.“

View this post on Instagram

A post shared by Hermann Helguson (@hemmi90)

mbl.is