Forréttindafemínismi og jafnrétti sumra

Kvennafrídagur | 24. október 2023

Forréttindafemínismi og jafnrétti sumra

Andrea Sigurðardóttir blaðamaður á Morgunblaðinu eignaðist dóttur í síðasta mánuði. Hún segir að barnsfaðir hennar hafi ekki tök á að taka orlof með barninu á móti henni, þótt hann sé allur af vilja gerður, og það bitni á dóttur þeirra. 

Forréttindafemínismi og jafnrétti sumra

Kvennafrídagur | 24. október 2023

Andrea Sigurðardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu er í fæðingarorlofi.
Andrea Sigurðardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu er í fæðingarorlofi.

Andrea Sigurðardóttir blaðamaður á Morgunblaðinu eignaðist dóttur í síðasta mánuði. Hún segir að barnsfaðir hennar hafi ekki tök á að taka orlof með barninu á móti henni, þótt hann sé allur af vilja gerður, og það bitni á dóttur þeirra. 

Andrea Sigurðardóttir blaðamaður á Morgunblaðinu eignaðist dóttur í síðasta mánuði. Hún segir að barnsfaðir hennar hafi ekki tök á að taka orlof með barninu á móti henni, þótt hann sé allur af vilja gerður, og það bitni á dóttur þeirra. 

Dóttir mín er mánaðargömul þegar þetta er skrifað en ég er þegar farin að undirbúa það að byrja að vinna aftur. Einhverjir kunna að spyrja sig hvers konar móðir það er, sem er komin með hugann við vinnuna á þessum dýrmæta tíma í lífi barns síns. Staðan er einfaldlega sú að það eru fáir kostir aðrir í stöðunni fyrir móður sem rekur heimili sitt ein og á mest rétt á sjö og hálfum mánuði í orlof.

Það er gömul saga og ný að tilraunir hins opinbera til að ná einhverjum göfugum markmiðum með því að hlutast til um líf fólks bitni á þeim sem síst skyldi. Það er tilfellið þegar kemur að þeim þröngu skorðum sem foreldrum eru settar við að skipta með sér fæðingarorlofi. Markmið með þeim er tvíþætt: Fyrst og fremst er þeim ætlað að auka jafnrétti kynjanna, með því að þvinga feður til þess að taka orlof til jafns við mæður, svo staða kynjanna á vinnumarkaði megi hugsanlega verða jafnari. Þá er þeim ætlað að „tryggja börnum samvistir við báða foreldra“ eins og það er orðað í greinargerð með nýjustu fæðingarorlofslögum frá árinu 2020.

Til upprifjunar er fæðingarorlof nú samanlagt tólf mánuðir sem skiptast jafnt milli foreldra. Annað foreldrið getur gefið hinu einn og hálfan mánuð af sínu orlofi, en ekki deginum meir, nema viðkomandi sé alvarlega veikur, í fangelsi eða örendur.

Fjórir og hálfur mánuður af misrétti barna

Því miður hefur barnsfaðir minn ekki tök á að taka orlof með barninu á móti mér, jafnvel þótt hann sé allur af vilja gerður, en þar sem hann er hvorki í fangelsi né sjúkur falla fjórir og hálfur mánuður af sameiginlegu orlofi okkar niður. Þetta eru fjórir og hálfur mánuður sem dóttir mín fer á mis við í samanburði við önnur börn, sem eru svo heppin að fjölskyldumynstur þeirra passar í einsleitt sniðmát regluverksins.

Ekki nóg með það, heldur munu þeir mánuðir sem við þó fáum saman litast af því að móðir hennar verður sífellt að reyna að ná inn vinnutímum hér og þar til að drýgja orlofstímann. Við getum þannig ekki einu sinni notið samvista okkar á þessum stutta og dýrmæta tíma til fulls.

En hvað leggjum við ekki á okkur í þágu jafnréttis annarra!

Ung menntuð móðir þvinguð í láglaunastarf

Ekki eru allir jafn heppnir og ég með sveigjanleika í starfi. Ég þekki til ungrar konu sem á barn með manni sem hefur ekki nokkurn áhuga á að taka þátt í lífi þess. Vegna sinnuleysis hans fær barnið aðeins sjö og hálfan mánuð í orlof og móðirin situr eftir í vonlausri stöðu. Unga konan er háskólamenntuð og starfaði áður við það sem hún hefur menntun til, á fínum launum.

Hún sá aftur á móti fram á að verða tekjulaus heima með barnið eftir sjö og hálfan mánuð, þar sem enga daggæslu var að fá. Hún neyddist því til að segja starfi sínu lausu og fara að vinna sem ófaglærður leikskólakennari, til að barnið kæmist að í daggæslu á starfsmannaforgangi og hún gæti þannig haft einhverjar tekjur eftir sjö og hálfs mánaðar orlofið, þótt mun lægri væru.

Dæmin sýna að samvistir barns við báða foreldra eru ekki með nokkru móti tryggðar með þessu fyrirkomulagi – og hvert er jafnréttið? Unga konan og barn hennar geta engu um sinnuleysi barnsföðurins breytt, hann einn ber ábyrgð á því. Þrátt fyrir það bera barn hans og móðir þess skaðann. Hún er þvinguð í láglaunastarf og barnið hennar er allt of ungt komið í umönnun utan heimilis, langa vinnudaga, á meðan jafngömul börn sambúðarforeldra njóta samvista við foreldra sína næstu fjóra og hálfan mánuðinn.

Farsæld allra barna

Forréttindafemínistar skella skollaeyrum við stöðu barna og mæðra í þessum sporum. Í þeirra huga er þetta nauðsynlegur fórnarkostnaður einhvers konar jafnréttis á vinnumarkaði. Jafnréttis í þágu sumra kvenna, en ekki allra. Hagsmuna sumra barna, en ekki allra.

Við mæðgur hvetjum stjórnvöld til þess að gera nauðsynlegar breytingar á regluverkinu sem tryggja farsæld allra barna. Það verður að tryggja að aðstæður og/eða ákvarðanir feðra bitni ekki á hagsmunum barna og mæðra sem einar bera ábyrgðina á uppeldi þeirra.

Það að láta hinar þröngu skorður eingöngu ná til sambýlisfólks og hjóna færi langt með að rétta stöðuna, en auðvitað færi best á því að treysta fjölbreyttum fjölskyldum nútímans til þess að ráðstafa fæðingarorlofi sjálfar, enda standa þær hagsmunum barna sinna næst – eða eru hagsmunir barnanna ef til vill ekki í forgrunni laganna?

mbl.is